07.11.1939
Neðri deild: 54. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

*Ísleifur Högnason:

Mér kom það nokkuð undarlega fyrir sjónir, þegar hæstv. ráðh. upplýsti, að reikningarnir sýndu falskar niðurstöður um áramót. Mér hefir fundizt, að hæstv. ráðh. hafi þótzt til þess kjörinn að bæta úr slíku. (Viðskmrh.: Satt að segja hefi ég haft annað að gera en kíkja eftir þessu).

Þá voru það upplýsingar um auglýsingarnar. Það var að heyra, að hann hefði frá upphafi feginn viljað auglýsa í íhaldsblöðunum, ef íhaldið gerði Nýja dagblaðinu sömu skil, en í Þjóðviljanum mætti engin auglýsingin koma. (Viðskmrh.: Það væri nú líka þokkalegt að fara að styrkja Þjóðviljann!). Fyrst það er játað, að opinberar auglýsingar séu styrkur til blaða, er því hér með slegið föstu, að íhaldið hér í Reykjavík dragi sér tugi þúsunda af opinberu fé fyrir auglýsingar frá bænum í blöðum sínum, og þetta hafi Framsfl. tekið sér til fyrirmyndar; — með blessuninni, sem lýst er yfir þessu; er viðurkennt, að innan þessara veggja sé félagsskapur, sem beinlinís stendur að þessu, beinlínis dregur sér fé í pólitískum tilgangi og til þess að létta á sinni eigin pyngju.

En höfuðatriði, sem hvorki var upplýst af hæstv. ráðh. né hv. þm. A.- Húnv., var það, hvort ekki ætti að rannsaka, hvaða störf og afköst koma móti því mikla fé, sem ríkissjóður greiðir til mannahalds ýmissa stofnana. Þar mætti áreiðanlega spara tugi þúsunda nálega í hverri stofnun með því að fækka starfsliði eða nýta krafta þess betur en er. Þar er mál komið að athuga, hvort ekki megi færa eitthvað saman.