27.12.1939
Neðri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

97. mál, hitaveita Reykjavíkur

*Sveinbjörn Högnason:

Það virðist koma í ljós við flutning þessa frv. eins og þessi l. hafi verið samin og fyrirskipuð af dönskum stjórnarvöldum, og ef Alþ. leyfi sér að gera á þeim nokkrar breyt., þá sé öllu til baka kippt.

Ég vil alveg mótmæla því, að ríkisstj. hafi vald til að binda hendur Alþ. á þennan hátt. Slíkt mun ávallt talið ósæmandi, og ef ríkisstj. hefir hagað sér á þennan hátt, að telja það gott og blessað að láta Dani segja sér þannig fyrir, þá vil ég mótmæla slíku framferði ríkisstj. Og ég vil ekki gefa mitt samþykki slíkri löggjöf, ef ekki má breyta nokkrum staf af því, sem þessum hæstvirtu mönnum hefir þóknazt að semja. Þetta er í alla staði svo ótilhlýðilegt, að ég álít sjálfsagt að gera á frv. þessa smávægilegu breyt., til að sýna það, að Alþ. lætur enga binda hendur sínar um það, hvernig einstök löggjöf sé gerð. Alþ. hefir hingað til ekki verið sú undirlægja Dana, að það sé nein ástæða til að ætla, að nú sé kominn sá andi inn á Alþ., að nú eigi að fara að lúta Dönum um það, hvort við eigum að leggja ákveðna skatta á fyrirtæki uppi á Íslandi. Það er þá eitthvað breytt hugarfar Íslendinga hér á Alþ. ef slíku verður ekki þegar í stað mótmælt. Annars er eitt af aðalatriðum málsins það, eins og hv. flm. tók fram, að ríkið gengur í svo stórfelldar ábyrgðir fyrir framkvæmdum Reykjavíkur, 12 millj. ábyrgð fyrir hitaveitu til viðbótar við 7 millj. lán til rafveitu, sem var svo rífleg, að hingað til hefir ekki allt rafmagnið verið notað, meðan við vitum, að beðið er eftir því í öllum héruðum landsins, að ábyrgð fáist á lánum fyrir rafveitur, hitaveitur og fleiri slíkar umbætur, þótt ekki sé nema lítið brot af þeirri upphæð, sem hér er um að ræða. Þá finnst mér ekki undarlegt, þó að farið sé fram á, að fyrirtækið borgi lítilsháttar fyrir ábyrgðina, í því skyni að flýta því, að ýmsir aðrir landsmenn verði sömu þæginda aðnjótandi. Það er réttlát og í rauninni sjálfsögð leið til að reyna að dreifa rafmagninu út um landið, leið, sem hefir verið farin í Noregi. Það er alls ekki rétt. að hér sé aðeins verið að skattleggja fyrirtæki, heldur er ríkisábyrgðin og gjald það, sem brtt. á þskj. 611 fer fram á, eðlilegt samhjálparform. Slík aðferð við dreifing rafmagnsins kæmi ekki aðeins þeim að gagni, sem þá fengju rafleiðslur, heldur og núverandi notendum, þegar rafmagnsverð færi lækkandi með vaxandi notkun. Mig undrar stórlega, hvernig móttökur sumar tillögur hafa fengið hér, eins og frv. um rafveitulánasjóð eða þessi brtt., svo ljóst sem mönnum hlýtur að vera, að flótti fólksins til þægindanna í höfuðstaðnum er hættulegur. Ég vænti þess, að hv. þdm. muni eftir þörfum dreifbýlisins í sambandi við afgreiðslu þessa máls, en þó sérstaklega, að Alþingi sýni, að það lætur ekki stjórnast af einhverjum fyrirskipunum frá Kaupmannahöfn.