08.12.1939
Neðri deild: 78. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

Jón Pálmason:

Mér þykir ástæða til að svara nokkru at því, sem fram hefir komið, þó sumt af því sé tæplega svara vert.

Ég ætla þá fyrst að svara hæstv. viðskmrh. örfáum orðum. Ég skal byrja með því að taka það fram, að nú talaði hann mjög í öðrum tón en við 1. umr. Hann talaði hóflega og þannig, sem mér finnst viðeigandi að þeir menn tali, sem um þessa hluti fjalla. Ég get sagt honum það, að ef hann og aðrir, sem hér eiga hlut að máli, hefðu talað í þeim tón, þá hefði verið hægt að gera það bróðurlega upp, hvað hægt væri að lagfæra, án þess að fara út í þær deilur, sem hér hafa verið hafnar.

Svo ég víki að þeim atriðum, sem hæstv. ráðh. kom inn á, þá vil ég segja snertandi það atriði, sem hann talaði aðallega um, skuldir ríkisstofnana, að ég get tekið undir það með honum, að sumt af þessum skuldum eru afsakanlegir hlutir, svo sem afborgunarsamningar bifreiðaeinkasölunnar og viðtækjaverzlunarinnar, en að öðru leyti get ég ekki fallizt á það með honum, að það sé ekkert athugavert við það, hvað miklar skuldir eru útistandandi hjá þeim fyrirtækjum. sem hér er um að ræða. Eitt af þessum fyrirtækjum; raftækjaeinkasöluna, á að leggja niður, og mun þá koma í ljós, hvort ekki tapast eitthvað af útistandandi skuldum hjá því fyrirtæki. Það verður nokkurskonar prófsteinn á það, hvort ekki muni tapast fé hjá hinum einkasölunum.

Að því er snertir þann samanburð, sem hæstv. ráðh. var að gera á skuldum áfengisverzlunarinnar árið 1927 og árið 1937, þá efast ég ekki um, að hann hafi farið þar með réttar tölur. En í sjálfu sér er það ekki mikil málsbót, þó skuldirnar hafi einhvern tíma verið hærri. Ef farið er út í það að gera samanburð á útistandandi skuldum þessa og annara fyrirtækja, þá held ég liggi næst að gera samanburð á því ári, sem hæstv. ráðh. tók við fjármálaráðherraembættinu, og því ári, sem reikningurinn nær yfir.

Um áramótin 1934, þegar hæstv. ráðh. tók við yfirstjórn fjármálanna, þá voru útistandandi skuldir áfengisverzlunarinnar 48145.00 kr., en um áramótin 1937 voru þær 132330.94kr. Þær hafa því á þessu tímabili nærri því þrefaldazt.

Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að þarna er fyrst og fremst að ræða um stóra skuld, sem eitt fyrirtæki skuldar.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta, en vil aðeins að síðustu geta þess til viðvörunar í þessu efni. að svo fór um eitt það fyrirtæki, sem ríkið rak á fyrri árum, landsverzlun Íslands, að ennþá er verið að drattast með 193 þús. kr. í útistandandi skuldum, en þar fyrir utan er allt það, sem afskrifað hefir verið af útistandandi skuldum þess fyrirtækis.

Ég get hugsað mér, að hvenær sem að því rekur, að þessi ríkisfyrirtæki verði gerð upp, þá muni koma í ljós, að það verður meira eða minna af útistandandi skuldum þeirra, sem tapast.

Það er því engin sérstök ástæða til þess fyrir hæstv. ráðh. eða aðra að telja það óviðeigandi, þó að yfirskoðunarmennirnir leggi áherzlu á, að gætt sé sem mestrar varfærni á þessu sviði.

Hæstv. viðskmrh. sagði síðast í ræðu sinni, að gagnrýni sú, sem ég hefi komið með snertandi ríkisreikninginn, myndi í framtíðinni binda mér bagga að því er snerti afstöðu mína til fjármála yfirleitt. Mér er þetta líka alveg ljóst. Sú ástæða, sem ráðið hefir mestu um það, að ég hefi gert ýmsar af þessum aths., er, að mér hefir virzt, að á þeim árum, sem á milli eru, hafi verið fylgt sömu aðferð í landinu. En það þarf að gera gangskör að því af hálfu Alþ., enda er það í rauninni tilgangur þeirrar samvinnu, sem stofnað var til á síðasta vori, að koma í veg fyrir, að sú fjármálaspilling haldi áfram, sem ríkt hefir á undanförnum árum. Hvor það tekst með samvinnunni, veltur á því, hvort þeim mönnum. sem sæti eiga á þingi, er full alvara í því að taka á þessum málum sterkum tökum.

Viðvíkjandi afgreiðslu fjárl. nú, sem hæstv. ráðh. drap á í þessu sambandi, þá virtist mér hann tala þannig, að það væri ég, sem réði manna mest í fjvn. Nú er það ekki svo. Hinsvegar hefir það verið svo, að á þessu þingi og tveimur þingum áður, sem ég hefi átt sæti í fjvn., þá hefir hún sýnt meiri viðleitni en allir aðrir þm. í því að koma á lagfæringu á þessum hlutum, en það hefir borið á því, að ríkisstj. og aðrir þeir aðilar, sem þar eiga hlut að máli, hafa ekki tekið til greina þær samþykktir, sem fjvn. hefir gert. Það hefir t. d. komið fram í því, að starfsmannaskrá sú, sem gerð var af fjvn., hefir ekki verið haldin nema á einstökum sviðum. Ríkisstjórnin hefir ekki hirt um að láta fara eftir henni. Nú hefir hv. fjvn. lagt fram frv., sem fer fram á, að lögboð sé um ýmis þau atriði, sem hún hefir sett ákvæði um á undanförnum árum í þessu sambandi, og skal ég koma nokkru nánar að því síðar. Eftir þessum ummælum hæstv. viðskmrh., sem voru hófleg í alla staði, verð ég að segja, að mér finnst, að það ætti að geta verið af minni hálfu og hans líka hægt að fá samtök um það, ef af sannri alvöru er til þess reynt, að fá fram þessar breyt. frá því, sem verið hefir. — Svo skal ég ekki fara nánar út í hans ræðu, því að hún gaf ekki tilefni til þess.

Næst skal ég minnast örfáum orðum á ræðu samstarfsmanns míns, hæstv. forseta þessarar d., 1. þm. Árn., því að einstök atriði í hans ræðu gáfu tilefni til andsvara. Hann sagði það vera misskilning af minni hálfu, að það hefði komið í ljós ólík afstaða til þessara fjármálaatriða, sem hér eru til umræðu. En ég held, að það sé ekki neinn misskilningur. Og það er ekki óeðlilegt, þó svo sé. Hann og hinn samstarfsmaður minn hafa um 10 ára skeið verið stuðningsmenn ríkisstj. og því með í að samþ. ýmsar ráðstafanir, sem hafa leitt af sér það, sem er orsökin til þess, hvernig farið hefir um okkar fjármál, og hefir valdið því vandræðaástandi, sem þau nú eru komin í, ekki eingöngu ríkissjóður, heldur einnig fjármál sveitar- og bæjarfélaga yfirleitt, og ekki sízt, hvernig komið er hag okkar í viðskiptunum við útlönd. Ég, sem er tiltölulega nýr á Alþ. og hefi aldrei verið í stjórnaraðstöðu fyrr en þann part úr ári, sem liðinn er síðan í vor, hefi nokkuð aðra afstöðu, og það er ekki óeðlilegt. En það er ekki rangt, sem nokkuð er haft á orði, að ég muni vera nokkru harðari í till. mínum til breyt. á þessum hlutum heldur en flestir þeir menn, sem sæti eiga hér á hæstv. Alþ.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. forseti sagði, að hann hefði talið, að bót væri ráðin á öllum atriðum, sem við hefðum gert sameiginlegar aths. um, og sem hann og okkar þriðji samstarfsmaður vísaði til, vil ég segja, að ég er honum ekki sammála um það efni, því að engin bót var á þeim ráðin með þeim svörum, sem ríkisstj. gaf. Skal ég í þessu sambandi minnast á skuldirnar.

Við gerðum samanburð á þessum fyrirtækjum. sem hér er talin í nál., í aths. Þessu er ekkert svarað, nema með stuttu svari frá einni einustu þeirra, raftækjaeinkasölu ríkisins. Þetta tekur hæstv. forseti gott og gilt og gerir engar till. út af þessum lið í aths. okkar, sem er talsvert veigamikill.

Eins er þetta snertandi erlendu skuldirnar, rekstur pósthússins í Reykjavík o. fl. o. fl., sem ég get ekki fellt mig við að falla frá aths. um, eins og hæstv. forseti hefir gert. Þetta eru nú kannske ágreiningsatriði, sem skipta ekki miklu máli, og verður þar hver að fara sínar götur.

Um mínar séraths. talaði hæstv. forseti mjög hóflega, eins og hans er vandi. Skal ég hafa á því sama snið og ekki fara langt út í að ræða það mál. Hann tók það fram, að sér virtist það aðallega vera þrjú atriði, sem ég talaði um: Kostnaðurinn við stjórnarráðið, utanferðir og óviss útgjöld. Þetta er rétt. En það eru samt sem áður ýms fleiri atriði, sem ekki skipta svo litlu máli. Viðvíkjandi stjórnarráðinu hefi ég það mestar aths. við að gera, að þar eru færðar greiðslur til ýmissa manna, sem eru utan þess, fyrir hin og þessi störf, sumar til fast launaðra manna og sumar til annara. Og fyrir þessar greiðslur hygg ég, að komið hafi tiltölulega næsta lítið verk.

Viðvíkjandi utanfarastyrkjunum skal ég taka fram, að það er á misskilningi byggt, ef hæstv. forseti eða nokkur annar hv. þm. telur, að ég hafi beitt hlutdrægni í að birta nafnalista yfir þau mál. Því að ég tók alla utanfarastyrkina, sem ég fann á reikningum ríkisins, án tillits til nokkurrar flokkaskiptingar. Og sé sá listi ekki tæmandi, er ekki hlutdrægni um að kenna, heldur hinu, að mér hefir þá sézt yfir einhverja utanfararstyrki, sem greiddir hafa verið. Og alveg sama er að segja um þann nafnalista, sem ég birti að því er snertir greiðslur fyrir undirbúning lagafrv. og reglugerða, sem eru býsna miklar og sumar þannig, að ég tel, að ekki hafi verið á þeim nein þörf. Það, sem hæstv. forseti var að tala um, að þetta væru að mestu leyti óhjákvæmilegar greiðslur, get ég ekki fallizt á. Þær eru það ekki allar, en alltaf hlýtur vitanlega eitthvað að verða af greiðslum, sem fram verða að fara til þessara mála.

Þá taldi hæstv. forseti, að það væri með öllu óviðeigandi að prenta fylgiskjöl með aths. ríkisreikningsins. og vildi, að hálfu leyti a. m. k., færa sök á hendur mér fyrir það. En það er ekki rétt skilið hjá honum, því að þessi fylgiskjöl, sem þarna eru prentuð með reikningnum, eru þannig til komin, að þau eru send sem svar hæstv. ráðh. við fyrirspurnum mínum. Þegar ég afhenti mínar till. til fjmrn. í byrjun september í haust, þá sagði ég skrifstofustjóranum, að ég fæli honum að ráða, hvað birt væri af slíkum fylgiskjölum. En ég vildi, til þess að ekki væri sýnd nein hlutdrægni þessum viðkomandi mönnum, að þar væri prentað allt, sem skrifstofustjóra þætti máll skipta viðvíkjandi svari ráðh.

Þá skal ég svara einu atriði í ræðu hv. 1. þm. Rang. (SvbH) í gær. Ég tók eftir því, að engar tekjur voru færðar af nokkrum húseignum ríkisins hér í Reykjavík. Og ennfremur tók ég eftir, að engar tekjur voru færðar af þessum húseignum í fleiri ár. Þessar tekjur hafa að vísu ekki komið fram sem greiðslur, en þetta eru samt tekjur af arðbærum eignum og því tekjur ríkisins.

Þá er annað atriði, sem ég minntist á við 1. umr., sem skiptir ekki litlu máli, sem er atvinnubótaféð. Það vantaði alveg reikninga um mjög mikinn hluta af því. Þeir liggja ekki fyrir enn. Aths. mínar um það efni eru réttmætar. Það hefir ekki verið nema á sumum stöðum borgað tilskilið fé á móti þeim greiðslum úr ríkissjóði af viðkomandi bæjar- og sveitarfélögum, eins og tilskilið er á fjárl. fyrir þetta ár (1937).

Að öðru leyti en þessu skal ég ekki fara út í ræðu þessa samstarfsmanns míns, hæstv. forseta þessarar d. Hún gaf ekki tilefni til þess. Honum mun ef til vill hafa fundizt ég hafa gert aths. við fleira en honum sem stuðningsmanni ríkisstjórnarinnar finnst ástæða til.

Hv. 4. landsk. gerði fyrirspurn um það, hvort ég teldi þörf á því að jafna á hina starfsmenn tóbakseinkasölunnar launum þeirra starfsmanna, sem fóru þaðan og ekki var álitin þörf fyrir. Ég álít, að ekki sé þörf á launahækkun á þessum stað. En þetta var ekki nema að nokkru leyti gert, vegna þess að fjvn. neitaði.

Ég sló því hér fram í gær, að mér virtist að það væri svo í stofnunum ríkisins mjög mörgum, að þar væri margt af góðu fólki, sem ynni verk sín vel og samvizkusamlega, og að á því flyti rekstur þessara stofnana, en að þar væri líka fleira fólk en þessar stofnanir þyrftu á að halda og mjög misjafnt. Það er vitanlega erfitt að gera sér grein fyrir því fyrir mann, sem stendur utan við þennan rekstur, hversu margt væri hægt að losna við af þessu fólki. En ef t. d. allar verzlanir ríkisins væru sameinaðar í eina heildverzlun, sem hefði einn forstjóra og einn skrifstofustjóra, mætti spara margt af því fólki, sem þarna er á launum.

Um starfsemi fiskimálan. vil ég segja það, að hv. 4. landsk (ÍslH), sem hefir verið aðeins stutt á þingi, hefir vitanlega ekki fylgzt með því, hvernig sú n. starfaði, þegar fisksendingarnar til Ameríku voru sendar á sinum tíma, o. fl. o. fl.

Síðast ætla ég að koma að þeim ræðumanni, sem ég hefi mesta ástæðu til að svara, sem sé hv. frsm. meiri hl. fjhn., hv. 1. þm. Rang. Hann talaði hér mið mikilli frekju og offorsi í gærkvöldi, eins og honum er lagið, og ég hefi ekki neina ástæðu til þess allra hluta vegna að vanda honum sérstaklega kveðjurnar. Hann byrjaði á því að segja, að menn hefðu tekið eftir, að ég hefði verið taugaóstyrkur undanfarna daga, enda væri það ekki óeðlilegt. Ég held, að honum hafi missýnzt þetta mjög alvarlega. Ég hefi engan taugaóstyrk haft af því að ræða við þennan hv. þm., enda er hans aðstaða þannig í pólitísku lífi þessarar þjóðar, að honum væri sæmst að fara sem hægast á því sviði. En hver mín aðstaða er í þeim efnum, kemur bezt í ljós í þeim ummælum, sem ég hafði í gærkvöldi og skal endurtaka hér, að ég tel, að eftir því sem meira írafár gerist út af þessum aths. mínum, eftir því líkar mér betur. Þetta er af því, að ég veit, að mín stefna, skoðun og afstaða gagnvart fjármálum ríkisins er í fullu samræmi við skoðanir almennings í landinu. Þess vegna er það svo, að því meira sem sannast og verður tekið eftir, hvernig afstaðan hefir verið á undanförnum árum til þessara hluta, því meiri líkur eru til þess, að sú skoðun fái að njóta sín á komandi árum, sem er mín skoðun og skoðun almennings. Þess vegna er það líka svo, að hv. þm. N.- Ísf. hefir gert þessari stefnu ákaflega mikinn greiða með því að höfða á mig meiðyrðamál út af mínum aths. Það er af því, að það vekur almenna athygli í landinu. Fólkið fer að hugsa sem svo: Það er eitthvað einkennilegt við þetta, fyrst farið er að höfða meiðyrðamál út af því. Sama máli er að gegna um aðfinnslur hv. 1. þm. Rang. o. fl. Ef aðfinnslunum væri tekið á sama veg og hæstv. viðskmrh. gerði í gærkvöldi, þá hefði aths. mínum verið miklu minni athygli veitt. En þegar farið er með frekju og offorsi, eins og hv. 1. þm. Rang. hafði í frammi út af því að hann sagði, að ég hefði beitt hlutdrægni á þessu sviði, þá verður það til þess, að því verður veitt athygli og fólk fer að rannsaka málið og hugsa um, hvort þessi maður hafi gert aths. sem engin ástæða var til að gera, eða hvort hann hafi gert of fáar aths. við þessa hlið fjárhagsástandsins í landinu, sem hér er um að ræða.

Hv. 1. þm. Rang. var að kasta hnútum til mín fyrir það, að ég tæki borgun fyrir aukastörf. Og hann sagði, að það væri svo, að greiðsla til mín fyrir aukastörf væri miklu hærri en föstu launin. Það vill nú svo einkennilega til, að í þessu efni er þessi hv. þm. á villigötum eins og yfirleitt í fleiru, því að ég er ekki á neinum föstum launum, eins og hann og flestir aðrir hv. þm. eru. Öll borgun, sem ég fæ fyrir veru mína á þingi og fyrir endurskoðun ríkisreikningsins, er borgun fyrir aukastörf, en ekki föst laun. Það kemur fram hjá þessum manni eins og fleirum, þó að það sé ekki berum orðum sagt, að það sé ekki rétt að fela þeim mönnum aukastörf, sem ekki hafa föst laun. Ekki sízt þykir óviðeigandi að fela slík aukastörf bændum utan af landi, sem nú eru meira og meira að þurrkast út úr sölum þingsins.

Hv. 1. þm. Rang. var að tala um, að ég hefði fengið borgun fyrir störf utan heimildar fjárl. fyrir að safna skýrslum um launagreiðslur ríkisins árið 1938 til opinberra starfsmanna. Þessar skýrslur eru komnar það langt, að við höfum skrá yfir launagreiðslur á því ári, sem nema nokkuð hátt á 14. millj. kr. Ég býst nú við, að mönnum komi það nokkuð á óvart, að launagreiðslur þessar skuli vera svona háar, og því er ekki óþarft að upplýsa þetta. Ég hefi fengið 440 kr. fyrir mánaðarvinnu við þetta hér í Reykjavík s. l. sumar, frá miðjum ágúst til miðs september, þar í talinn ferðakostnaður til og frá. Þetta kaup er miðað við þingfararkaup, enda þótt þetta væri unnið á dýrari tíma og ekki væri um að ræða neinn húsaleigustyrk. Að þetta sé gert í heimildarleysi, þykir mér undarlegt. að maður úr flokki hv. formanns fjvn. skuli leyfa sér að koma með. Enda væri undarlegt. ef hv. fjvn., merkasta n. á Alþingi, sem hefir skylduverk að annast um fjárreiður ríkisins, ætti ekki að hafa vald til þess að afla sér allra þeirra upplýsinga, sem hún telur nauðsynlegar fyrir sig að hafa á hverjum tíma. (BJ: Er þetta n. Jóns Pálmasonar?). Það ætti ekki að vera á nokkurn hátt mér til óvirðingar, ef ég hefði svo mikil völd í hv. fjvn., að ég réði yfir henni, og að þær till., sem frá henni kæmu, væru mínar till. Ég skal ekkert lasta það, þó að menn taki upp það, sem hv. þm. N.-Ísf. byrjaði á, að kalla fjvn., þessa n., sem skipuð er 9 hv. þm. úr þremur fl. þingsins, „nefnd Jóns Pálmasonar“.

Ég skal ekki fara ýtarlega út í þvælu hv. 1. þm. Rang. En ég hygg, að ef hann athugaði hluti eins og tölur, þá kæmist hann að raun um, að kannske enginn, eða a. m. k. fáir þm. hér á hæstv. Alþ. nú hafa minni greiðslur frá því opinbera heldur en einmitt ég, þrátt fyrir þessa 440 kr. greiðslu, sem hann drap á.

Þá vildi þessi sami hv. þm. telja, að það hefði verið rangt skilið hjá mér, að hann liti svo á og meiri hl. fjhn., að ég hefði gert of fáar aths. við ríkisreikninginn. En þetta tekur sig út í þeirra nál. þannig, að ég hefði átt að sýna hlutdrægni með því að gera ekki aths. við reikninginn vegna lögmannsins í Reykjavík og rannsóknarstofu háskólans o. fl.

Þá vildi hv. þm. sanna ósamræmi af minni hálfu í sambandi við greiðslu til ríkisskattan. En þar kemur fram misskilningur hans eins og í flestu öðru, því að hér er að ræða um áætlunarupphæð, sem ekki er hægt að segja um fyrirfram, hvað verður. Hitt er eftir að vita, og þarf að athuga, hvort þar er rétt á fé haldið, er ríkisskattan. fer á 9. þús. kr. fram úr áætlun.

Þá kem ég að því deiluatriði hv. 1. þm. Rang., var sem hann taldi, að ég hefði sýnt hlutdrægni með því að gera ekki harðari aths. vegna umframgreiðslna hjá vegamálastjóra. Ég gerði aths. við þessar umframgreiðslur, sem liggja fyrir, og ég tel, að það efni sé til athugunar. En að því hefir ekki verið vikið til hæstv. Alþ., stafar af því, að ég komst að raun um eftir upplýsingum, að þessar umframgreiðslur væru að meirihluta sprottnar af því, að þarna hefði verið aukin starfsemi, með því að vegabætur höfðu verið auknar á þessu ári, og ekki sízt með því að þá fyrst var lagt fé í hina svokölluðu pestarvegi, sem fór í nokkuð á annað hundrað þús. kr. Og það var lagt á herðar vegamálastjóra og hans starfsmönnum að undirbúa þá vegagerð.

Þá kem ég að því að minnast ofurlítið á aths. snertandi skólana og árásirnar út af því efni af hálfu hv. 1. þm. Rang. Hann sakar mig um hlutdrægni þar. En það er hreinn misskilningur, því að hæstu umframgreiðslurnar eru hjá menntaskólanum, 18 þús. kr., en hjá þeim næsta eru þær ekki nema 12 þús. kr. Allar skýringar hans. þar sem hann talar um prósentureikning, eru út í bláinn, og það var bláber vitleysa, sem hann sagði um þetta efni.

Hv. 1. þm. Rang. var í gær að tala um það, að ég hefði ekki gert neitt í sambandi við skýrslu mína til að hæla þeim mönnum, sem ekki hefðu farið með greiðslur af ríkisfé fram úr áætlun. Ég hefði hvergi talað um slíkt nema í sambandi við póstflutninga á landi. Það hefði nú ekki vantað annað en að ég hefði farið að gera aths. við það, að fé úr ríkissjóði væri ekki greitt meira en til er ætlazt í fjárl.! Og hvers vegna urðu póstflutningar á landi ódýrari þetta ár en gert hafði verið ráð fyrir? Vegna þess, að póstur var þá meira en áður fluttur á bílum. Hv. þm. hældi landlækni fyrir að hafa ekki farið fram úr áætlun með kostnað við skrifstofu sína. Hann hefði líka vel getað nefnt hagstofuna. Það er mjög fjarri því, að mér detti í hug að gera aths. við það, þó að kostnaður af ríkisfé fari ekki fram úr áætlun! Mér hefir aldrei dottið slíkt í hug.

Þá skal ég að síðustu fara fáeinum orðum um þau brigzlyrði, sem þessi hv. þm. kastaði til mín. Í fyrsta lagi var það, að ég væri með hótanir um, hvernig taka ætti á þessum hlutum, og í öðru lagi sagði hann, að ég væri að læðast með rýtinginn aftan að mönnum í pólitíkinni o. s. frv. Þessar ásakanir eru samboðnar öðru í framkominni hjá þessum hrokafulla gikki, sem undanfarið hefir orðið Sér til opinberrar svívirðingar hér á þingi með sinni framkomu. Hann sagði, að hann teldi sér sérstakan heiður að því að hafa einn með öðrum átt hlut að því að hafa birt þetta plagg frá meiri hl. fjhn. Skal ég láta hann um það. Og mér virðist þetta sanna það mjög, sem ég talaði um, að það væri mjög ólíkt hans samnefndarmönnum að hafa skrifað það plagg.

Að öðru leyti en þessu skal ég ekki fara nánar út í svar þessa hv. þm.