18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

41. mál, íþróttasjóður

*Frsm. annars minni hl. (Stefán Stefánsson):

Herra forseti! Hæstv. forsrh. og hv. 2. þm. Skagf. hafa látið falla eftirtektarverð orð um það hér í deildinni, hverja þörf þeir teldu á að styrkja bændur til að nota sér tilbúinn áburð. Þrátt fyrir þá erfiðleika, sem á því eru nú, má segja, að nauðsynin hafi aldrei verið meiri. Ég vænti þess, að brtt. sú, sem ég hefi gert á þskj. 130, verði til að koma enn hreyfingu á það mál. Það hefir verið að henni fundið, að þetta væri undarlegt form. Það má vera, en ég vil framfylgja málinu í því formi, sem líklegt er, að beri nokkurn árangur, — málefnið sjálft er mér aðalatriði. Ég rakti það síðast, hversu farið hefir um styrk til áburðarkaupa og flutnings, síðan lögin voru sett um þau efni árið 1928. Hafa framlög til þess numið 30—50 þús. kr. árlega og eitt árið 117 þús. Nú var þetta skorið alveg niður fyrir árið 1940. En ummæli þeirra tveggja manna, sem ég nefndi og hafa manna bezta aðstöðu til að vita, sem landbrh. og búnaðarmálastjóri, hverjar afleiðingar þess verða, ættu að ýta við mönnum til umhugsunar um, hvort þeir geti varið það fyrir sjálfum sér að svipta ræktunina í landinu þessari lofuðu aðstoð einmitt nú. Hv. þm. Mýr. og hv. 8. landsk. fluttu á síðasta þingi brtt. við fjárl. um 100 þús. kr. framlag til þessa, en hún var felld, svo að ég sá ekki til neins að fara sömu leið. Þess vegna tók ég það úrræði, sem fram kemur á þskj. 130.

Mér dettur ekki í hug að draga úr því, sem sagt hefir verið um gildi íþróttanna, og hefði þörfin um áburðarkaupin ekki verið svo brýn sem hún er, mundi ég jafnvel hafa greitt atkv. með frv. eins og það er. En skyldi ekki þessi tröllatrú sumra manna á það, að íþróttirnar bjargi öllu, einungis ef þetta frv. nái fram óbreytt, vera komin út í öfgar? Hjá hv. 1. þm. Skagf. gengur það svo langt, að með þessu ætlar hann að færa líf unga fólksins upp á hærra svið. Gott ef svo yrði. Hæstv. forsrh. fannst íþróttamenn vera þeir einu, sem starfhæfir væru, eða a. m. k. þeir starfhæfustu í landinu. Hann virðist telja alveg sjálfsagt, að íþróttir og bindindissemi fylgist að, en ég hefi aldrei heyrt mikið af því látið, að íþróttamenn væru meiri reglumenn en aðrir á því sviði né öðrum. Skemmtanir þeirra hér í bænum bera því ekki vitni, en annað mál, að æskilegt er, að svo væri. Ráðh. talaði um, hve mjög þetta mundi efla þroska æskunnar. Já, eflaust, en geta íþróttir komið í stað atvinnu fyrir vaxandi æsku? Er það ekki framleiðslan, sem verður að ganga fyrir? Á henni byggjast þroskamöguleikar þjóðarinnar öllu öðru fremur. Nú virðast þing og stjórn vera farin að horfa inn á nýja leið í þeim efnum. Að tilhlutun hæstv. forsrh. var borið fram frv. um vinnuskóla og samþ. hér. Ég teldi rétt að halda áfram á þeirri leið og að vinnuskylda, ásamt íþróttaiðkun í sambandi við hana, gæti haft miklu meiri þýðingu en þetta frv. fyrir alhliða þroska æskunnar, til að kenna mönnum stjórnsemi, hlýðni og stundvísi og gera þá starfhæfa. Ég vildi nú skjóta því fram, hvort ekki ætti að taka árið 1943 að tilefni, þegar 40 ár eru liðin síðan Hermann Jónasson bar fram á Alþingi till. sína um þegnskylduvinnu, og hrinda henni þá í fulla framkvæmd.

Nokkrir hv. þm. og „bændavinir“ hafa beint því til mín, að ég ætti að fallast á frv. eins og það er móti því, að af þeim 30 þús., sem búið er að setja á fjárl. til íþróttasjóðs, yrði veittur einhver stuðningur til áburðarkaupa. Ég þakka heilræðin, en vil ekki skipta á 100 þús. og 30 þús. eða einhverju af 30 þús. Annars vil ég gjarnan tala um þessi mál við hv. þm. V.-Ísf. og hverja þá lausn, sem hann getur samþykkt.

Hv. 2. þm. lézt vera hneykslaður yfir því, að ég vildi afla fjár til ræktunar með einskonar happdrætti. Ég skil hann ekki. Er þetta af því, að hann telji ræktunina svo miklu minna virði en íþróttirnar, að þær megi fremur við því að hagnast á svo óvirðulegri fjáröflun? — Þá sá hann ekkert því til fyrirstöðu, að sveitir hefðu jafnmikið gagn af íþróttafénu og kaupstaðir, og hæstv. ráðh. færði flóttann úr sveitunum sem röksemd fyrir málinu. En það vita flestir, að í sveitum stæla menn sig á vinnu og eru of þreyttir til íþróttaiðkana þann tíma árs, sem þær eru stundaður mest. Þeir fáu menn, sem þar vilja stunda íþróttir, geta a. m. k. ekki haft veruleg not af þessu, geta ekki fórnað tíma sínum til þess, en það gæti verið, að eitt með öðru yrði íþróttalíf kaupstaðanna til þess að draga þá til sín úr sveitunum, auka flóttann á mölina. — Vilji hv. þm. gera sitt til að stöðva hann, er þeim betra að samþ. brtt. mína, og vilji þeir finna bjargráð fyrir þá mörgu, sem þegar eru fluttir úr sveitunum og skortir viðfangsefni, þarf að grípa til róttækari ráða.