28.11.1939
Efri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

97. mál, hitaveita Reykjavíkur

*Frsm. (Magnús Jónsson) :

Þetta er stórt mál, er hér liggur fyrir hv. deild, en þó mun ég naumast þurfa að halda langa ræðu.

Frv. er borið fram samkv. 23. gr. stjskr. og ræðir aðallega um bæjarfélag Rvíkur og verklegt fyrirtæki þess, hitaveituna. Bráðabirgðalög um hitaveituna voru gefin út í sumar í skjóli þess, að hægt væri að hefja verkið, og frv. er bara staðfesting á þessum bráðabirgðal. Fjhn. hefir rætt málið og fallizt á, að brtt. verði samþ. Brtt. eru að mestu leyti umorðanir. Efnisleg breyting er brtt. III. við 8. gr. (þskj. 332), þar sem farið er fram á að hækka ábyrgðarheimild ríkisins úr 8,5 millj. ísl. kr. upp í 9 millj. danskra kr. Þetta er mikil hækkun, sem þingið verður að taka afstöðu til. Það þarf auðvitað engum getum að því að leiða, hvernig á þessari hækkun stendur. Stríðið, sem nú geisar, hefir hækkað allt efni til hitaveitunnar, og það er ekki fyrirsjáanlegt, hve miklu hækkunin muni nema áður en lýkur, og jafnvel tvísýna um sjálft verkið. Hækkunin er að vísu mikil, en hún er ekki óeðlileg. Menn verða að taka henni, enda hefir engum dottið í hug, að hætt yrði við verkið hennar vegna. Nefndin hefir borið fram eina brtt. (I. tölul., við 3. gr. frv., á þskj. 332), að í stað byrjunarinnar á 2. málsgr.: „Bæjarstjórn getur ... heimæðakostnaðinn“ komi: Bæjarstjórn sér um lagningu heimæða og getur samið við húseiganda um, að hann greiði heimæðagjaldið. — Brtt. þarf engrar skýringar við, en orðalag frv. er þarna dálítið óskýrt. Nefndin hefir því gengið frá málinu með þeim brtt. á þskj. 332, sem skýrt hefir verið frá, en hv. 1. þm. Eyf., sem skrifaði undir nál. með fyrirvara, hefir bætt við 8. gr. einni brtt., um að ábyrgðarheimild ríkisins verði bundin við 90% af stofnkostnaði sem hámark. Um þessa brtt. hv. 1. þm. Eyf. sé ég ekki ástæðu til að ræða, fyrr en hann þá sjálfur hefir gert grein fyrir henni.