08.12.1939
Neðri deild: 78. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

Jón Pálmason:

Margt af því, sem hv. 1. þm. Rang. sagði áðan, er ekki svara vert. En af ræðu hans þá og í gær er sýnilegt, að athugasemdir mínar um reikninga ríkisins hafa farið óþægilega í taugarnar á honum. Öllum hlýtur að vera augljóst, að sviðið hefir undan þessum aths., fyrst svona mikil viðkvæmni er sýnd.

Þegar hv. þm. segir, að ég hafi játað, að ég hafi farið með pólitískar árásir, þá er það blekking. Ég hefi sagt, eins og öllum hlýtur að vera augljóst; að það sé nokkuð önnur aðstaða þeirra manna, sem um mörg ár hafa verið fylgjendur þeirrar stj., er ráðið hefir, en hinna, sem hafa verið í stj.andstöðu. Þarf hér ekki að vera um pólitíska hlutdrægni að ræða. En það er alltaf nokkur aðstöðumunur þeirra, sem hafa verið í stj.andstöðu, og hinna, sem fylgt hafa stj. og hafa því alltaf nokkra tilhneigingu til að draga fjöður yfir það, sem aflaga fer, heldur en hitt.

Það, sem hv. þm. sagði um þá starfsemi fjvn. að safna launaskýrslum, var fullt af blekkingum, eins og fleira í hans ræðu. Hann hélt því fram, að ég hefði sagt í riti, að engin slík starfsemi hefði verið til. Þetta er rangt. Hitt sagði ég, að það, sem landlæknir hefði haldið fram um þetta, væru ósannindi, og það mun ég sanna síðar. Hitt er rétt, að síðan þetta starf hófst, höfum við alltaf verið að fá uppgefnar nýjar og nýjar greiðslur til þessa eða hins manns.

Það, að ég hafi beitt hlutdrægni viðvíkjandi skrifstofustjórunum í stjórnarráðinu, er ekkert annað en þvættingur, og tölur þær rangar, sem hv. þm. fór með. Hitt er rétt, að það hafa smám saman verið að koma í ljós ýmsar aukagreiðslur hjá þessum mönnum, og þarf tíma til að tina það allt saman. Þegar slíkum skýrslum er safnað, er aldrei hægt að fullyrða, að þær séu tæmandi, en það verður að vera vissa fyrir því, að það sé rétt, sem upp er gefið, og í þessu efni er það eitt tekið, sem er eftir skýrslum stofnananna sjálfra eða endurskoðunar ríkisins. Annars er það með þennan hv. þm. sem aðra, er verið hafa gráðugastir í fé ríkisins, að hann er því andvígur, að slíkum skýrslum sé safnað. En hann er þó einn af þeim fáu, sem ekki hafa viljað gefa skýrslur um þær stofnanir, er þeir stjórna, og bendir það til þess, að hann hafi einhverju að leyna og ekki hreint í pokanum.

Hv. þm. beindi til mín spurningu viðvíkjandi fiskimálan., en það, sem hann sagði í því sambandi, hrekur ekki þá skoðun mína, sem ég lét í ljós í gær, að allt, sem viðkemur verkun og sölu fiskjar, heyri í rauninni undir S. Í. F., en allt, sem snertir styrkveitingar, heyri undir Fiskifélag Íslands, svo að fiskimálan. er í rauninni óþörf. Og þegar verið var að breyta verkunaraðferðunum, mátti eins fela sölusambandinu þau mál og láta það fá nauðsynlegt fé til umráða, enda var þar fyrir meiri þekking á málunum en í fiskimálan.

Að öðru leyti mun ég ekki gera aths. hv. þm. að umræðuefni. Það er rétt hjá honum og hv. síðasta ræðumanni, að málið liggur ljóst fyrir, því að það er ljóst, að það hefir hlaupið í taugarnar á hv. þm., að nokkuð hefir verið upplýst um þá fjármálaspillingu, sem hefir átt sér stað við opinberar stofnanir undanfarin ár og því miður er komin vel á veg með að koma fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar á kaldan klaka.