27.11.1939
Neðri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

98. mál, verkamannabústaðir

*Sveinbjörn Högnason:

Ég vil aðeins út af ræðu hv. 4. þm. Reykv. lítillega benda á 2 atriði, sem komu fram. Fyrra atriðið er um það, hversu þetta mál um verkamannabústaði hefir algerlega sigrað og verið talið réttmætt af öllum, þar sem hv. 4. þm. Reykv. var aðalandstæðingur þessa máls á þingi 1935. Síðara atriðið var um það, hversu ægilegar grunsemdir hv. 4. þm. Reykv., sem er jafnframt borgarstjóri, vekur hjá mönnum um yfirstjórn hans á Reykjavík.

Fyrra atriðið, hversu löggjöfin hefir sigrað, kemur fram í því, að þessi aðalandstæðingur málsins, þegar lögin voru sett, viðurkennir, að þessi löggjöf hafi verið fengur fyrir þá, sem að því stóðu að koma henni fram. Nú vil ég spyrja hv. þm.: Getur nokkur löggjöf verið fengur fyrir þá, sem eiga upptök að henni, nema hún sé góð? Ég hygg það mælikvarða á löggjöf, sem sett er, ef hún er góður fengur fyrir þá, sem að henni standa. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að það kemur fram, til hvers félag sjálfstæðra verkamanna var stofnað, þar sem nú er játað af þeim, sem að því stóðu, að um pólitískan hagnað sé að ræða fyrst og fremst með því að standa að slíkum félagsskap. Hér vildi hv. 4. þm. Reykv. aðeins uppskera þar, sem hann sáði ekki, og sárnar mjög, að það skyldi ekki takast. Það leynir sér ekki um það frv. um breyting á l. um verkamannabústaði, sem borið var fram af Sjálfstfl. 1934, um að þeir gætu stofnað sérstök félög. Tilgangurinn til þess var að reyna að fá pólitískan hagnað af því. En hitt atriðið, um þær grunsemdir, sem komu fram í ummælum hv. 4. þm. Reykv., þegar hann talaði um það, hvað mikið pólitískt atriði það væri að ráða yfir byggingarstjórn verkamannabústaðanna hér í Reykjavík, og þessar grunsemdir koma frá manni, sem ræður mestu ef ekki öllu í Reykjavíkurbæ. Mér fyrir mitt leyti finnst það koma óþægilega við, þar sem fjárráð og peningar eru í höndum þessa manns, og að það sé ekki alveg loku fyrir það skotið, að þær hugrenningar komi í hug þessa hv. þm., að þetta sé pólitískur fengur fyrir hann. Enda er margt svo í þeim rekstri, að framkvæmdin verður að vera leynd, og dylst það engum, að það getur a. m. k. verið töluvert varhugavert, þegar slíkar grunsemdir koma frá manni, sem hefir stjórn á hendi. Þessi 2 atriði hefi ég viljað benda á í umr., sem farið hafa fram um þetta mál.

Lögin um byggingu verkamannabústaða hafa nú algerlega sigrað. Þau hafa reynzt góð í framkvæmdinni og réttlát. Aðalandstæðingur þeirra, hv. 4. þm. Reykv., telur þau lán og feng, af því að þau lentu ekki í hans hlut. Það er bersýnilegt, að hann langaði til að fá brtt. borna fram á þingi 1934. Þar með lýsir hann yfir afstöðu sinni í þessu máli. Hann hefir átt þar betri hluta, og það er ekki nema gott. Um hitt atriðið, sem er aðalefni þessa frv., að ríkisstjórnin skipi einn í stjórn þessa byggingarsjóðs um leið og stjórnin leggur fé til, er ekki nema eðlilegur hlutur, því það er vitanlegt, að í stjórn þessa byggingarsjóðs hafa verið næstum eingöngu menn, sem lítils trausts hafa notið þjá þjóðinni. Það er því ekki nema eðlilegur hlutur, að stjórnin vilji hafa hönd í bagga með, hvernig þessu fé er varið, og er réttlátt, að hún hafi einn mann af 5, sem stjórna.