27.11.1939
Neðri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

98. mál, verkamannabústaðir

*Héðinn Valdimarsson:

Þetta nefndarálit er náttúrlega ekkert álit og segir ekkert, og brtt., sem lögð er fram, nær ekki neinni átt. Hv. þm. N.-Ísf. lætur ekki svo lítið að koma með ástæðu fyrir þessari tillögu.

Hér í þinginu hafa staðið miklar deilur um þetta mál. Árið 1934 voru aðalumræðurnar um það og var afstaðan í stórum dráttum sú, að Alþfl.-menn og framsóknarmenn voru með því alveg ákveðið, að aðeins eitt félag á hverjum stað skyldi hafa rétt til sjóðsins. M. ö. o., að þau félög, sem hefðu starfað, skyldu hafa réttinn, en sjálfstæðismenn héldu því fram, að svo mörg félög sem risu upp skyldu hafa rétt til sjóðsins. Afstaða allsherjarnefndar nú er afstaða Sjálfstfl. 1934, sem hinir flokkarnir voru algerlega á móti. Eins og kunnugt er, sigraði stefna Alþfl. og Framsfl. og ákvað þingið, að aðeins eitt félag skyldi hafa rétt til sjóðsins, enda sér hver maður, að með ekki stærra sjóði getur ekki verið vit að láta ótakmarkaðan fjölda af félögum hafa aðgang að honum. Enda er full trygging fyrir því, að þessi hlunnindi koma rétt niður, þar sem í l. stendur, að allir geti verið félagsmenn í því félagi, sem er á staðnum, og í öðru lagi, að allir fái rétt eftir því sem þeir koma inn, og í þriðja lagi, að hægt sé að hafa fullt eftirlit með félaginu, bæði af hálfu bæjarstjórnar og stjórnar byggingarsjóðsins.

Ef maður setur sig í spor þeirra manna, sem eiga að nota þetta, — ég geri ráð fyrir, að sérstaklega sé verið að hugsa um þá, en ekki þá, sem eiga að setjast í stjórn, eins og þó virðist vera samkv. frv. — og gangi maður út frá, að fjöldi manna þurfi á góðum íbúðum að halda, — hvernig verður aðstaða þeirra, þegar ekki er fullvíst, hvaða félag eigi réttinn? Við skulum hugsa okkur, að til væri byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna, sem sjálfstæðismenn að vísu stofnuðu, en aldrei komst það langt, að það sækti um styrk, og svo síðar félag félagsmálaráðh., og vil ég beina þeirri spurningu til hv. þm. N.-Ísf., í hvaða félag hann ætti að ganga. Hann yrði að ganga í þau öll. En með lögunum var mönnum tryggt, að með því að ganga í elzta byggingarfélagið á staðnum og fá númer þar fengu þeir hús eftir því, sem röðin kom að þeim. Mér dettur líka í hug, að veitingar úr sjóðnum muni ekki koma réttlátar niður, þegar fara á eftir geðþótta sjóðsstjórnarinnar heldur en þegar löggjöfin hefir tryggt, að því valdi, sem sjóðsstjórn er fengið í hendur, sé ekki hægt að misbeita. Ég sé ekki heldur, að hvaða leyti það er betra fyrir sjóðsstjórnina að ákveða þetta sjálfa en að láta ákveða það fyrir sig, og áreiðanlega verða úr þessu pólitísk hrossakaup, ef ekki eru ákveðnar reglur til að fara eftir.

Annað atriði er það líka, sem algerlega mælir á móti þessu: Það er vitað, að byrjunarerfiðleikar við slíkar byggingar eru miklir, og hverjir sem byrja og hafa ekki reynslu, gera axarsköft, sem hægt væri að komast hjá. Ef öll þessi félög ættu nú að fara að byrja á byggingum, koma fram erfiðleikar, sem kosta þau mikið fé. Þau gætu ekki heldur notið þeirra kjara, sem fást með byggingum í stórum stíl.

Ég get ekki séð, að hér búi annað undir hjá nefndinni en að reyna að komast framhjá þeim bráðabirgðalögum, sem hæstv. félmrh. gaf út, og styrkja það félag, sem hann hefir stofnað, og til þess að koma pólitískum lit á málið og „settla“ það á venjulegan þjóðstjórnarhátt á bak við tjöldin án þess að nokkur viti um það. Mér þykir það einkennilegt — ja, ekki einkennilegt —, en lýsa vel ástandinu, ef þm. Alþfl., eins og þeir voru ákveðnir 1934, ætla að sýna sig með þessu. Hv. þm. N.-Ísf. var nú svo heppinn að vera þá ekki á þingi, og því er hann fenginn til þess að bera fram þessa tillögu.

Ég vil nú leyfa mér að lesa hér upp úr ræðu Stefáns Jóh. Stefánssonar, sem þá var bara óbreyttur þingmaður, en ekki hæstv. félmrh., sem ber ábyrgð samkvæmt þjóðstjórninni. Hann segir svo 1934:

„Ég held. að kjarninn í þessu máli sé allur annar, eins og líka kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv. Hann var að tala um fríðindi og framdrátt foringjanna, eins og hann orðaði það, sem hefði haft áhrif í þessu máli. Ég ætla, að það hafi komið upp einskonar öfund meðal sjálfstæðismanna út af hinni myndarlegu starfsemi Byggingarfélags verkamanna á undanförnum árum og að þeir hafi viljað fara í einskonar kapphlaup um þetta félag og reyna með því að ávinna sér traust verkalýðsins í bænum. En þeir byrjuðu bara á öfugum enda. Þeir áttu að benda sínum fylgifiskum á að ganga í þennan félagsskap og reyna að hafa áhrif til breytinga á honum, en ekki að stofna nýtt félag. .... Ég sé engin rök, sem mæla sérstaklega með því. Nú er það vitað, og hefir ekki verið mótmælt, að Byggingarfélag verkamanna í Reykjavík veitir öllum inntöku, sem þangað sækja. Þar er ekki spurt um pólitískar skoðanir manna, er þeir leita upptöku. .... Ég held þess vegna, að ekki sé ástæða til að ætla, að brtt. minni hl. allshn. sé sprottin af neinni sérstakri umhyggju fyrir hugmyndinni um byggingu verkamannabústaða hér í Rvík, heldur vegna þess, að þeir vilja reyna að koma á fót félagsskap sinna trúuðu manna“. Og geta nú hv. þingmenn, til þess að gera sér grein fyrir, hvernig þetta mál stendur frá sjónarmiði hæstv. félagsmálaráðherra, sett alþýðuflokksmenn í staðinn fyrir sjálfstæðismenn.

Ég verð að segja það, að ég get ekki séð annað en að það hljóti að verða til skaða fyrir málið að fara að opna rúm fyrir ótölulegum grúa félaga, enda er þetta af svo lágum hvötum sprottið, að það er ótrúlegt, að hægt sé að fá meiri hluta þingsins til að greiða atkv. með því, og mun ég greiða atkv. móti bráðabirgðalögunum og líka á móti þessari brtt., sem aðeins er borin fram til þess að fela aðalatriði málsins og koma sókninni af sér.