08.11.1939
Neðri deild: 55. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

98. mál, verkamannabústaðir

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Í raun og veru þarf engu að svara þessum tveimur síðustu ræðumönnum, svo aumleg er framkoma þeirra á allan hátt.

Hv. 5. þm. Reykv. vil ég þó segja það, að sitji illa á nokkrum manni að tala um virðingarleysi Alþingis, þá situr það illa á honum. Manni, sem ekki hefir skirrzt við að láta hagsmuni þjóðar sinnar í einu og öllu sitja á hakanum fyrir hagsmunum erlends ríkis, — manni, sem ekki hefir vílað fyrir sér að senda til erlendra blaða ósannar fregnir, sem geta orðið stórhættulegar sjálfstæði landsins. Hv. þm. sagði m. a., að ég hefði ekki andmælt því, að aðstaðan til verkamannabústaðamálsins hér í Rvík hefði ekki verið misnotuð. Þetta er aldrei nema rétt, og það vita allir, að þetta hefir verið gert. Að ég ekki andmælti fullyrðingum hv. 3. þm. Reykv. um sakleysi sitt í þessum efnum, var af því, að það myndi hafa verið sama, hvaða sannanir ég hefði fært fram fyrir máli mínu, þá hefði það allt verið talið ósannindi.

Hv. 3. þm. Reykv. tel ég ekki heldur ástæðu til að svara frekar en ég þegar hefi gert. Hann mun halda áfram sínum sama vaðli, og það er vægast sagt lítil ánægja fyrir þingheim að hlusta á vaðal hans frekar en orðið er.