15.03.1940
Neðri deild: 18. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

41. mál, íþróttasjóður

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Ég hefi ekki getað fylgzt með meðnm. mínum í fjhn. um afgreiðslu þessa máls. Aðalorsakirnar til þess eru teknar fram í nál. mínu á þskj. 111. Þegar íþróttal. voru til umr. á síðasta Alþ., lét ég í ljós þá skoðun, að fljótlega myndi koma í ljós, að þar væri verið að stofna eitt af því, sem fljótlega myndi hlaðast meira utan um, og baka ríkissjóði allmikil aukin útgjöld. Ég býst við, að þess verði ekki langt að bíða, ef það á að koma til framkvæmda, sem ætlazt er til með þessum l., að þá verði býsna mikill kostnaður að því. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, sýnir það og sannar, að umsagnir þeirra manna, er héldu því fram, að þetta myndi hafa mjög lítinn kostnað í för með sér, hafa við næsta lítið að styðjast. Nú hefir verið ákveðin fjárveiting til íþróttasjóðs 30 þús. kr., og hefir sú upphæð verið tekin inn á fjárl. fyrir árið 1941. En samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, er ætlazt til, að stofnaður verði íþróttasjóður og til hans renni hluti af tekjum ríkisins. Það, sem farið er fram á með þessu frv., er bókstaflega ekkert annað en það, að taka um 100 þús. kr. af þeim tekjum, sem ríkið fær af einkasölu á áfengi og tóbaki. Ríkið hefir það á sínu valdi, hve hátt verðið er á þessum vörum. Ég tel, að menn geti látið það liggja milli hluta hvað þessar vörur eru seldar dýrt, því það hefir hæstv. ríkisstj. og Alþ. á sínu valdi á hverjum tíma, og á að haga því eins og talið er hagkvæmt til að fá sem mestar tekjur af þessum vörum, án þess að gera meira en gert hefir verið til þess að takmarka eyðslu á þeim. En sem sagt, við getum látið það liggja alveg milli hluta í þessu sambandi, hve hátt verðið er á áfengi og tóbaki, því að aðalatriðið er, hvort Alþ. á að samþ., að gengið verði inn á þá braut, að taka á þennan hátt nokkurn hluta af tekjum ríkisins og leggja þá upphæð í sérstakan sjóð, sem varið verði til íþróttamála. Ég tel, að það eigi aldrei að eiga sér stað að samþ. að verja þannig hluta af þeim tekjum, sem ríkið á að fá, heldur eigi allar greiðslur, bæði til íþróttamála og annarar starfsemi, að koma beint úr ríkissjóði. Hitt er allt annað mál, hvað Alþ. sér sér fært að verja miklu fé til þeirra nauðsynjamála, bæði íþrótta og annars, sem fólkið óskar eftir að fá peninga til. Það er þetta, sem gerir það að verkum, að ég get með engu móti fallizt á að taka þær greiðslur, sem um ræðir í 1. gr. frv., á þann hátt, sem þar er gert ráð fyrir. Ef hæstv. ríkisstj. vill hækka framlag til íþróttamála, verður að sjálfsögðu að taka það inn í fjárlögin. En ef á að fara inn á þá braut, að samþ. að greiða fé á þann hátt sem lagt er til í þessu frv., getur það haldið áfram endalaust. Bæði mér og líklega flestum sveitamönnum myndi þykja mjög aðgengilegt að bera fram frv. um að hækka verð á áfengi og tóbaki og verja því fé, er þannig fengist, til bygginga í sveitum eða annara umbóta, sem þar getur verið um að ræða. Það hefir komið fram till. um það frá hv. 3. landsk. (StSt), að þessu gjaldi verði sérstaklega varið til að styrkja bændur til kaupa á erlendum áburði, og deilurnar um, til hvers eigi að verja þessu fé, geta þannig haldið áfram endalaust, ef þm. vilja ganga inn á þá braut að hluta niður tekjur ríkisins á þennan hátt.

Ég þarf nú ekki að fara fleiri orðum um þetta frv., og skal ekki fara neitt út í það, hve mikil nauðsyn sé á auknum fjárframlögum til íþróttamála; það getum við látið liggja alveg milli hluta í þessu sambandi.