27.12.1939
Neðri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

97. mál, hitaveita Reykjavíkur

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Mér finnst nauðsynlegt að koma svolítið inn á það, sem hv. 1. þm. Rang. var að tala um. Hann furðar sig á því, að ríkisstj. leyfi sér í samningum að binda hendur Alþingis, og mótmælir harðlega. Mér þykir nokkuð gaman að heyra þetta hljóð úr því horni. Ég veit ekki betur en hvert frv. eftir annað hafi nú verið knúið af ríkisstj. gegnum þingið án þess að nokkur úr hópi hv. 1. þm. Rang. hafi neinu þorað að hreyfa gegn því. Það má segja, að brögð séu að, þá barnið finnur. Ég held fáir hafi framfylgt handjárnareglunni betur en hann. Nú kvartar hann um, að handjárnin banni hjálp til rafvirkjana í sveitum og annara brýnna umbóta. Hvernig stendur þá á því, að Framsfl. hefir ekki gengizt fyrir því í tæka tíð að samþ. lög um ríkisábyrgðir handa slíkum fyrirtækjum í sveitum? Ég held, að framsóknarmenn ættu að muna eftir, hvað þeirra eigin fjmrh. gerði 1935, þegar hann gaf Magnúsi bankastjóra Sigurðssyni í London yfirlýsing, sem ætluð var Hambrosbanka. Það hefir ekki verið reynt að styðja slík fyrirtæki með ábyrgðum, af því að Eysteinn Jónsson fjmrh. var búinn að binda þannig hendur Alþingis. Ég held, að þm. ættu að minnast þessa, áður en þeir tala með svo miklum rembingi um þessi atriði sem sumir gera nú. — Það er spurt, hvernig hægt sé að afla fjár til að standa undir meiri framkvæmdum á þessum sviðum. Það er hægt með auknum beinum sköttum, einnig með sköttum af útflutningi, og það kynni að mega spara dálítið að ósekju. Hæstv. forseti Nd. (JörB) komst einu sinni að því sem formaður milliþinganefndar í launamálum, að það mætti spara 700 þús. kr. á ári af launagreiðslum til embætta. Hvað var gert við þá uppgötvun? Söltuð og vel geymd þessi 4–5 ár, síðan gert var uppskátt um hana. Hvað var gert við till. okkar sósialista í þessum efnum? Fást náttúrlega ekki teknar fyrir á þessu þingi. Það má aldrei skera niður. En það má hækka tolla á nauðsynjavörum, þótt á stefnuskrá Framsfl. standi, að þeir eigi engir að vera, til þess að hægt sé að gera togarafélög skattfrjáls og útflutning þeirra tollfrjálsan, þegar þau ætla að fara að græða. — Ég held að hv. 1. þm. Rang. og flokksmenn hans ættu að muna eftir þessari sveitaumhyggju sinni við afgreiðslu fjárlaganna. Nú sé ég ekki betur en skera eigi niður allmikið af þeim fjárveitingum sem gera sveitirnar byggilegar. Þessir hv. þm. ættu að reyna að halda í þær réttarbætur og fjárhagsstuðning, sem löggjöfin hefir veitt eða lofað bændum síðasta áratug, en nú er stöðugt verið að skerða eða eyðileggja. Ég held, að í hv. fjvn., þar sem þeir eiga formanninn og víst einhverja fleiri, þótt lítið beri á, mætti koma í ljós, að ennþá hangir flokkurinn með ákveðna stefnuskrá. Ef vilji er til þess í flokknum að bæta úr þeim bágindum, sem fjöldi fólksins í sveitum landsins á við að búa, býst ég við, að það segi nú bráðlega til sín. En þá mega þeir þm. gæta þess að láta ekki ríkisstj. fyrirskipa sér hvað sem er eða þola, að gengið sé á þann rétt, sem almenningi hefir verið veittur.