08.11.1939
Neðri deild: 55. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

98. mál, verkamannabústaðir

*Héðinn Valdimarsson:

Ég kannast vel við deilur þær, sem hv. þm. Snæf. var að minnast á, hvort vera skyldi eitt eða fleiri byggingarfélög í hverjum kaupstað, en ég get ekki fundið, að það sé réttmæt ástæða, sem borin var fram þá og hv. þm. Snæf. fór inn á nú, að byggingarfélögin væri hægt að nota pólitískt. Hitt er annað mál, hvort hægt hefði verið að halda því fram með einhverjum rétti, að Alþfl. gæti orðið of vinsæll af framkvæmdum sínum. Tilgangur slíkrar byggingarstarfsemi sem þessarar er eingöngu sá, að útvega félagsmönnum ódýra bústaði. En slík pólitísk áhrif geta aldrei orðið nema óbein. Geti menn nfl. komið sér upp bústöðum á ódýran hátt með því að standa margir saman, þá getur það verið þeim sönnun þess. að þeir geti komið fleiru í framkvæmd með því að standa saman heldur en vera sundraðir. Bein pólitísk áhrif í gegnum félagsskap sem þennan geta því ekki komið til greina, en það halda þeir hv. þm. Snæf. og hæstv. félmrh.

Hefði Byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna, eins og það var víst kallað, fengið sama rétt og Byggingarfélag alþýðu, hefði fé það, sem um var að ræða til byggingar verkamannabústöðum, farið í tvo staði, í stað þess að fara í einn. Ef þeir vilja fara eftir pólitískum skoðunum, þá geta þeir það. Ef þeir vilja fyrst og fremst kjósa slíka menn til þess að stjórna sínum byggingarmálum, þá geta þeir það. En það á ekki að útiloka menn frá því að taka þátt í slíkri starfsemi eingöngu af því, að þeir hafa ákveðnar pólitískar skoðanir, ef félagið hefir ekkert ógagn af því.

Það lítur út fyrir af ræðum hæstv. félmrh. og hv. þm. Snæf., að ég hafi verið einvaldur í þessu byggingarfélagi. Ég veit ekki til, að ég hafi haft þar annað vald en það, sem félagsmenn hafa gefið mér af fúsum og frjálsum vilja og með löglegum kosningum. Ef ég hefi haft áhrif, þá er það vegna þess, að mikill meiri hluti félagsmanna hefir fallizt á þær till., sem ég hefi komið með. Ég veit ekki til, að það hafi verið komið fram með nein mál önnur en þau, sem snertu beinlínis hag félagsins.

Það hefir verið talað um pólitískt ofurkapp, og er þar átt við þau mótmæli, sem komu fram gegn árás þeirri, sem gerð var á félagið með bráðabirgðal. Það má náttúrlega segja, að það sé pólitík að því leyti, sem það snertir mennina sjálfa.

Ég álít, að það sé hættuleg skoðun, að ef einn pólitískur maður fær það t. d. inn í sig, að hann hafi ekki nema lítið fylgi í félagsskapnum, þá noti hann löggjöfina til þess að kúga þennan félagsskap í stað þess að fara að því á heilbrigðan hátt að reyna að afla þeim málum fylgis innan félagsskaparins, sem hann vill koma fram.

Ég get frætt hv. þm. Snæf. á því, að um heimingur félagsmanna úr Félagi sjálfstæðra verkamanna var í Byggingarfélagi alþýðu, þegar árásin var gerð á það af félmrh. Þá voru komin inn í lög félagsins ákvæði um, að hægt væri að hafa sérstakar deildir innan félagsins, sem gætu stjórnað meira sínum málum. Það er til ennþá slík deild innan félagsskaparins, sem er aðallega samsett af mönnum úr Félagi sjálfstæðra verkamanna. Ég get fullyrt, að mikill hluti úr því félagi er eins mikið á móti bráðabirgðal. og hinir. (Forseti: Þetta átti aðeins að vera stutt aths.). Ég vil svo aðeins segja, að ég get ekki fallizt á þá skoðun, sem oft er að skjóta upp höfðinu, að það eigi að hafa hlutfallskosningar á öllum mögulegum stöðum, þar sem pólitík á ekki að hafa aðgang, eins og t. d. í byggingarfélaginu. Innan verklýðsfélagsskaparins eiga menn að geta haldið saman, þó þeir séu úr mismunandi flokkum.