07.11.1939
Neðri deild: 54. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

Jón Pálmason:

Ég hefi aðeins tíma til þess að gera aths., svo ég get ekki farið út í nema sumt af því, sem ástæða er til að víkja að í sambandi við ræðu hæstv. viðskmrh.

Ég ætla þá fyrst að víkja að fyrirspurn, sem hæstv. ráðh. bar fram með talsverðum ofsa, um það, hvað ég teldi, að ekki mundi liðið hjá sveitar- og sýslufélögunum, en ætti sér stað hjá ríkinu. Það yrði langt mál, ef farið væri út í að ræða það, sem er þessarar tegundar. Það er fyrst og fremst það, sem á þingmáli heitir að borga fé án heimildar, og fjáraukalögin fyrir árið 1937 eru upp á 3,6 milljónir króna. Margir liðir hafa alls ekki verið færðir eins og bar, og dæmin um það hefi ég nefnt; ég get t. d. minnt aftur á atvinnubótaféð.

Þá talaði hæstv. ráðh. um, að hægt hefði verið að byrja endurskoðun landsreikninganna áður en þeir lágu fyrir prentaðir. Það er alveg rétt að vissu marki, enda notuðum við tímann til þess að fara í gegnum reikninga einstakra stofnana, áður en þeir voru prentaðir. En ekki er það til þess að gera sig digran af fyrir hæstv. ráðh., að ríkisreikningurinn fyrir 1937 skuli ekki prentaður fyrr en þetta á árinu 1939, — eða hitt, að ríkiskassanum sé ekki lokað dyrir greiðslur frá árinu 1938 fyrr en í sept. 1939, og kemur það þó nokkuð öðruvísi fram en þegar um rekstrarsjóði einstakra stofnana er að ræða, svo sem einkasala ríkisins.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði átt að rannsaka, hvenær reikningum þessara stofnana hefði verið lokað. En þegar ég fór að spyrjast fyrir um það og fékk sitt svarið hjá hverjum — að það hefði verið í janúar, eða marz, eða apríl —, þá fór ég að efast um, að svörin um þetta væru að nokkru hafandi. Og ég veit ekki, hvað er vaxtaspursmál, ef þetta er það ekki.

Okkur ráðh. kemur mjög saman um það, að fjárlög eigi að gera úr garði eins og greiðslurnar hljóta að verða, og fyrir slíkum umbótum segist hann nú hafa barizt í fimm ár. En hver er árangurinn? Eru ekki greiðslurnar umfram fjárlög á 4. milljón fyrir árið 1937?

Ég veit ekki, við hvað þær ásakanir styðjast hjá hæstv. ráðh., að umbótakröfur mínar í þessa átt væru í ósamræmi við framkomu mína í fjármálum á þingi. (Viðskmrh.: Það voru ekki ásakanir. Ég vildi bara minna þm. á, að hann skyldi passa sig). En hver er það, sem ekki hefir varað sig á því, að hver nýr landsreikningur varð óvart hærri en sá næsti á undan? (Viðskmrh.: varaðu þig líka á þessu!). Það er stefnan, sem þarna er góð hjá hæstv. ráðh., en hún hefir bara ekki verið haldin.

Ríkisbókhaldið og ríkisféhirzlan eiga að vera hlutar af stjórnarráðinu. En nú er fyrir utan ríkisféhirði sérstakur gjaldkeri í stjórnarráðinu, sem afgreiðir ýmsar útborganir, sem fram fara utan fjárlaga, og við getum sjálfsagt ræðzt við um það við næstu umr. þessa máls, hvernig þær greiðslur sumar eru. Viðvíkjandi því, hvort fjmrh. eigi einn að bera ábyrgð á öllum greiðslum, hefi ég aðeins sagt, að ein höfuðorsökin til ófarnaðar síðari ára liggi í því, að ábyrgðinni hefir verið dreift, svo að enginn einn ber hana, en ýmsir leyfa sér að afgreiða greiðslur umfram fjárlög, en bak við fjármálaráðherrann. Þetta verður að afnema. Og það má ekki viðgangast lengur, að ýms opinber fyrirtæki greiði stórfé án samþykkis fjmrh.

Viðvíkjandi því, að ég hafi sýnt óheiðarlega málsmeðferð, þegar ég talaði um greiðslu samkv. símskeyti, get ég tekið fram, að ég sagði ekki nema það, sem rétt reynist, um þessa greiðslu til Eskifjarðarhrepps, hverjar málsbætur sem svo má finna í þeirri vandlegu rannsókn, sem á undan greiðslunni var gengin, eftir sögusögn hæstv. ráðh. En hvað finnst mönnum annars um það, þegar þessar 20 þús. kr., sem taldar eru útborgaðar í Rvík, virðast orðnar að 52 þús. kr., þegar þær eru færðar inn á reikninga Eskifjarðarhrepps?

Skuldaskipti ríkisverzlananna við viðskiptavini þeirra eru, hvað sem hæstv. ráðh. segir, orðin alveg óviðunandi. Það er ekki hægt hjá því að komast, að það munar nokkru fyrir hið opinbera, hvort t. d. áfengisverzlunin fær sitt með góðum skilum eða hefir útistandandi skuldir í stórum stíl, og þar af 93 þús. kr. hjá einu einasta fyrirtæki. Ég veit ekki, hver getur mótmælt því, að hér sé komið í hættulegar öfgar. Hitt er annað mál, að þegar komið er niður í fenið, er ekki hægt að kippa þessu upp á þurrt í skjótu átaki. En það verður að gerast.

Ég skal ekki fara út í hártoganirnar á því, sem ég sagði um greiðsluna til fiskimálanefndar. Ég hefi aldrei vanizt því, að slíkar upphæðir væru ekki færðar til tekna hjá þeim stofnunum, sem taka móti þeim, og það er það, sem ég gerði aths. við. Ég skal svo ekki þreyta hæstv. forseta lengur, því að við næstu umr. verður tækifæri til að fara nánar út í einstök atriði.