29.11.1939
Neðri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

98. mál, verkamannabústaðir

*Einar Olgeirsson:

Í sambandi við 2. umr. var farið allýtarlega í þetta mál. Það kom þá í ljós, að hæstv. félmrh., er gefið hafði út bráðabirgðalögin, hafði engin rök fyrir máli sinu að færa. Í öllum ræðum sínum hélt hann því fram, að Byggingarfélag alþýðu hefði sett þau skilyrði, sem ekki hefði verið hægt að ganga að. Þessi staðhæfing hæstv. ráðh. var hrakin af hv. 3. þm. Reykv., enda þorði hæstv. ráðh. ekki að lesa upp þessar samþykktir máli sinu til sönnunar. Hann þorir ekki að játa það, að hann hefir sjálfur flækt sig þannig í málinu, að hann getur ekki losnað nema með því að beita gerræði. Hv. þm. hafa líka viðurkennt í ræðum sínum eða með þögninni, að þeim þykja aðfarirnar ljótar, eða eins og einn þm. sagði, að hann hefði ekki geð í sér til þess að greiða atkv. með bráðabirgðalögum, sem þannig væru fram komin. Aðrir hv. þm., sem standa nær hæstv. ráðh. í skoðunum, hafa ekki haft geð í sér til þess að verja þessa framkomu hans; hann einn hefir reynt að verja gerðir sínar. Enginn þm. hefir viljað taka á sig ábyrgðina, og nefndin, sem um málið hefir fjallað, hefir ekki viljað leggja neinn dóm á það, hvort bráðabirgðalögin væru nauðsynleg eða ekki, og sumir hv. nefndarmanna hafa meira að segja beinlínis lýst því yfir, að þau væru óþörf. Nú á samt að þvinga málið í gegnum þingið, án þess að nokkur þm. sé því raunverulega samþykkur, aðeins vegna þess, að búið er að binda þm. svo með samningum á bak við tjöldin, að þeir þora ekki að fylgja sannfæringu sinni.

Vonandi verða það fá mál, sem fara á þennan hátt í gegnum þingið. En þetta er eitt hróplegasta dæmi þess, hvernig virðist vera stefnt að því að gera A1þingi að handbendi lítillar stjórnarklíku, sem fær öllum sínum málum framgengt, enda þótt öllum þm. ofbjóði aðfarirnar.

Við þm. Sósíalistafl. höfum oft skorað á hv. þm. að halda á þeim rétti, sem þingið á að hafa, og ég vona, að þeir þm., sem eru okkur sammála um, að hér hafi verið beitt gerræði, sýni það líku við atkvgr. og þori að fylgja sannfæringu sinni.

Annars er óþarfi að rökræða þetta mál frekar, umr. hafa farið mjög á einn veg, enginn hefir fengið sig til þess að verja þessi bráðabirgðalög, en allir, sem talað hafa, hafa látið í ljós andúð sína á bráðabirgðalögunum.

Af alþýðu manna hefir þess verið beðið með óþreyju, hvernig Alþingi tæki þessum bráðabirgðalögum. Því miður virðist meðferð Alþingis ætla að valda þeim vonbrigðum, sem vænzt höfðu réttlætis í málinu. Þó vil ég enn vona, að allir hv. þm., sem líta á setningu bráðabirgðal. sem óréttmæta, greiði atkv. móti þessum lögum.