27.12.1939
Neðri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

120. mál, stríðstryggingafélag skipshafna

*Gísli Sveinsson:

Ég tel ekki þörf á að halda uppi umr. sérstaklega um þessi atriði utan dagskrár, sem eru algerlega þess eðlis, að sá forseti, sem er í forsetastóli, á með að fylgja þeim skilningi, sem hann telur réttan.

Hv. þm. Barð. kom inn á annað atriði en það, sem fyrst var gerð aths. um. Það stendur fast, sem ég hefi sagt viðvíkjandi 64. gr. þingskapa, að henni hefir ekki verið framfylgt, en talið, að lögmæt afbrigði væru fyrir hendi, þó að leyfi ráðherra kæmi ekki til, því að ráðherrar geta ekki fremur en aðrir samþ. neitt, þar sem þeir eru ekki viðstaddir. Sá forseti, sem oftast stjórnar hér fundum, hæstv. aðalforseti d., hefir haft þá reglu, að telja það ekki nauðsynlegt, þegar aðeins hefir verið um afbrigði að ræða, en ekki málið sjálft, því að hvort sem afbrigðin eru leyfð eða ekki, þá er meðferðin sú sama, — menn geta gert við málefnin hvað sem þeir vilja, fellt þau eða samþ. eftir vild, svo að það út af fyrir sig áhrærir ekki framgang málefnanna. Hitt atriðið er annað, hvort framfylgja skuli 44. gr. þingskapa þannig, að þegar þm. hafa lögmæt forföll til fjarvistar, þá þurfi ekki að taka atkvæðatöluna eins strangt eins og þegar enginn er burtu með leyfi. En þess er þó að gæta, að orðalag 44. gr. er ekki einhlítt, ef því er að skipta. En vilji menn hafa þá reglu, sem verið hefir algengust hingað til, að óhjákvæmilegt sé í Nd. að fá 17 atkv. af 33, minna nægi ekki til lögmætrar samþykktar, þá hefi ég sem þm. ekkert við því að segja og mundi sem þm. ganga inn á hjá forseta og þm., að önnur regla gilti en sú, sem ég tel rétta. Ég vil þó benda á, að síðari málsgr. 44. gr. tekur engan veginn alveg af skarið um að heimta meira en helming dm., þó að þessari málsgr. hafi verið beitt þannig af þessum hæstv. forseta. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Engin ályktun er lögmæt nema meira en heimingur fundarmanna, þeirra sem atkvæðisbærir eru, greiði atkvæði með henni.“

Hér er ekki sagt skýrum stöfum „þingdeildarmenn“, heldur „fundarmenn“, þeir, sem eru á fundi.

Að öðru leyti legg ég það í vald d., að hún nú í samráði við hæstv. forseta afgeri það, að mynda fasta reglu um þetta, sem ekki megi hvika frá, þó að þm. séu fjarstaddir á löglegan hátt og með fullu leyfi.