15.03.1940
Neðri deild: 18. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

41. mál, íþróttasjóður

*Frsm. annars minni hl. (Stefán Stefánsson):

Í nál. á þskj. 130 hefi ég gert grein fyrir afstöðu minni í þessu máli. Ég get að mestu leyti vísað til þess.

Allt frá því að l. um tilbúinn áburð voru samþ. hér á Alþ. árið 1928 hafa bændur landsins notið allverulegs styrks til áburðarkaupa, fram til ársins 1939. Það mun láta nærri, að þessi styrkur hafi numið 40–50 þús. kr. á ári. Árið 1930 var styrkurinn hæstur, 117 þús. kr. Enginn mun draga í efa, að til þess að auka ræktun hér á landi, sem talin er þörf á, og líka til að viðhalda þeirri ræktun, sem fyrir er, sé nauðsynlegt að nota erlendan áburð. En fjárhagsástæður bænda eru þannig, að þær hafa jafnvel aldrei verið erfiðari en nú, og nú hafa bæði hæstv. forsrh. og hv. þm. Borgf. lýst yfir því, að framleiðsluvörur bænda myndu ekki hækka að neinu ráði frá því, sem verið hefir, en þeir þurfa að mæta hinni auknu dýrtíð eins og aðrir landsmenn, því að auk allra lífsnauðsynja, bæði til búsþarfa og annara þarfa, þurfa þeir einnig að kaupa erlendan áburð. Ég tel því, að það sé mjög brýn nauðsyn, og nú fremur en nokkru sinni áður, að gera bændum kleift að kaupa erlendan áburð.

Á síðasta þingi báru hv. þm. Mýr. (BÁ) og hv. 8. landsk. (EE) fram till. um að taka upp á fjárl. 100 þús. kr. fjárveitingu til að styrkja bændur til áburðarkaupa, og 70 þús. kr. fjárveitingu til vara. Þessar till. voru báðar felldar, og ég tel sennilegt, að frv. um slíkt myndi ekki verða samþ. hér á Alþ. nú. Það hefir áður verið farið inn þá braut, sem ég geri ráð fyrir í nál. mínu. Svo mikið sem talað er um að efla framleiðsluna, þá mætti virðast, að ekki færi illa á því, að það fé, sem verja á samkv. 1. gr. þessa frv. til íþrótta, gangi einkum til þess að styrkja bændur til áburðarkaupa.

Ég vil benda á það, að íþróttasjóðnum verða tryggðar 30 þús. kr. á fjárl. fyrir árið 1941, og ennfremur að samkv. 2. gr. frv. er gert ráð fyrir veðmálastarfsemi, og samkv. ummælum hv. 1. þm. Skagf. munu þær tekjur verða a. m. k. 20 þús. kr. á ári, og samkv. þessu verða íþróttasjóðnum tryggðar 50 þús. kr. árlega. Ég verð því að álíta, að til að byrja með sé mjög sæmilega séð fyrir fjárveitingu til íþróttastarfsemi, þó að sjálfsögðu mætti koma þar meira fé í lög. En ég álít, að það, sem Alþ. beri að gera, sé að styrkja framleiðslustarfsemina og láta annað sitja á hakanum, sem ekki er eins brýn þörf á. Ég vil því eindregið mælast til þess, að þetta ákvæði verði samþ.