07.11.1939
Neðri deild: 54. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

Jón Pálmason:

Hæstv. viðskmrh. svaraði þessum aths., sem ég kom með, í svipuðum tón og ég bar þær fram, mjög rólega, og sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að ræða í bróðerni um þetta.

En svar hans gefur mér tilefni til að segja um málið falsvert fleira en ég hefi enn tekið fram.

Hæstv. ráðh. minntist fyrst á ókunnugleika og óvana frá minni hálfu og að ég teldi fjárreiður landsins vera eitt völundarhús, sem ekki væri hægt að komast til botns í, og að það væri rangt hjá mér, að reikningar ríkisins væru í verra lagi en reikningar bæjar- og sveitarfélaga. En þetta er ekki rétt hjá hæstv. ráðh., því að hér er um ýmis atriði að ræða, sem ekki væru látin viðgangast hjá neinu sveitar- eða sýslufélagi, og tæplega bæjarfélagi, svo seint er í mörgum tilfellum gengið frá reikningum af ríkisins hálfu.

Viðvíkjandi því, sem hann sagði, að það væri endurskoðendunum mjög að kenna, hvað seint þessi reikningur væri á ferðinni, þá vil ég mótmæla því.

Hæstv. ráðh. tók fram, að reikningurinn hefði verið til til endurskoðunar stuttu eftir mitt ár 1938. Við komum hingað seint í október í fyrra. Þá var byrjað að prenta reikninginn. Hann kom ekki í okkar hendur fyrr en í janúar 1939. Þess vegna eru hér öfugmæli hjá hæstv. ráðh., og undarlegt, að hann skuli leyfa sér að halda því fram, að það sé undandrætti endurskoðendanna að kenna, að endurskoðunin hafi gengið svo seint. Svo er þess að geta, að þegar. við fengum reikninginn til endurskoðunar prentaðan með glöggri grg. fá ríkisbókhaldinu, þá var ekkert um það, hvernig endurskoðuninni hefði verið hagað hjá endurskoðendum ríkisins, eins og lög mæla fyrir um. Það fyrsta, sem við gerðum kröfu um á hendur endurskoðendum ríkisins, var að fá skýrslu um, hvaða aths. hefðu verið gerðar. Mér skildist, að það hefði ekki tíðkazt fyrr, að endurskoðendurnir sendu neina skýrslu um, hvernig endurskoðuninni hefði verið hagað, enda grunar mig, að endurskoðunin sé aðeins töluleg endurskoðun, en ekki að neinu leyti krítísk.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að ómögulegt væri að hugsa sér, að yfirskoðunarmenn Alþingis færu í gegnum hvert einasta fylgiskjal, sem fylgdi ríkisreikningnum. Það hefir mér aldrei dottið í hug, en það er annað, sem ég krefst, og það er, að endurskoðendur Alþingis fái aðgang að því, hvernig varið er þeim greiðslum, sem borgaðar eru úr ríkissjóði á því ári, sem um er að ræða, en það er alls ekki aðgengilegt að fá það. Meira að segja að ríkisbókarinn getur ekki fengið það eftir þeim gögnum, sem hann hefir yfir að ráða. Ég skal t. d. nefna eitt atriði, þar sem um miklar umframgreiðslur er að ræða, fyrst hæstv. ráðh. minntist á það. Það kom í ljós, þegar við sáum reikninginn, að gjöld pósthússins í Reykjavík voru 51 þús. fram úr fjárlögum, en við höfðum ekki aðgang að því, hvernig á þessu stendur, en þetta stafar af því, að ráðh. hafði gefið út reglugerð á árinu áður, um hvernig skyldi haga starfsemi þessarar stofnunar að því er snertir launagreiðslur, og við það hækkuðu gjöldin um 40 000 kr. aðeins í launum. En þetta er eitt dæmi af mörgum.

Þá er það, sem hæstv. ráðh. minntist á, hvort það væri af tortryggni frá endurskoðendunum um, að eitthvað sé verið að fela. Það þarf ekki að vera nein tortryggni um það, því að það er skylda endurskoðendanna að komast fyrir, hvernig farið er með féð á þessu og þessu sviði, og ekki sízt þegar um umframgreiðslur er að ræða. Það ber nauðsyn til að sjá, hvort farið er eftir þeim reglum, sem lög gera ráð fyrir.

Viðvíkjandi því, hvernig haga skuli breytingum á þessum hlutum, þá held ég fast við það, að ekki verði unnt að laga þá óreiðu, sem orðin er í þessu efni, á meðan hafðir eru fjöldamargir gjaldkerar úti um allan bæ, sem hafa viðtækar heimildir til þess að greiða þetta og hitt, enda hefir hæstv. fyrrv. fjmrh. viðurkennt, að hann hafi oft ekki vitað fyrr en árið var liðið, að greitt hafði verið, stundum svo tugum þúsunda skipti hjá sumum stofnununum. Ég tel því rétt, að allar meiri háttar greiðslur gangi í gegnum ríkisféhirði. Eigi að halda áfram á þeirri braut, að sumum stofnunum sé liðið að ganga framhjá vilja Alþingis með greiðslur sínar, þá heldur óreiðan bara áfram. Sem dæmi um slíkt vil ég nefna Eskifjarðarhrepp. Ég sá, að honum höfðu verið borgaðar 20 þús. kr., og óskaði því að sjá þann reikning, en hann reyndist með öllu ófáanlegur, en með svörum ráðherranna fékk ég afrit af reikningnum, og þá kemur það í ljós, að hreppurinn hefir fengið hartnær 52 þús. kr. frá ríkissjóði. Og hvernig svar haldið þið, að ég hafi fengið viðvíkjandi þessum 20 þús.? Aðeins það, að þær hafi verið borgaðar út „eftir símskeyti“. Um atvinnubótafé fylgja þau skilyrði, að 1/3 greiðist úr ríkissjóði gegn 2/3 hlutum annarstaðar að. Ég bað því um skýrslu um þetta atriði, en fékk aðeins skýrslu frá vegamálastjóra, sem náði ekki yfir nema nokkuð af þessu fé. Það, sem upplýstist, var þó það, að sumstaðar var eða hefir verið farið eftir lögunum um framlag á móti framlagi ríkissjóðs, en sumstaðar ekki, og sumstaðar ekkert greitt á móti. Ég viðurkenni að sjálfsögðu, að það þarf að vera sérstakt bókhald hjá ríkisstofnununum, eins og t. d. landssímanum, en hitt verður að vera skýlaus krafa, að forstjóri símans borgi ekki út annað en það, sem er í fjárlögum hvers árs, sem um er að ræða.

Ég gerði aths. við greiðslur fiskimálanefndar, en fékk ekkert annað en útúrsnúninga aftur. Þá gerði ég og aths. við reikninga ferðaskrifstofunnar. Hjá þeirri stofnun var t. d. 2 ára halli stofnunarinnar færður til eigna á efnahagsreikningi. Þetta taldi ég ekki rétt og gerði því athugasemdina. Svarið, sem ég fékk, var yfirklór eitt, eins og svo mörg önnur svör þessara ágætu ríkisstofnana. Þá kem ég að því atriðinu, sem ég drap á áðan; það eru skuldaviðskipti einstakra stofnana. Það fyrirkomulag, sem nú er á þessum hlutum, tel ég með öllu óviðunandi. Það virðist t. d. harla óviðeigandi, að stórgróðafyrirtæki eins og tóbakseinkasalan skuli skulda svo hundruðum þúsunda skiptir erlendis. Sama máli gegnir og um áfengisverzlunina, en eiga svo aftur hér útistandandi skuldir í stórum stíl.

Þá er og eitt, að vera t. d. að dragast með I93 þús. kr. skuld frá gömlu landsverzluninni. Hvað á það t. d. að þýða? Eins og fór um gömlu landsverzlunina, að hún tapaði fé í stórum stíl. eins hygg ég, að fara muni um mörg þeirra fyrirtækja, sem ríkið rekur, þegar þau verða gerð upp, hvort sem það verður fyrr eða síðar. Því er haldið fram, að fyrir hinum miklu skuldum erlendis vegna ríkisstofnananna sé til fé í banka hér heima, sem safnazt hafi vegna yfirfærsluvandræðanna. En þetta er ekki rétt, því að í RR kemur það skýrt fram, að af einum 3 millj. erlendra skulda er aðeins tæpur helmingur í bankainnstæðu. Hitt er allt í útistandandi skuldum hér heima.

Þá eru það sjóðseignir ríkisstofnananna við reikningsuppgjör. Hæstv. viðskmrh. sagði, að hér væri aðeins um reikningsatriði að ræða. En ég á bágt með að skilja, að það sé nauðsynlegt að láta ríkisstofnanirnar hafa svona mikla sjóði, eins og t. d. tóbakseinkasöluna, sem telur hartnær 340 þús. í sjóði við reikningslok.

Ég hefi fyllstu ástæðu til þess að halda, að svar hæstv. ráðh. við aths. um þetta sé ekki rétt, þar sem hann segir, að reikningum ríkisstofnananna sé lokað í janúar, en ég hefi fengið upplýst annarstaðar frá, að þeim er lokað miklu síðar. Án þess að í orðum mínum felist hin minnsta aðdróttun, þá getur slíkt fyrirkomulag sem þetta getið möguleika fyrir yfirfærslu á sjóðþurrð frá ári til árs, án þess að sjáist.

Það, sem ég svo að síðustu vil undirstrika, er það, að um áramót sé gert hreint upp hjá hverri ríkisstofnun og vörutalning og sjóðstalning látin fara fram strax á áramótum.