08.12.1939
Neðri deild: 78. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

*Sigurður Kristjánsson:

Ég lýsti því yfir í upphafi þessarar umr., að ég myndi fresta mínum aths. við ríkisreikninginn að miklu leyti þangað til rætt yrði um till. til þál., sem ég og hv. 3. landsk. höfum borið fram á þskj. 357. Ég mun nú standa við þetta, enda hefir ekkert sérstakt tilefni verið gefið til þess að fara inn á efni þeirrar till., nema lítils háttar ummæli hæstv. viðskmrh. um eitt atriði í þessari till.

Ég vil þó áður en ég geri aths. við ummæli hæstv. ráðh. um þetta efni minnast á þau atriði, sem orðið hafa að deiluefni í þessari umr. og sérstaklega hafa snúizt að yfirskoðunarmönnum ríkisreikningsins. og þá einkum einum sérstökum manni. Það er mjög einkennilegt, að gegn aths. um ríkisreikninginn hefir öllum skeytum verið snúið til hans eins út af þeim aths., sem allir yfirskoðunarmennirnir standa að. Ég held, að Alþ. megi ekki gleyma því, að þessir menn eru trúnaðarmenn þingsins, og það er illa viðeigandi að rísa upp með jafnmiklu ofstæki eins og gert hefir verið gegn því, að þessir menn finni að því, hvernig fjárreiður ríkissjóðs eru.

Einn hv. þm. komst svo að orði í gær um einn yfirskoðunarmanninn, að hann hefði læðzt með rýtinginn að baki mönnum og hann hefði vegið með ógeðslegum vopnum og þetta væri mjög í samræmi við bardagaaðferðir hans flokks, en það var Sjálfstfl., sem hv. þm. átti við. Nú ætla ég ekki að fara að deila um svona flónsku. Ég vil miklu fremur skoða það sem sjúkdóm, að koma svona fram. Þessi heiftúð, sem gagnsýrir mál svona manna, er nokkurskonar sjúkdómur.

Mér er kunnugt um, að sá hv. þm., sem sagði þetta, er prýðilegur maður á margan máta, þegar við hann er að eiga utan þings. En þetta er ósæmilegt orðbragð um trúnaðarmann þingsins, sem ekki hefir annað gert en að gera sína skyldu.

Út af þessu vildi ég segja það, að það á að kveða það niður, að að þessum mönnum, sem eru trúnaðarmenn ríkisins til þess að rannsaka fjárstjórn ríkisins, safnist menn með ofstæki og frekju og reyni að kveða það niður, að nokkur gagnrýni eigi sér stað. Það er ákaflega óheilbrigt. Það geta verið skiptar skoðanir um einstök atriði. En það má skiljast, að þegar láta þarf auknar fjárveitingar fyrir hátt á 4. millj. af fé ríkisins, þá er það ekkert undarlegt á þeim tímum, sem ríkir ákaflega mikil sparnaðarstefna, eins og mér skilst, að eigi að ríkja hjá hv. Alþ., að yfirskoðunarmenn ríkisreikningsins hafi eitthvað að athuga við svona miklar umframgreiðslur. Þar með er ekki verið að segja, að neitt ósæmilegt sé við þessa eyðslu. Það er ekki í samræmi við þann sparnaðaranda, sem þm. allra flokka virðast vilja, að sé ríkjandi.

Ég mun leggja áherzlu á, og það mun verða hart á því tekið af mér, og ég vænti þess, að það verði líka af fleirum minna flokksmanna, ef gikkslega á að setjast að þeim manni, sem við sjálfstæðismenn völdum til þess að athuga ríkisreikningana. Slíkt er ekki hægt að skoða öðruvísi en svo, að með ofstopa og harðneskju eigi að berja niður alla gagnrýni.

Nú vil ég fúslega lýsa því yfir, að meðferð á ríkisfé hefir mikið breytzt til batnaðar frá fyrri árum, enda ekki verið sparað að gera samanburð við fyrri ár. Það eitt er þó ekki nóg. Það verður að gæta þess í hvívetna, að fjárl. sé fylgt sem stranglegast. Ég vil geta þess, að ég man þegar hæstv. viðskmrh. var fjmrh., þá réttlætti hann sífellt hækkandi fjárl. með því, að hann væri búinn að færa fjárlfrv. það, sem frá honum kom, í það horf, að það ætti að vera sem nákvæmast það, sem tekjur og gjöld ríkisins yrðu. Þess vegna er það ekkert einkennilegt, þó yfirskoðunarmennirnir geri aths. og fyrirspurnir um það, hvort ekki sé hægt að draga úr ýmiskonar eyðslu, þegar hún fer svona mjög fram úr því, sem fjárl. gera ráð fyrir.

Ég býst nú við, að sá yfirskoðunarmaður, sem sérstaklega hefir verið beint skeytum að, muni gera sínar aths. við þær ræður, sem fluttar hafa verið, og skal ég því ekki fara út í einstök atriði. En ég vildi segja, að það er alveg fjarstæða að ætla sér að berja niður hóflega og skynsamlega gagnrýni á meðferð ríkisfjár. Það er einmitt það, sem yfirskoðunarmennirnir eru skipaðir til, að þeir eiga að segja þinginu til og vera varðmenn þingsins um það, hvernig fé ríkisins sé varið. Ég tel það ósæmilegt, ef á með ofstopa að berja þá niður fyrir að rækja sinn trúnað.

Undir ræðu hv. 1. þm. Rang. gat ég ekki varizt þeirri hugsun, að enn væri að flækjast í huga sumra manna sú mikla villa, sem virðist hafa komizt inn hjá fyrrv. samstarfsflokkum í ríkisstj., að ríkissjóðurinn kæmi í raun og veru ekkert við minni hl. Þeir litu á hann sem flokkssjóð og töldu það slettirekuskap, ef minnihl: flokkur var að gera aths. Ég vil nú segja hv. þm., að þetta er orðið mjög breytt. Ég held, að meiri hl. Framsfl. líti nú á þetta öðruvísi, en þetta stafar kannske af því, að hann er ungur í þeim flokki, að hann gengur enn með þá villu, að það sé verið að sletta sér fram í flokksmál, þegar gerðar eru aths. við ríkisreikninginn.

Það var eitt atriði í umr., sem fram fóru í gær, sem sneri sérstaklega að mér og meðflm. mínum að till. á þskj. 357, og þetta atriði var, að hæstv. viðskmrh. sagði út af aths. um útistandandi skuldir ríkisstofnana, að yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna og flm. till. vissu ekkert, um hvað þeir væru að gera aths. (Viðskmrh.: Ég sagði, að þeir mundu sennilega ekki vita, um hvað þeir væru að gera aths.). Það er dálítið einkennilegt, að ráðh. skuli tala í svona tón. Viðkunnanlegra væri, að úr þessu sæti kæmu gætilegri og virðulegri ummæli.

Hvað er nú það, sem við höfum gert? Við höfum tekið aths. frá öllum yfirskoðunarmönnum ríkisreikningsins, þar á meðal flokksmanni hæstv. ráðh. Hvað hafa þeir svo gert? Þeir hafa birt skrá yfir útistandandi skuldir ríkisstofnana, sem eru á 3. millj. kr. Þá hafa þeir spurzt fyrir um, hvernig á þessu standi, og látið í ljós, að þeir vilji, að gætt sé varfærni í útlánum, og í till. þeirra til þingsins er ekki fastar að orði kveðið en að þetta sé til athugunar framvegis.

Hvað höfum við svo gert, þessir tveir syndaselir, frá sjónarmiði hæstv. ráðh.? Við höfum óskað eftir, að þingið gerði ályktun um þetta á þá leið, að skorað væri á ríkisstj. að láta gæta fyllstu varfærni í útlánum ríkisstofnana og gæta þess sérstaklega, að áfengisverzlun ríkisins veiti ekki öðrum en útsölumönnum langa gjaldfresti. Það er þessi till., svo ofstopafull sem hún er, sem hæstv. viðskmrh. finnst gefa sér tilefni til að segja, að það liti út fyrir, að við vitum ekkert, um hvað við séum að tala. Þó ekki sé nú lengra farið en í skuldaskrá þá, sem yfirskoðunarmennirnir hafa allir birt, þá sést, að útistandandi skuldir ríkisstofnananna eru á 3. millj. kr.

Nú er það vitað, að margir þm., og þar á meðal sérstaklega þm. Sjálfstfl., hafa verið á móti því, að ríkið færi að reka verzlun í stórum stíl. Við höfum dæmið fyrir okkur frá gömlu landsverzlunartímunum, að ríkið lenti í því að tapa millj. kr. á verzlunarbraski, og það hefir orðið að leggja neyzluskatta á þjóðina til þess að vinna upp þessi töp. Það er þess vegna ekkert undarlegt, þó margir þm. vilji gjalda varhuga við, að ríkið fari út á sömu braut, að reka verzlun í stórum stíl, og þá sérstaklega lánsverzlun. Mönnum finnst líka, að mikil útlán í sambandi við sölu áfengis séu sérstaklega óviðeigandi.

Við höfum nú ekki gengið lengra en það, að skora á ríkisstj. að gæta fyllstu varfærni í útlánum og sérstaklega, að ekki séu veittir langir gjaldfrestir hjá áfengisverzluninni, nema útsölumönnum. Mig undrar, að hæstv. viðskmrh. skuli telja þetta tilefni til þess að fara þeim orðum um yfirskoðunarmennina og okkur, sem flytjum þessa till., að það liti út fyrir, að við vitum ekkert, um hvað við séum að tala.

Mér er það alveg ljóst, að fyrst þetta verzlunarfyrirkomulag á sér stað, þá er ekki hægt að komast hjá því að hafa útistandandi skuldir, og þá sérstaklega hjá þeim verzlunum, þar sem heimilt er að lána vörur gegn afborgun. Við höfum ekki heldur verið að fetta fingur út í það. En það er vitað með áfengi og slíka hluti, að þar er hægt að láta hönd selja hendi og hafa ekki lengri lánsfresti en mánaðarreikninga, eins og þykir nægilega langt gengið hjá kaupsýslumönnum, sem reyna að hæna að sér viðskiptamennina með því að veita þeim sem vægust kjör. Ég skil ekki, að þessi leit eftir viðskiptamönnum þurfi að eiga sér stað hjá einkasölunum, þar sem ekki er við neina að keppa um viðskiptamennina. Ég vil sérstaklega leggja áherzlu á með áfengisverzlunina, að þar er engin þörf að láta reka útlánastarfsemi nema til útsölumanna. Það er vitanlegt, að landsfólkið hefir heldur andúð á því, að verið sé að leita ginningarráða til þess að koma þessari vöru út, og það er ekkert óheilbrigt, þó farið sé dálítið eftir því.

Það var fundið að því hjá okkur flm. þessarar till. — það kom að vísu ekki glöggt fram, hvort það var hjá yfirskoðunarmönnum eða okkur flm. till. —, að við hefðum ekki nafngreint þá menn, sem þarna skulduðu, og við værum að leika þarna feluleik. Í aths., sem við fórum eftir, eru þessir menn ekki nafngreindir. Það stendur þar, að útistandandi skuldir áfengisverzlunarinnar séu þessar:

1 skuldar

kr. 93 052.57

1 skuldar

— 5 535.04

11 skulda

— 23188.73

47 skulda

— 10 554.60

Þetta er samtals kr. 132 330.94

Við höfðum ekki annað að halda okkur við en þetta. Við ætluðum ekki að miða aths. okkar við neinar persónur. Þess vegna eru ásakanir til okkar um, að við höfum verið að fara í einhvern feluleik, algerlega rangar.

Ég ætla svo ekki að segja meira á þessu stigi málsins, en vænti þess, að hæstv. forseti sjái svo um, að þáltill. frá mér og hv. 3. landsk., og eins till. frá meiri hl. fjhn., verði teknar til umr., og ég vænti þess, að þeim verði ætlaður sæmilega rúmur og virðulegur tími, en ekki settar á næturumræðu, þegar flestir eru gengnir til svefns. Ég mun því láta máli mínu lokið og geyma mér frekari aths. þangað til þær verða teknar til umr.