15.03.1940
Neðri deild: 18. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

41. mál, íþróttasjóður

*Pálmi Hannesson:

Herra forseti! Það er ánægjulegt að heyra samhljóða raddir þeirra hv. þm., sem til máls hafa tekið um það, hvað íþróttir séu æskilegar og nauðsynlegar, en ég vil leyfa mér að benda þessum hv. þm. á, að ég er ekki viss um, að þeir hafi gert sér fyllilega ljóst, hvað þörfin er mikil víðsvegar um landið, til þess að skilyrðin til íþróttaiðkana geti talizt sæmileg.

Samkv. íþróttal. fellur undir verksvið íþróttasjóðs öll íþróttastarfsemi í skólum landsins, og þar með talin leikfimi. Við svo að segja alla skóla er aðbúnaður um íþróttastarfsemi miklu lélegri heldur en í raun og veru sæmilegt er. Fólkið er að reyna að halda henni uppi í örðugri baráttu við léleg skilyrði og harðan, óbeinan andróður frá margháttaðri starfsemi, sem dregur niður og burt frá því að neyta sinna eigin krafta.

Því hefir verið haldið fram af hv. þm. A.-Húnv., að með þessu frv. væri verið að seilast eftir tekjum ríkissjóðs, þar sem ríkissjóður ætti, eins og hann orðaði það, að ákveða verð á þessum vörum samkv. hagsmunum ríkissjóðs. Þessi skilningur er alveg nýr fyrir mér. Ég hefi litið svo á, að ríkið viðurkenndi ekki áfengi og tóbak sem tekjulindir, heldur væri verðið sett svona hátt til að hindra neyzluna. Ég held, að sá skilningur hafi yfirleitt verið hafður á oddinum, a. m. k. í þann mund, sem verið var að afnema bannlögin. Þá var talað um að setja hátt verð á áfengi, til þess að draga úr neyzlunni. Þetta sögðu þeir, sem vildu fá áfengisflóðið inn í landið. En þeir eiga eftir að sýna, hvað þeir vilja gera til þess að fyrirbyggja það, að áfengið verði þjóðinni til skaða og skammar. Þeirra hlutur liggur enn eftir.

Ég vil fullyrða, að öflugasta starfsemin til þess að vinna á móti áfengis- og tóbaksneyzlu í landinu er íþróttastarfsemin. Ég geri ráð fyrir, að þeir hv. þm., sem hér hafa talað á móti 1. gr. frv., geri það þó af heilum hug að telja íþróttir nauðsynlegar, og þá fyrst og fremst vegna þess. að þeir telja, að þær vinni á móti skaðsemi nautna, auk þess sem þær styrkja líkamann og gera menn betur hæfa til vinnu.

Það var horfið að því ráði af nefndinni, sem undirbjó frv. til íþróttal., að afla tekna til íþróttastarfsemi með því að leggja aukaskatt á áfengi og tóbak með hliðsjón af því, að verðið á þessum vörum væri haft svo hátt, að það drægi úr neyzlunni, svo menn hlypu ekki með hvern eyri til þess að kaupa áfengi eða tóbak fyrir. Á sama hátt hefir verið staðið á móti því á Alþ., þegar talað hefir verið um bruggun á áfengu öli, þar sem landsmönnum gæfist kostur á ódýru áfengi, sem yrði þjóðinni til skaða. Áfengi og tóbak virðist því einmitt vera vel fallið sem tekjustofn fyrir slíka menningarstarfsemi sem hér er um að ræða.

Hv. þm. A.-Húnv. talaði um það — og fer líka um það allmörgum orðum í nál. — að það sé ekki góður háttur að taka tekjur frá ríkissjóði á þennan hátt eða fá skatta til sérstakrar starfsemi framhjá ríkissjóði. Hv. frsm. meiri hl. hefir svarað þessu að nokkru leyti. Ég vil benda á, að fyrir utan menningarsjóð og þjóðleikhúsið má nefna háskólann. Hann er byggður fyrir fé, sem aflað er með happdrætti, sem ríkið gæti vel rekið til ágóða fyrir ríkissjóð. Það eru allskonar fjársafnanir, sem eiga sér stað fyrir utan ríkissjóðinn. Þær eru gerðar með frjálsum samskotum, en svo er stundum komið inn á Alþ. með styrkbeiðni í áframhaldi af því, sem safnazt hefir með frjálsum samskotum.

Mér virðist einmitt, og hæstv. forsrh. tók það fram, að það sé eðlilegt, að það sé tekið nokkuð af andvirði tóbaks og áfengis og notað til þess að vinna á móti sjálfu sér.

Hv. 3. landsk. getur vel hugsað sér að halda ákvæðum 1. gr. að öðru leyti en því, að tekjurnar renni til íþróttasjóðs, heldur til kaupa á erlendum áburði. Þetta er í rauninni að verpa gaukseggi í hreiður og ætlast til, að annar ungi því út. Hv. þm. virðist fyrst hafa fundið til áburðarþarfarinnar, þegar á að fara að afla tekna til annars.

Hv. þm. gat þess, að ég hefði látið orð falla um það, að það myndu verða upp undir 20 þús. kr., sem fengjust samkv. 2. gr. frv. Ég sagði það ekki, en ég sagði, að ég gæti hugsað mér, að 20 þús. kr. yrðu hámarkið, sem fengist eftir allmörg ár. Ég geri ráð fyrir, að fyrstu árin verði það kannske svo að segja ekki neitt. Ég hefi lagt áherzlu á, að veðmálastarfsemin leiddi athyglina að íþróttunum og væri óbein auglýsingastarfsemi fyrir íþróttir og íþróttastarfsemi.

Bæði hv. þm. A.-Húnv. og hv. 3. landsk. ræddu um það, að eftir brtt. fjvn. væri í fjárlfrv. gert ráð fyrir 30 þús. kr. til íþróttasjóðs, sem yrði þá til ráðstöfunar ásamt því, sem kæmi samkv. 1. eða 2. gr., eða báðum gr., ef frv. yrði að l. Ég hefi nú litið þannig á frá upphafi, að ef íþróttasjóður fengi tekjustofn svipaðan því, sem frv. gerir ráð fyrir, þá falli niður bein fjárframlög frá ríkissjóði, bæði þessar 30 þús. kr. og einnig nokkur önnur fjárframlög til íþróttamála, sem eru á fjárl. Ég ber hvorki vantraust til fjvn. né til hv. þm. um það að kippa burtu þessum 30 þús. kr., ef frv. verður að l., áður en fjárl. eru afgr. frá þinginu.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta meir. Ég vænti þess aðeins, að hv. d. samþ. frv. eins og það liggur fyrir.