29.11.1939
Neðri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

98. mál, verkamannabústaðir

*Héðinn Valdimarsson:

Það voru aðeins nokkrar aths. út af ræðu hv. 4. þm. Reykv. Ég hygg að fáir bæir á stærð við Reykjavík séu lakar og óhentugar byggðir, sóðalegri og óviðunanlegri yfirleitt til frambúðar. Ekki þarf annað en ganga hérna um göturnar til að sjá þessa tilhögun eins og hún er og skilja, að þetta borgar sig ekki. Nýbyggingar og nýtt skipulag samfara þeim mundu gera bæinn ódýrari í rekstri, auk þess gagns. sem vart verður metið í tölum.

Hv. þm. hefir aldrei skilið og skilur ekki enn, að þeir menn, sem minnst eru fjáðir, þurfi sérstaka aðstoð til þess að geta notið jafnréttis og t. d. eignazt þak yfir höfuðið. Hann kallar þá aðstoð sérréttindi. Hann telur það eitt rétt, að t. d. veðdeild sé jafnopin öllum, svo að þar fái allir, og líka þeir fátæku, það sem þeir vilja. — En hvað fá þeir þá? Þeir fá það versta af leiguhúsnæði bæjarins, úrganginn frá þeim, sem betur eru settir, en gegn hárri leigu. Þannig er jafnréttið. Ég held, að ef hv. þm. hefði kynnt sér muninn á íbúðum manna í verkamannabústöðunum fyrir og eftir að þeir fluttust þangað, mundi hann ekki tala með lítilsvirðingu um þá húsnæðisbót, sem þó dálítill hluti efnalítilla bæjarmanna hefir þar fengið. Hefði hann séð t. d. öll börnin, sem voru heilsuveil og sílasin vegna slæms húsnæðis, en með alveg nýrri heilsu í verkamannabústöðunum, gæti hann ekki staðhæft, að það sé röng stefna að byggja þá. Það er ekki rétt, að íbúðir í verkamannabústöðunum hafi fallið neinum í skaut sem verðlaun fyrir flokkshollustu. En það er hægt að verðlauna ýmsa góða sjálfstæðismenn á annan hátt, — með því að útvega þeim trygga leigjendur í íbúðir, sem bærinn greiðir leigu af. Það er heill flokkur manna innan Sjálfstfl., sem nýtur þeirra verðlauna. Ég vil mótmæla því fyrir hönd mína og Alþfl., eins og hann var, þegar ég var í honum, að við höfum verið með í því að loka veðdeildinni.

Að lokum vil ég benda á, að hér í bænum eru starfandi byggingarsamvinnufélög, sem notið hafa ábyrgðar ríkissjóðs og fengið mikið fé til umráða. Það hafa margir efnamenn notið fríðinda í þessum félögum, hæstv. félmrh., Stefán Jóh. Stefánsson, er einn þeirra, sem þannig hafa eignazt hús. En ekki hefir hann séð ástæðu til þess að setja bráðabirgðalög um stjórnskipaða formenn þar.