27.11.1939
Neðri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

98. mál, verkamannabústaðir

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Það kemur í ljós á öllum tímum, að illur fengur illa forgengur. Þegar l. um verkamannabústaði voru sett árið 1931, var aðalástæðan sú, að framsóknarmenn þurftu á einhvern hátt að gera ánægða samherja sína eða samstarfsmenn, sósíalistana. Það er einn galli á lýðræðisfyrirkomulaginu, að svona hlutir ern venjulega gerðir með fé borgaranna. Til þess að treysta samvinnuna féllst Framsókn á það, að sósíalistar fengju að skattleggja borgarana til þess að geta safnað um sig fylgismönnum á því að byggja yfir þá hús í kaupstöðum landsins. Voru menn skattlagðir þannig, að fyrst skyldi greiða eina krónu á mann til þessarar starfsemi, en síðan var framlagið hækkað upp í tvær krónur á mann, og þar næst skyldi ríkissjóður leggja fé í þennan sjóð, svo að sósíalistar gætu safnað fylgi í kaupstöðum á því að útvega fólki góðar íbúðir. Þetta voru mikil fríðindi, því að ekki mun hafa munað minna en helmingi á því, hversu ódýrara var að lifa að því er húsnæði snerti fyrir þá, er fengu það á þennan hátt, en hina, sem urðu að útvega sér fé til bygginga á venjulegum lánamarkaði. Við mótmæltum þessu þá nokkrir þm. á þeim grundvelli, að verið væri að nota fé skattþegnanna í pólitískum tilgangi, til þess að gefa samherjum Framsóknar í kaupstöðum skilyrði til þess að afla sér fylgis. Að vísu var því mótmælt af meðhaldsmönnum frv., að það væri mögulegt, að nokkur pólitískur flokkur gæti haft pólitíska hagsmuni af þessu. Ég var ef til vill dálitið ógætinn í orðalagi mínu í deilu við hv. 3. þm. Reykv., er ég sagði, að þetta myndi verða einskonar virki sósíalista og kommúnista hér í bæ, á svipaðan hátt og var í Vínarborg. Þetta hefir ekki komið fram enn á sama hátt og þar, en það getur komið fram á sínum tíma. En það er a. m. k. komið fram, að hér var um pólitísk fríðindi að ræða. Hæstv. félmrh. hefir líka lýst yfir því með því að nota fyrstu dagana af sinni ráðherratíð til þess að taka þetta allt í sínar hendur. Því var líka rétt að segja, að þetta var illur fengur. En hefir hann þá forgengið illa? Já, fyrir hv. 3. þm. Reykv. hefir hann forgengið mjög illa. Og ég get bætt við, að eftir lýsingu þeirri, sem hv. 3. þm. Reykv. hefir gefið á aðferðinni, sem notuð var við að ná þessu úr höndum hans, þá hefir hann einnig forgengið illa fyrir hinn aðilann, því að sú aðferð var, eftir lýsingunni, mjög óeðlileg og jafnvel ljót.

Það er því rétt, að þetta var fengur fyrir sósíalista að fá. En nú er farið að bera á allmiklum hernaði milli þessara flokksbrota um það, hvorir skuli njóta fengsins. Ef allt væri með eðlilegum hætti, kysi ég heldur, að Alþfl. nyti hans en kommúnistar og gæti því samþ. brbl., því að mér þykir líklegra, að Alþfl. hegði sér skikkanlega í þjóðfélaginu um sinn en kommúnistar og geri minna ógagn í þjóðfélaginu en kommúnistar með því að draga til sín atkvæði manna. En ég verð hinsvegar að segja, að ég hefi ekki geð í mér til að gefa þeim atkv. mitt.