29.11.1939
Neðri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

98. mál, verkamannabústaðir

*Pétur Halldórsson:

Það var aðeins eitt atriði, sem mér finnst ég ekki geta sleppt framhjá mér án aths. Hæstv. félmrh. og hv. 1. þm. Rang. féllu báðir fyrir þeirri freistingu að segja, að það sæti ekki á mér, sem væri borgarstjóri Reykjavíkur, að fjandskapast við lögin um verkamannabústaði, það væri ekki nema eins og mynd af bæjarstjórnarmeirihl. í bænum, þegar ég sýndi verkamönnum með þessu beinan fjandskap, og annað ekki. Þó að ég hafi áður skýrt afstöðu mína og meira gæti í þessum ásökunum rangfærslna en misskilnings, verð ég að leiðrétta aðalatriðin. Ég er, eins og ég hefi verið, á móti þessum lögum, af því að þau skapa misrétti, auk þess sem þau voru í upphafi pólitískur fengur fyrir einn ákveðinn flokk. Um líkt leyti og lögin voru sett kom stjórnarflokkunum, Framsfl. og Alþfl., saman um að loka, eða sama sem loka, veðdeild Landsbankans. Í stað veðdeildarinnar átti að setja upp lánastarfsemi handa svona byggingarfélögum einstakra manna, sem áttu að njóta sérréttinda, ábyrgðar ríkissjóðs og annara fríðinda, og þeim var aflað mikils fjár til að byggja fyrir, með sköttum, sem reyttir voru af borgurunum til hins opinbera. Afstaða mín hefir gagnstætt þessu alltaf verið sú, að ríkið ætti að stuðla að því, að þægileg lán fengjust út á fasteignir og þannig, að það sé alveg áhættulaust fyrir hið opinbera. Með lögum um samvinnubyggingarfélög er veitt ríkisábyrgð, sem nemur allt að 85% kostnaðarverðs húsanna. En gegnum veðdeildarlán tók hið opinbera aldrei á sig meiri áhættu en svaraði 2/3 af matsverði. Í sérlöggjöf þessara 2 flokka, miðaðri við einkahagsmuni þeirra, var farið allt of langt á varhugaverða braut. Áður var reglan að veita aðeins 1. veðréttar lán út á hús, en með mjög sæmilegum kjörum. Á sínum tíma var farið fram á, að ríkið hjálpaði einnig til, að lán fengjust út á 2. veðrétt, og víst hefði það verið æskilegt. En þá áttu allir að vera jafnir fyrir lögunum og hafa rétt til lána. Stefna áður nefndra flokka var hinsvegar þannig framkvæmd, að t. d. hér í Reykjavík hafa 2–3 félög fengið stuðning til að byggja yfir stofnendur sína sem flesta, og síðan ekki söguna meir. Þau sérréttindi, sem þeir tiltölulega fáu menn njóta, sem komizt hafa að í þessum félögum, eru borguð af skattþegnum, sem gert er ókleift að byggja. Slík sérréttindi eru óþolandi, sem fyrst og fremst eru takmörkuð við þá menn, sem á tiltekinni stundu geta lagt fram tilskildar fjárupphæðir til byggingar, og í öðru lagi takmörkuð við hóp manna, sem af meira og minna pólitískum ástæðum hafa komizt fyrstir í félögin.

Það er því rangt, þegar sagt er, að við séum á móti verkamannabústöðum, þó að við séum á móti slíkri löggjöf, sem á slíkan hátt er framfylgt. Það er rangt, að við sýnum fjandskap við alþýðu með því að krefjast þess, að til séu haganlegir lánsmöguleikar handa þeim einstaklingum, sem vilja byggja hús. En nú gengur þetta ekki lengur, að veita stórfé til byggingarfélaganna með ríkisábyrgð. Það hefir verið neitað um meiri lán handa þeim. Hvað verður þá tekið til bragðs, svo að byggingar stöðvist ekki? Ég veit ekki, hvað aðstandendur þeirrar löggjafar ætlast fyrir, þegar svo er nú komið, að ekki þykir fært að veita félögunum þau fríðindi, sem þau eiga að lögum. — Þó að nú standi til að byggja einar 40 íbúðir, hrekkur það skammt, breytir eiginlega engu um ástandið; slíkt happdrætti á kostnað fjöldans er ekki lausnin á byggingarmálum bæjarins. — Ég hygg, að heilbrigð lausn sé ekki önnur til en að stuðla að því, að veðdeild Landsbankans geti aftur farið að veita lán, ekki aðeins í bréfum, heldur í peningum til lántakenda.

Um þá ásökun, að Reykjavíkurbær hafi ekkert gert til að auka byggingar, er það að segja, að ég álit hann geri rétt að skipta sér ekki af því beint, hvað byggt er. Sósíalistar vilja, að bærinn hefji byggingar í stórum stíl. Það hefir verið gert víða á Norðurlöndum. En þá kemur á daginn, að þau afskipti hafa orðið til mikillar bölvunar. Að sama skapi og bæirnir hafa tekið að sér að byggja hafa byggingar einstaklinga og fyrirtækja þorrið og húsnæðisástand í rauninni sízt orðið betra en með frjálsu framtaki einstaklinga. Hér hefir ekki verið lagt út á þessa braut. — Að vísu á bærinn nokkur hús. Og það er rangt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að það séu einhverjar verstu íbúðir í bænum. Íbúðirnar eru góðar. Náttúrlega fer það, eins og um ábýli annarstaðar, nokkuð eftir því, hvernig þær eru setnar. En það er hver maður vel sæmdur af að búa í þeim. — Það eina, sem farið var út á þessa braut hér, var að setja húsaleigulög í fyrra stríði og halda þeim síðan við alllengi eftir það. Margir bentu á, að þau drægju úr byggingum og spilltu þannig því, sem þau áttu að bæta. Þetta varð mikið hitamál. Þeir, sem enn vilja sem mest afskipti hins opinbera af slíku, vildu halda í lögin og sögðu, að afnám þeirra þýddi vandræðaástand. Meðan lögin stóðu voru vandræði. En þegar búið var loksins að afnema þau þá fóru menn að byggja, og ástandið lagfærðist brátt til mikilla muna. Meðan hömlur voru minnstar var mest byggt, og þótti sumum ískyggilega mikið. Það er a. m. k. auðséð af þessu, að ekki hafa afskipti hins opinbera aukið húsnæðið í Rvík, ef á heildina er litið. Það ber allt að sama brunni, að þessi lög um verkamannabústaði eru ekki lausnin á byggingarmálunum, heldur hitt, að veita þann aðgang að lánum, sem sé jafn fyrir alla, og láta svo einkaframtakið sjá um þetta.