27.11.1939
Neðri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

98. mál, verkamannabústaðir

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég vil þakka fyrir afgreiðslu þessa máls í hv. allshn. og er því samþykkur, að þessi till. nái fram að ganga. Þetta er til þess nánar að undirstrika það, að ekki sé nema eitt félag á hverjum stað, sem njóti réttinda til þess að fá lán úr byggingarsjóði, og þegar félag vill neyta réttar síns, þá leyni það sér ekki, hvaða félag það er, sem hefir réttinn. Það er það félag, sem hefir fengið skipaðan formann eftir lögunum, og það eitt hefir réttinn til þess að fá lán úr sjóðnum. Meira er það ekki, sem ég þarf að segja, því mestur hlutinn af ræðu hv. 3. þm. Reykv. var byggður á misskilningi og þarf því ekki frekari svara.