27.11.1939
Neðri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

98. mál, verkamannabústaðir

*Héðinn Valdimarsson:

Ræða hv. þm. Barð. var byggð á eintómum misskilningi. Hv. þm. hefir augsýnilega ekki kynnt sér málið nógu vel áður en hann tók afstöðu til þess. Ég veit. að hv. þm. er það kunnugt, að þetta, sem nú er lagt til, að fellt verði burt, er einmitt það, sem deilt var um 1934. Ef þetta væri numið burtu, yrði það aðeins til að koma meiri ruglingi inn, og það er engin ástæða til þess. Hv. þm. þarf ekki að láta sér koma til hugar, þótt þessi málsgr. verði felld burt, þá geti ekki risið upp fleiri en eitt byggingarfélag á hverjum stað. Sem betur fer er enn fullt félagafrelsi hér á landi. Það er t. d. gefið, að hér í Reykjavík verða 2 byggingarfélög.

Hv. þm., sem til máls hafa tekið, hafa ekkert komið að því afriði, sem er eitt aðalatriði þessa máls. Það eru afskipti ríkisstj. af þessu máli, sem orðið hafa þess valdandi að gera allan þann glundroða, sem komizt hefir á þessi mál hér í Reykjavík.

Það er misskilningur hjá hv. þm. Barð., að Byggingarfélag alþýðu hafi ekki undirgengizt bráðabirgðalögin. Að sjálfsögðu gat það ekki haft þau ákvæði í sínum l., sem bráðabirgðalögin gera ráð fyrir, áður en þau voru sett eða samstundis, því að þau voru einmitt sett til þess að koma félaginu af lagagrundvellinum. En það fyrsta, sem gert var, var að kalla saman fund í byggingarfélaginu, sem nákvæmlega uppfyllti ákvæði bráðabirgðalaganna. Það kom líka fram við l. umr., að það var ekki þetta, sem var í veginum, heldur voru það ýmiskonar „tiktúrur“, sem hæstv. félmrh. kom með, eins og það, að formaðurinn hefði átt að standa fyrir kosningu meðstjórnenda sinna. Í sambandi við þetta kom hann með ýms skilyrði, sem voru svo mikil sjálfhelda fyrir byggingarfélagið, að ómögulegt var fyrir það að ganga að þeim. Mér finnst, að n. hefði átt að athuga það atriði, hvort nokkur ástæða væri fyrir hæstv. ráðh. að setja þessi bráðabirgðalög, og hvert gagn þau hefðu gert. Ég verð líka að segja það fyrir mitt leyti, að ég tel ekki rétt að heimta það af samvinnufélagsskap eins og þeim, sem hér er um að ræða, að hann hafi stjórnskipaðan formann. Hvers vegna mega slík félög ekki halda áfram að hafa sitt frjálsa skipulag? Og mér finnst það undarlegt, þegar þeir menn, sem telja sig samvinnumenn, ætla að beita sér fyrir því, að ríkisstj. fái slíkt vald yfir samvinnufélögum, því að það má þá lengi halda áfram í þá átt, þegar einu sinni er gengið inn á þessa braut. Það er ekki víst, að Framsfl. verði alltaf í meiri hluta hér á Alþingi. Það getur verið, að aðrir flokkar komist í meiri hluta á þinginu. Ef til vill gæti þessum flokkum þótt gott að geta skipað formenn í ýmsum samvinnufélögum. Ég er þess vegna mótfallinn þessu fyrirkomulagi.