07.11.1939
Efri deild: 55. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

97. mál, hitaveita Reykjavíkur

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Þetta frv. er bundið við framkvæmdir á hitaveitunni í Reykjavík, svo sem hv. þm. er kunnugt. Það er langt síðan það komst á döf og hafinn var undirbúningur að því, að hægt væri að koma upp hitaveitu í Reykjavík. Á Alþ. 1938 voru afgr. heimildarl. fyrir ríkisstj. til að takast á hendur ábyrgð fyrir væntanlegri lántöku til hitaveitu í Reykjavík, en það fór svo, að lán fékkst ekki til hitaveitunnar samkv. þessum l. En það kom í ljós, að danskt firma, Höjgaard & Schultz, myndi vera fúst til að taka að sér framkvæmd verksins með vissum skilyrðum, sérstaklega í sambandi við Handelsbanken í Khöfn. Í þessu skyni fóru þeir utan, borgarstjórinn í Reykjavík (PHalld), hæstv. fjmrh. (JakM) og Magnús Sigurðsson, bankastjóri Landsbankans. Þeir gerðu samninga við framangreint firma í Khöfn um, að það tæki að sér að vinna verkið. Samtímis voru og gerðir samningar við Privatbanken í Khöfn, sem hafði forustuna um að leggja fram fé til verksins. En í sambandi við lántöku til hitaveitunnar var snúið sér til ríkisstjórnarinnar. Hún taldi nauðsyn bera til að gefa út l. til þess að verkið yrði framkvæmt. Það voru færð rök fyrir því, að það væri nauðsynlegt, bæði fyrir ríkið sjálft og bæjarfélag Reykjavíkur, sem fyrst og fremst myndi verða aðnjótandi hitaveitunnar, að þessi l. væru gefin út. Það var ekki unnt að hefja framkvæmd verksins með væntanlegri ábyrgðarheimild frá Alþ. fyrr en slík heimildarl. lægju fyrir. Það þurfti að fá heimild til þess að grafa fyrir hitalögnum í lóðum einstakra manna, og það hefði verið örðugleikum bundið að semja við hvern lóðareiganda út af fyrir sig o. s. frv.

Hv. borgarstjóri Reykjavíkur ritaði ríkisstj. hinn 27. júní síðastl. bréf um þetta efni, þar sem farið var fram á, að gefin væru út bráðabirgðal. í samræmi við þann samning, sem Reykjavíkurbær hafði gert við danska firmað Höjgaard & Schultz og danska lánveitandann. Ríkisstj. varð við þessari beiðni eftir ýtarlega athugun og gaf út þau bráðabirgðal., sem í þessu frv. er farið fram á, að verði staðfest af Alþ.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja efni þessara laga. Þau eru ljóst og skilmerkilega orðuð, og ég hygg, að öllum komi saman um, að það var næsta mikil nauðsyn að gefa út bráðabirgðal. um þetta, svo að hægt væri að byrja á verkinu og hefja framkvæmdir við hitaveituna. Það mun hafa verið vilji bæði löggjafanna og stjórnarvaldanna, að þetta mál næði fram að ganga sem fyrst.

En síðan hafa gerzt þeir viðburðir, að stríð er skollið á í Evrópu, sem alkunnugt er, og var þá búizt við, að ýmsir erfiðleikar myndu koma til skjalanna, er tefðu framgang verksins. Þegar ég var í Khöfn í septembermánuði síðastl., átti ég tal við aðalmanninn frá Höjgaard & Sehultz og einn af bankastjórunum við Handelsbanken ásamt sendiráðsfulltrúa Íslands í Khöfn, Jóni Krabbe. Þá ræddum við um þær breyt., sem þyrfti að gera á bráðabirgðal. um þetta efni, sem þá höfðu nýlega verið gefin út, bæði í samræmi við þær áætlanir, sem gerðar höfðu verið, og samningana milli Reykjavíkurbæjar og danska firmans, einkum vegna þess ástands, er þá var yfirvofandi og búast mátti við, að hefði í för með sér, að verkið yrði allmiklu dýrara en upphaflega hafði verið áætlað. Þegar ég kom heim til Íslands, ræddi ég við starfsbræður mína í ríkisstj. um þessi atriði, og kom okkur saman um, að gera þyrfti 3 breyt. á bráðabirgðal., og samkv. viðtali við hina dönsku verktaka og lánveitendur kom í ljós, að áætlunin um kostnað við verkið, sem gerð hafði verið í fullu samráði við bæjarverkfræðing Reykjavíkur, myndi verða of lág. Vegna styrjaldarinnar reyndist verkið mundu verða 1,3 millj. kr. dýrara heldur en upphaflega hafði verið áætlað. Borgarstjórinn í Reykjavík ritaði þá félagsmálaráðuneytinu bréf, og í því var farið fram á, að Reykjavíkurbæ yrði leyft að taka hærra lán heldur en upphaflega hafði verið ætlazt til. Með bréfi félmrn., dags. 7. okt. síðastl., var Reykjavíkurbæ heimilað að hækka lánsupphæðina til hitaveitunnar upp í 9 millj. í dönskum kr.

Ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins að fara út í þær breyt. á frv., sem leiddi af því samkomulagi, er gert var milli danska verktakans og Reykjavíkurbæjar og íslenzka ríkisstj. hefir fallizt á. Þó skal ég geta þess, að það er nokkur umorðun í 4. gr., sem fjallar um rétt verktaka til að taka verkið í sínar hendur, ef lánið yrði ekki greitt af hálfu Reykjavíkurbæjar á tilskildum tíma. Sömuleiðis er smábreyt. í 6. málsgr. 7. gr., sem einnig mun þykja nauðsynlegt að gera. Loks er 8. gr. frv., þar sem ræðir um upphæð þess láns, er ríkið gengur í ábyrgð fyrir. Það þarf bæði að hækka þá upphæð frá því, sem þar er gert ráð fyrir, og líka að ganga inn á, að sú upphæð verði í dönskum krónum, þar eð lánið er tekið í Danmörku, og óvíst er, nema hlutfallið milli danskrar og íslenzkrar krónu kunni að einhverju leyti að raskast meðan lánið og verksamningar verða í gildi.

Ég mun gefa þeirri n., sem um þetta frv. fjallar, þær upplýsingar, sem hún kann að óska, og vona, að hún verði sammála um þær brtt., sem ríkisstj. getur fyrir sitt leyti fallizt á, eða telur nauðsynlegt að gerðar verði. Ég legg svo til, að þessu frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til fjhn.