23.11.1939
Efri deild: 67. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

121. mál, póstlög

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Þetta frv. er fram borið fyrir ósk póst- og símamálastjórnarinnar og útbúið af henni. Hún telur brýna þörf á, að póstlögunum sé komið fyrir í eina heild, sem sé sæmilega yfirlitsgóð og jafnframt verði þar þær breyt., sem breytt viðhorf og ástæður gera nauðsynlegt.

Eins og sakir standa eru póstlögin í mörgu lagi. Póstlögin sjálf eru frá 1921, en breyt. hafa verið gerðar á þeim 1925, 1929, 1932 og 1935. Lögin, eins og þau eru, eru því mjög óaðgengileg, bæði fyrir allan almenning og jafnvel fyrir póstmennina sjálfa. Í l. gætir einnig ósamræmis, bæði í orðavali og skilgreiningu á ýmsum hugtökum, sem enda má segja, að sé eðlilegt, því að þessi stofnun hefir staðið síðan 1872. Hafa orðið svo róttækar breyt. í þessu efni, að eðlilegt er, að ýmiskonar ósamræmis gæti. Póststjórnin hefir með hverju ári, sem líður, fengið ný og ný verkefni við að fást, og munu sum af þeim hafa verið ákveðin með reglugerð, sum með l., en um sum hefir ekkert verið ákveðið, hvorki með l. eða reglugerð. Það lá fyrir að semja og gefa út nýjan leiðarvísi fyrir póstmenn og reglugerð um notkun pósta, og þá leit póststjórnin svo á, að nauðsynlegt væri að ganga fyrst frá póstlögunum. Varð þá að gera annað tveggja, prenta gömlu póstlögin, svona sundurlaus og slitrótt, eða steypa þeim í eina heild og reyna að gera á þeim þær breyt., sem þróun tímans og breyttar ástæður kalla á, og færa til samræmis við það, sem gildir hjá öðrum þjóðum, og þó einkum hjá Norðurlandaþjóðunum, eftir því sem aðstaðan leyfir með hliðsjón af íslenzkum staðháttum. Var horfið að því síðarnefnda, og er frv. því borið hér fram.

Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til samgmn.