23.12.1939
Neðri deild: 91. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

97. mál, hitaveita Reykjavíkur

*Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Þetta mál er komið frá Ed. og var afgr. þar ágreiningslaust. Fjhn. þessarar d. hefir haft málið til meðferðar. og er hún sammála um málið og leggur til, eins og nál. greinir, að það verði samþ.

Þetta var að sönnu nokkuð ágreiningsmál áður, en er það ekki lengur. Sá ágreiningur var sérstaklega um það, hvort ríkið ætti að ganga í ábyrgð fyrir fullri upphæðinni eða nokkrum hluta hennar, og var brtt. borin fram í Ed. um það, að ríkið ábyrgðist aldrei meira en 90% af lántökuheimildinni. Sú breyt. náði ekki fram í Ed., og þó að tveir af nefndarmönnum fjhn. hafi nú áskilið sér rétt til að bera fram brtt. um sama efni, geri ég ráð fyrir, að slík brtt. hafi ekki nein áhrif á samþykkt málsins. Ég vil ekki fara að rifja upp nein ágreiningsatriði málsins, heldur flytja þau boð frá n., að hún óskar að frv. verði samþ.