27.12.1939
Neðri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

97. mál, hitaveita Reykjavíkur

*Sveinbjörn Högnason:

Ég vil ekki segja, að það væri barnalegt, sem hæstv. fjmrh. sagði. Það stóð ekki svo hátt. Hverjum dettur í hug, að tekin séu erlend lán handa fyrirtækjum með þeim skilyrðum, að aldrei skuli lögð á þau nein útgjöld? Það sýnir sig glöggt í 7. gr. hitaveitulaganna, þar sem bannað er að skattleggja fyrirtækið í þeim kringumstæðum einum, ef það lendir í greiðsluþrot. Það væri alveg sérstakt, ef hið opinbera mætti ekki leggja það, sem sanngjarnt þykir, á fyrirtæki, sem reist eru fyrir erlent lánsfé, og væri athugunarvert, hvort þeirri reglu ætti þá að fylgja t. d. um síldarverksmiðjur ríkisins, sem nú hefir verið talað um. a. m. k. meðal einstakra þm., að skattleggja til samgöngubóta. Engum hefir hugkvæmzt, að það gæti orðið til þess, að þær fengju engin lán. Þvert á móti vex traustið á fyrirtækjum við það, að þau reynast fær um að bera skynsamlega álagða skatta. Nú eru allir á einu máli um það, að hitaveitan sé fyrirtæki, sem ætti að bera sig mjög vel, og þá er sanngjarnt og meira að segja sjálfsagt, að hún taki þátt í kostnaðinum við að útbreiða notkun jarðhitans og við rafvirkjanir annarstaðar. Það finnst mér allt of mikil svartsýni hjá hæstv. fjmrh., að halda, að þetta „glæsilega“ fyrirtæki verði gert órekstrarhæft, þó að brtt. verði samþ. Þá hefir a. m. k. verið stefnt svolítið tæpar en af var látið, þegar af stað var farið. Verðlag getur að vísu breytzt og hækkað mikið enn. En hvað sem því líður, er það fjarstæða, að þessi brtt. sé gerð til að torvelda framkvæmd hitaveitunnar: hún sýnir miklu fremur traust til hitaveitunnar, og það traust byggist á velvilja. En hversu miklu fremur torveldar ekki það skilningsleysi heilbrigða lausn, að berjast gegn brtt. sem þessari og vilja drepa allar tillögur til úrlausnar þeim, sem bíða eftir rafmagni í sveitum landsins? Þá hlýtur svo að fara, að þangað sæki flestir, sem þægindin eru bezt.