22.02.1939
Sameinað þing: 3. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

1. mál, fjárlög 1940

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það hefir margt verið sagt síðan ég talaði áðan, en meiri hlutinn af því hefir ekkert tilefni gefið mér til andsvara, enda hefi ég ekki nema fjórðung stundar upp á að hlaupa.

Hv. 5. þm. Reykv. minntist á margt og taldi fjárlagafrv. vera tilefni ræðu sinnar, en raunar virtist hann fremur vera að tala um daginn og veginn en frv. eða fjármálastefnur. Hann talaði um landsbankavaldið og Hambro, eins og hann er vanur, og bætti því við, að allir vinstri flokkarnir ættu að sameinast um hina réttu fjármálastefnu. En hver sú stefna er, það kom ekki í ljós, svo hægt væri að festa fingur á henni. Hann sagði, að það ætti að lækka háu launin og leggja háa skatta á þá menn, sem gætu borið þá, leggja þá á hátekjurnar og stóreignirnar.

Það er létt að segja þetta, en þó verð ég að segja hv. 5. þm. Reykv. eins og er, og vona, að menn virði mér það til vorkunnar, að ég hefi litla trú á, að flokkur, sem hv. 3. þm. Reykv. (HV) er orðinn formaður i, a. m. k. út á við, gangi langt, eða lengra en aðrir flokkar í þeirri fjármálastefnu að skerða háu launin eða leggja á beina skatta. Það fer ekki leynt, að hann var a. m. k. meðan hann var í Alþfl. allra manna tregastur á að leggja á beina skatta.

Það er þýðingarlaust að vera með slíkt gambur, sem hv. 5. þm. Reykv. og veit; það verður ekki leyst þann veg, ekki einu sinni með þeim liðsstyrk, sem fengizt hefir með hv. 3. þm. Reykv.

Hv. 3. landsk. (StSt) talaði töluvert um fjárlfrv. og fjármálastefnu ríkisstj. Aðallega gerði hann þó hið sama og hann hefir gert undanfarin ár, að tala um skuldirnar við útlönd, og tók tölur til samanburðar á sama hátt og áður. Sá samanburður og hvernig hann vísaði til álits skipulagsnefndar var honum alls ekki samboðinn. Það er kunnugt; að skipulagsnefnd reiknaði út, hvað skuldirnar við útlönd námu 1935, en fékk þar út aðra tölu en hagstofan, eða tölu, sem var mun lægri.

Það, sem hv. þm. gerir, þegar hann reiknar út skuldirnar við útlönd, er ekki að bera saman tölur hagstofunnar frá ári til árs, heldur ber hann tölu skipulagsnefndar saman við tölu hagstofunnar, af því að hún er hærri, og segir svo, að mismunurinn á tölunum séu skuldir, sem stofnað hafi verið til síðan. Þannig er málafærsla þessa hv. þm. í þessu máli, og þá væntanlega þar eftir á öðrum sviðum.

Séu tölur hagstofunnar teknar og hornar saman, sést, að skuldirnar við útlönd hafa ekki aukizt nema um 6,6 millj., sem svarar til Sogslánsins eins.

Hv. þm. minntist á verzlunarjöfnuðinn og duldu greiðslurnar og kvað þar hafa komið fram ósamræmi hjá mér. Þegar þetta mál var fyrst rætt hér á Alþingi 1934, studdist ég við niðurstöður sænska hagfræðingsins Lundbergs, og hefir reynslan sýnt, að þær hafa staðizt. Það er rétt hjá hv. þm., að ég áætlaði duldar greiðslur ásamt afborgunum af föstum lánum ekki undir 12 millj., en í tölu sænska hagfræðingsins voru ekki allar afborganir teknar með.

Síðan 1934 hafa afborganir hækkað um eina millj. kr. Það segir hv. þm., að sé sönnun fyrir því, að skuldirnar hafi hækkað. Þetta stafar af því, að afborganir voru ekki hafnar af lánum, sem áður höfðu verið tekin, en höfðu verið afborganalaus fyrstu árin, og þar að auki voru tekin ný lán. Þetta hefir oft verið skýrt áður, bæði hér á Alþingi og í riti, svo ekki hefði átt að þurfa að gefa þessa skýringu. Annars er ekki að furða, þótt hv. þm. verði þungorður um þessar tölur, þegar þess er gætt, að formaður flokks hans, Bændafl., var í stjórn frá 1933 til 1934 og að viðskilnaður hans var þannig, að það var 1 millj. og 22 þús. kr. minna en ekki neitt til að greiða með duldu greiðslurnar frá 1934. Þá var verzlunarjöfnuðurinn óhagstæður um 4 millj. kr., en er nú hagstæður um 8 millj. kr. Með viðskiptahallann, sem myndaðist 1933–34, höfum við verið að dragast til þessa, og þótt afborganir hafi hækkað, er það ekki af því, að skuldir hafi aukizt.

Hv. þm. A.-Húnv. talaði einnig um tölur á svipaðan hátt, en þó kom hann með eina nýja líkingu um þessi mál, sem ég vil gera að umræðuefni. Hann sagði, að góður viðskiptajöfnuður þyrfti ekki alltaf að sýna, að við værum vel á vegi staddir í viðskiptum almennt, og sæist það af því, sem gerzt hefði í Austur-Húnavatnssýslu, þar sem bændur væru að skera niður búfé sitt. Þetta dæmi verður ekki skilið öðruvísi en svo, að hv. þm. eigi við, að við séum að eyða af okkar höfuðstól, okkar eignum. Ég mótmæli þessu kröftuglega og bendi til þeirra raka, sem þráfaldlega hafa verið færð fram hér á Alþingi og sýnt með tölum, að undanfarin 3 ár hefir verið eytt eins miklu til að koma upp aflstöðvum, auka síldarvinnslu og til annarar atvinnuaukningar og gert var 10 næstu árin á undan. Ég vil benda á, að gjaldeyrisvandræði okkar stafa af því, að við þurfum svo mikið að leggja af fé í ný atvinnufyrirtæki í stað hinna gömlu, sem orðin eru lítils virði, og til að greiða skuldir. Er hinn bætti verzlunarjöfnuður því algerlega ósambærilegur við þann, sem fæst hjá húnvetnskum bændum, sem eru að skera niður fé sitt vegna mæðiveikinnar. Þótt ástandið í verzlun og gjaldeyrismálum sé síður en svo gott, þá á ekki að telja fólki trú um, að verið sé að ganga á höfuðstólinn, — því fer fjarri. Gjaldeyrisvandræðin stafa af því, að við þurfum að eyða stórfé í uppbyggingu og greiðslur af gömlum skuldum. En slíkum greiðslum er ekki hægt að koma fyrir á annan hátt meðan sjávarútvegurinn, aðalframleiðsla útflutningsvaranna, er rekinn með tapi. Stærsta atriðið er að auka útflutninginn enn meir. Því er líklegasta ráðið að hlaupa undir bagga með sjávarútveginum.

Sé ég ekki ástæðu til að fara nánar út í þær ræður, sem hér hafa verið fluttar, enda er tíma mínum lokið.