22.02.1939
Sameinað þing: 3. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

1. mál, fjárlög 1940

Finnur Jónsson:

Fjárlagafrv. það, sem hér er til umr., er sem vænta mátti í öllum stærri atriðum í samræmi við samninga þá, sem Alþfl. og Framsfl. gerðu með sér á síðasta þingi, þegar Alþfl. veitti stj. Framsfl. áframhaldandi stuðning.

Fulltrúi Sjálfstfl., hv. þm. A.- Húnv. (JPálm), gat þess um þetta frv., að það væri hið hæsta fjárlfrv., sem nokkurntíma hefði verið lagt fyrir Alþingi, og talaði um fjáreyðslu og bruði í því sambandi. Þessi hv. þm. talaði um, að hér væri mikið um skóla, spítala og allskonar stofnanir. Ég ætla þó ekki, að það hafi verið meining hans, að þessar stofnanir væru svo dýrar, að þær bæri að leggja niður, að loka skólunum og spítölunum í sparnaðarskyni.

Þó að þessi fjárl. séu þannig, að þeim er sniðinn mjög þröngur stakkur, bera þó ýmsir stórir útgjaldaliðir frv. vitni um, hvaða stjórnmálastefnu hefir verið fylgt á undanförnum árum af meiri hl. Alþingis. Menn kvarta um þunga skatta, og það að vonum. Það er hverju orði sannara, að erfitt er að bera þunga skatta í erfiðu árferði. En á hitt ber þá einnig að líta, að það er einmitt hið erfiða árferði, sem hefir gert skattahækkunina nauðsynlega. Atvinnuvegirnir þoldu til dæmis áður að bera skatta, en vegna örðugleika þeirra á undanförnum árum hefir þetta snúizt við, þannig að þurft hefir að veita þeim stórkostlega styrki úr ríkissjóði.

Hv. þm. A.-Húnv. gat um mæðiveikina og örðugleika bænda hennar vegna. Hann talaði um hinn mikla lambadauða austan Blöndu. En á það má benda, að ríkið hefir einmitt vegna þessara örðugleika orðið að leggja á sig mikil gjöld. Hafa þessir örðugleikar atvinnuveganna kostað ríkið um 1200 þús. kr. Og ef hægt er að benda á nokkur atriði fjárl., sem sýna sérstaka stjórnmálastefnu, þá er um að ræða þá stjórnmálastefnu að gera allt, sem unnt er, til að létta örðugleika atvinnuveganna. Það getur enginn látið sér sæma að kvarta yfir örðugleikum atvinnuveganna og kvartað jafnframt yfir því, að á fjárl. er veitt fé til að bæta úr þessum örðugleikum.

Hin mikla kreppuhjálp til bænda og útvegsmanna ber ljóst vitni um þessa viðleitni til að bæta úr örðugleikum atvinnuveganna. Framlag ríkissjóðs til kreppulánasjóðs nemur 255 þús. kr. og til skuldaskilasjóðs 160 þús. kr., eða samtals 415 þús. kr. á ári. Ég geri ráð fyrir, að allir hv. þm. séu sammála um, að ekki sé hægt að spara á þessum lið. Þá má nefna styrki og gjaldabreytingar til atvinnuveganna, sem veitt hafa verið með sérstöku samkomulagi milli Alþfl. og Framsfl., svo sem framlag í fiskimálasjóð, 450 þús. kr., styrk til byggingar vélbáta, 50 þús. kr., afnám útflutningsgjalds af saltfiski, 300 þús. kr., og framlag til fiskveiðasjóðs, 60 þús. kr., eða samtals vegna sjávarútvegsins um ein milljón króna í skattalækkunum eða framlögum.

Til byggingar- og landnámssjóðs og til nýbýla og samvinnubyggða og endurbygginga í sveitum er lagt til, að veittar séu samtals 480 þús. kr. Þetta hrekkur auðvitað skammt, en er þó mikil upphæð.

Af beinum útgjaldaliðum á fjárl. til nytjamála, sem sérstaklega má þakka Alþfl., má nefna þessa: Framlög til atvinnubóta, 500 þús. kr., til alþýðutrygginga, 545 þús. kr., til framfærslu sjúkra manna og örkumla, 355 þús. kr., og til byggingar verkamannabústaða, 180 þús. kr., eða samtals 1580 þús. kr.

Vitanlega mætti nefna fleiri útgjaldaliði í þessu sambandi, en þessir hafa sérstaklega verið ákveðnir fyrir atbeina Alþfl. Það er að vísu hægt að segja, að þessa liði mætti spara, að það mætti spara þessar 3½ milljón. En þó að þessi upphæð nemi allmiklu á fjárl., geri ég ráð fyrir því, að umbótalöggjöf sem þessi hafi þegar náð slíkri viðurkenningu meðal alþjóðar manna, að hún verði ekki lækkuð, heldur miklu fremur hækkuð eftir efnum og ástæðum, a. m. k. meðan Alþfl. á nokkur ítök á Alþingi og meðal þjóðarinnar.

Sum þessara útgjalda hafa að vísu verið samþ. með samkomulagi allra flokka. En styrkirnir til hins mikla landnáms og uppbyggingar í sveitunum, styrkirnir til sjávarútvegsins, atvinnubótaféð, framlagið til sjúkratrygginganna, framlagið til framfærslu sjúkra manna og örkumla, framlagið til verkamannabústaða, allt er þetta fengið með samvinnu og samkomulagi milli Alþfl. og Framsfl. Andstæðingarnir bera okkur stundum á brýn, að hin mikla fjárfrekja okkar, sem þeir kalla svo, sé ríkissjóði þungur baggi. Gagnvart þessum ásökunum getum við alþýðuflokksmenn óhræddir vísað í fjárlög undanfarinna ára. Fjárfrekja okkar er í því fólgin, að við höfum viljað bæta úr böli atvinnuleysisins, auka verklegar framkvæmdir og koma á merkilegri tryggingalöggjöf, til hagsbóta fyrir fólkið við sjóinn. Fjárfrekja okkar er í því fólgin, að við höfum gert kröfur um aukin fjárframlög til almenningsheilla, til þess að bæta úr þeim vandræðum, sem hrun atvinnuveganna, óáran, aflabrestur og markaðsvandræði leiddu yfir landslýðinn.

Fjárlfrv. þetta kann að vera einstakt fyrir það, hve hátt það er, en það er líka einstakt fyrir það, að sem næst 75% rekstrarútgjalda er ætlað til verklegra framkvæmda, styrkja handa atvinnuvegunum, félagsmálalöggjafar, fræðslumála og heilbrigðismála. Aðeins 25% fer til stjórnarkostnaðar, dómsmála og löggjafarstarfsemi, vaxtagreiðslna o. þ. h.

Ég gat þess áðan, að einmitt hið erfiða árferði væri þess valdandi, að útgjöld ríkisins til verklegra framkvæmda og til styrktar atvinnuvegunum hlytu að hækka. Enn er því miður ekki lokið þessum hækkunum. Enn er aðalatvinnuvegur okkar, sjávarútvegurinn, í miklum vandræðum. Ráðstafanir þær, er þegar hafa verið gerðar til viðreisnar honum, eru hvergi nærri nægilegar. Milliþn. hefir verið starfandi til að athuga hag togaraútgerðarinnar og gera till. til þess að bæta úr vandræðum hennar. Valdsvið þessarar n. hefir verið aukið, og hefir hún einnig athugað afkomu vélbátaútvegsins. Í n. eiga sæti fulltrúar þriggja stærstu flokkanna á Alþingi. N. hefir látið í ljós sameiginlegt álit um það, að hún teldi nauðsynlegt, að ráðstafanir væru gerðar til að bæta hag bæði stærri og smærri útgerðar í landinu. Alþfl. á Alþingi, sem á fulltrúa í þessari n., er að sjálfsögðu reiðubúinn til samstarfs og umræðna við aðra hina stærri þingflokka um ráðstafanir til úrlausnar á þessu vandamáli, ekki sízt þar eð það er öllum ljóst, að í þessu efni verður að gera skjótar og öflugar ráðstafanir til úrbóta. Sjávarútvegurinn er stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar. Öll þjóðin á afkomu sína undir honum. Styrkur til hans verður ekki veittur nema því aðeins, að allir láti eitthvað af mörkum. Hér þarf því sameiginleg átök allra, sem vilja hafa og hafa skilning á þessu máli.

Alþfl. lítur svo á, að það sé stærsta og eigi að vera fyrsta verkefni Alþingis, sem nú situr, að leysa þennan mikla vanda. Alþfl. telur því meiri ástæðu en ella til þess að finna úrlausn á þessum vandamálum, vegna þess að öfgastefnurnar vaða nú mjög uppi hér í álfunni, og öldur þessara stefna berast nú hingað út til Íslands. Kommfl., sem, eins og heyra mátti af ræðu hv. 5. þm. Reykv., hefir verið að gera Alþfl. allskonar sameiningartilboð, er nú snúinn út af þeirri braut og búinn að sameinast nazistum. Á það hefir oft verið bent, að þessi tilboð kommúnista hafa ekki verið alvarlega meint, og er Alþfl. vildi ekki rétta honum hendurnar, leitaði Kommfl. fyrir sér annarstaðar og fékk hlýtt handtak hjá nazistum í Reykjavík og Hafnarfirði.

Kommfl. hefir breytt um nafn og kallar sig nú Sósíalistaflokkinn, Sameiningarflokk alþýðu. Það er einkennilegt, að nazistaflokkurinn í Svíþjóð, sem hefir undanfarna daga orðið uppvis að njósnum fyrir erlend ríki, hefir framið innbrot á skrifstofur í Stokkhólmi og allskonar glæpi aðra, heitir einmitt „Svensk sociallstisk samling“. Ég tel það enga tilviljun, að þessi nöfn á kommfl. íslenzka og nazistaflokknum sænska eru nærri því samhljóða. Það er í fullu samræmi við það, að samtök nazista og kommúnista í Hafnarfirði standa saman að ólöglegri vinnustöðvun. Þessir ofbeldismenn hafa í sameiningu hóp manna úr Reykjavík í Hafnarfirði til að banna verkamönnum þar að sjá sér og fjölskyldum sinum fyrir brauði. Þó er þar engin kaupdeila. Það er fullt samkomulag um kaupið milli verkamanna og atvinnurekenda. Þetta er uppreisn og vinnubann öfgaflokkanna, sem vilja allt til vinna, að sem mest öngþveiti komist á atvinnumálin. Þeir vilja þar á enga aðra lausn en að fá völdin í sínar hendur með ofbeldi. Gegn þessum öfgastefnum ættu allir þeir að sameinast, sem unna lýðræðinu. Framtíð þjóðarinnar er undir því komin, að rætt sé um málin af skynsemi, og ef þannig hefði verið tekið á þessu máli, hefðu ekki hlotizt af því þau vandræði, sem nú lítur út fyrir.

Hv. 5. þm. Reykv. talaði um sameiningarmöguleika kommúnista við Alþfl. Ég hefi bent á, að í stað þess að sameinast Alþfl. hafa kommúnistar gert samband við nazista í Hafnarfirði. Sú samvinna hófst með því, að reknir voru á ólöglegan hátt 12 alþýðuflokksmenn úr verkamannafélaginu Hlíf í Hafnarfirði undir því yfirskini, að þeir séu atvinnurekendur. Það má sennilega segja það um Ásgeir Stefánsson, sem er forstjóri bæjarútgerðarinnar, að hann sé atvinnurekandi, en um hina er ekki hægt að segja hið sama. Enginn þeirra er meiri atvinnurekandi en svo, að þeir hafa keypt smá hlutabréf í atvinnuhótafyrirtækjum í Hafnarfirði; en það gefur þeim enga ástæðu til að koma fram sem atvinnurekendur gegn verkalýðnum. Eina ástæða kommúnista og nazista til að reka þá úr félaginu er sú, að þeir hafa tekið fé að láni til að bæta úr atvinnuleysinu í Hafnarfirði. Ef þessari sömu stefnu væri alstaðar fylgt, ætti að reka alla þá úr verkalýðsfélögum landsins, sem eiga hlutabréf í Eimskipafélagi Íslands. Heima á Ísafirði geri ég þá ráð fyrir, að enginn mætti vera í sjómannafélaginu, sem væri í samvinnufélaginu og væri þar með atvinnurekandi.

Það sjá allir, hvert þessi stefna leiðir. Þessi ástæða hefir verið notuð til að bægja 12 áhugamestu alþýðuflokksmönnunum úr Hlíf, mönnunum, sem hafa gert verkalýðssamtökin í Hafnarfirði að því stórveldi, sem þau eru. Allir sjá, að þetta eru ekki nema tylliástæður. Nokkru áður en þetta gerðist fór fram stjórnarkosning í verkamannafélaginu Hlíf, og gengu þá kommúnistar og nazistarnir innan íhaldsins saman til kosninga, og þessi brottrekstur gerðist rétt eftir að kommúnistar höfðu náð þar völdum. — Ég taldi ástæðu til að koma inn á þetta mál að gefnu tilefni frá hv. 5. þm. Reykv.

Það er ekki hægt að láta því ómótmælt frammi fyrir alþjóð, að í sömu andránni og kommúnistar gera samband við nazistana úr Sjálfstfl. um að reka helztu alþýðuflokksmennina úr Hlíf og banna Hafnfirðingum að vinna sér fyrir brauði, þó að ekki sé um neina kaupdeilu að ræða, sé talað um samband milli Alþfl. og Kommfl. Þá má benda á í þessu sambandi, að Hafnfirðingar fá ekki sjálfir að gera út um málið, þótt þeir segi, að þeir geti það sín á milli, ef ekki væri nein íhlutun frá aðkomumönnum þar um. Að þessu leyti er vinnubannið í Hafnarfirði sama eðlis og borgarastyrjöldin á Spáni. Franco fór með Máraherinn yfir sundið, og næsta spor er, að fasista- og nazistaríkin í Evrópu, Ítalía og Þýzkaland, senda Franco liðsstyrk, svo hann gæti barið niður lýðræðisstefnuna á Spáni.

Hið sama hefir gerzt í Hafnarfirði. Héðinn Valdimarsson kom með flokk ofbeldismanna úr Reykjavík og lýsti yfir vinnustöðvun, enda kalla Hafnfirðingar þetta lið hans Márahersveitirnar. Nú kemur til kasta hæstv. Alþingis að greiða svo úr þessum vandamálum, að komið sé í veg fyrir, að þessum ofheldisstefnum vaxi fiskur um hrygg í landinu.

Í heiminum berjast nú tvær stefnur. Önnur er sú, að láta ekkert annað ráða en ofbeldi og hnefarétt. Hin er sú, að menn vilja tala um málin með skynsemi og láta meiri hlutann ráða og rólega yfirvegun á lýðræðisgrundvelli. E. t. v. er úrslitabaráttan hér á landi um það, hver stefnan eigi að ráða, nær en okkur grunar. Ég er ekki í vafa um, hvor stefnan er þjóðinni fyrir beztu. Ég er ekki heldur í vafa um, hvar Komfl. stendur í þessari baráttu. Það veltur á miklu, að tekið sé á þessum málum með skynsemi og rólegri yfirvegun, svo komið sé í veg fyrir, að jarðvegur skapist hér á landi, sem gefur þessum stefnum lífsmöguleika. Að því verða allir lýðræðissinnar í landinu að stefna, að bæta hugsunarhátt þjóðarinnar svo, að ofbeldisstefnurnar veslist upp og deyi af því, að enginn jarðvegur verði fyrir þær.