08.11.1939
Neðri deild: 55. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

98. mál, verkamannabústaðir

*Thor Thors:

Það eru aðeins örfá orð. Hv. 3. þm. Reykv. vildi mótmæla því, eins og hann gerði 1934 að gömlu l. um verkamannabústaði hefðu gert ráð fyrir, að fleiri en eitt félag gætu starfað á sama stað. Það er nú samt þannig í l. frá 1931, að þar er í 3. og 5. gr. talað um félög í einum og sama kaupstað. Í 5. gr. segir, að öll slík félög njóti réttinda og stuðnings samkv. l. Hv. 3. þm. Reykv. veit, að hann hafði réttinn til þess að njóta þessara hlunninda af þeim mönnum, sem voru í Byggingarfélagi sjálfstæðra verkamanna. Hann veit, að aðalástæðan fyrir ofurkappi hans í því að koma löggjöfinni í gegn var að meina þessum mönnum að njóta þeirra réttinda, sem l. höfðu fengið þeim í hendur.

Það er því býsna einkennilegt, þegar þessi hv. þm. þykist vera að bera hagsmuni þessara manna fyrir brjósti, þar sem hann hefir áður komið þannig fram. Verkamenn muna sjálfsagt fyrri aðgerðir þessa hv. þm. í þessu máli og kunna honum því fitlar þakkir fyrir, þó hann nú tali hlýlega í þeirra garð í þeirri fölsku von, að geta haft pólitískan ávinning af því. En þar mun honum skjátlast.

Það kemur mér ekki á óvart, þó hv. þm. þykist vera mótfallinn hlutfallskosningum í ýmsum félögum, sem ríkisvaldið hefir meiri og minni íhlutunarrétt um. Það er vitanlegt, að lýðræðiskenndin ristir ekki djúpt hjá þessum hv. þm., og hefir aldrei gert.