18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

41. mál, íþróttasjóður

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Ég vildi svara fáeinum atriðum í ræðum hv. þm. Mér þykir leiðinlegt, að hv. 2. þm. Árn. er ekki viðstaddur. En þar sem það er hans sök, en ekki mín, að hann skuli vanta, skal ég ekki setja það fyrir mig. Hann bar það fram, að ég hefði verið óskilorður í garð fjvn. í sambandi við það, er hún tók upp 30 þús. kr. fjárveitinguna til íþróttasjóðs. Það er tómur misskilningur, því að ég hafði engin orð í sambandi við þetta.

Hv. 2. þm. Árn. hélt því fram, að ég hefði farið hér skakkt með tölur. Ég veit ekki betur en aðeins tvær upphæðir hafi verið felldar niður af fjárlfrv. móti 30 þús. kr. framlagi til íþróttasjóðs, en þær voru 8 þús. kr. til Í. S. Í. og 6 þús. kr. til íþróttafélaga, eða samtals 14 þús. kr. Það er því algerlega rangt hjá hv. 2. þm. Árn., að ég hafi farið hér rangt með, þegar ég sagði hér hækkað um 16 þús. kr. Hitt er aftur rétt hjá hv. þm., að upphæð sú, sem varið er til íþróttasjóðsins, er ofurlítið lægri en veitt var til íþróttamála á fjárl. yfirstandandi árs. Þessi lækkun er gerð með tilliti til þess, að ýmsar framkvæmdir, svo sem sundlaugabyggingar, hafa þurft meira fjárframlag á þessu ári en nauðsynlegt var nú, þegar þessi fyrirtæki höfðu ekki áframhaldandi útgjöld í för með sér.

Þá vil ég segja nokkur orð í tilefni af ræðu hv. 1. þm. Skagf. Hann vék nokkuð að því sama sem hv. 2. þm. Árn. talaði um í kvöld. Hann minntist á það, að með því að andmæla þessu frv. hefði ég ekki gengið hreint til verks. Þetta er rangt. Ég geng beint til verks, þó að ég vilji ekki skipta tekjum ríkisins, heldur ákveða með fjárl., hversu miklu fé skuli verja til þessa eða hins. Þessi sami hv. þm. kom með fleiri ásakanir í minn garð. M. a. hélt hann því fram, að það, sem ég og hv. 2. þm. Skagf. hefðum talað um nauðsyn og gildi íþrótta, væri ekkert annað en fagurgali, sem enginn skilningur stæði á bak við. Slíkar ásakanir eru hrein ósvífni, sem ekki hafa við neitt að styðjast. Ég viðurkenni fyllilega þýðingu íþróttanna fyrir vöxt og viðgang þjóðarinnar, þó að ég vilji láta ákveða á fjárl. hvers árs framlag ríkissjóðs til þessara mála. Hér er um að ræða tvær óskyldar hliðar á málinu. Það kemur fram í þessum ásökunum hv. þm. eins og oft endranær, að hér á Alþ. er leikinn loddaraleikur. Það eru borin fram frv. og till. um framlög ríkisins til ýmissa mála, og jafnframt um aukna skatta á þegnana. Ef einhver hreyfir mótmælum gegn þessu atferli, er honum borin á brýn óvild til þess nauðsynjamáls, sem um er að ræða, vegna þess að hann vill ekki láta taka af tekjum ríkisins. Slík dæmi eru þekkt úr pólitískri starfsemi síðustu ára, og eru alltaf jafnógeðsleg.

Hv. þm. var að vefengja, að það væri á nokkrum rökum byggt frá minni hálfu, að þessar till. verkuðu öfugt á alla bindindisstarfsemi. En samkv. till. verður niðurstaðan þannig, að því meira sem eytt er í tóbak og áfengi, því meira fé fer til íþróttastarfsemi.

Þá sagði þessi sami hv. þm., að ég vildi láta íþróttamenn hafa svipaða aðstöðu og útigangshesta í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Ég ætla að svara þessu með nokkrum orðum, þar sem ég tel þetta atriði athyglisvert í sambandi við íþróttastarfsemina. Eins og ég tók fram hér í kvöld og fleiri hafa líka viðurkennt, þá eru á þessu sviði engir menn virðingarverðari en þeir, sem stofnað hafa og starfa við íþróttafélög, enda er þessum mönnum að þakka efling íþróttanna í landinu. Þeir hafa unnið í þágu þjóðarinnar án borgunar frá því opinbera, og höfðu það eitt fyrir takmark, að hugsjón þeirra yrði að veruleika. En ef nú á að fara inn á þá braut að launa íþróttafrömuðina af hálfu ríkisins, þá eru þeir ekki lengur virðingarverðir fyrir starf sitt, heldur launþegar, sem fá peninga fyrir hvert handtak. Okkur er kunnugt um þá staðreynd, að þeir menn, sem sjálfir berjast fyrir hugsjónum án launa, vinna af lífi og sál að umbótum í sínu starfi, en fari svo ríkið að launa þá, dregur úr viðleitni þeirra.

Hv. 1. þm. Skagf. hélt því fram, að ný kenning frá minni hálfu væri, að tekjur af sölu áfengis og tóbaks væru tekjur ríkisins og ættu að vera það. En hv. þm. hlýtur að vita, að frá minni hálfu er þarna aðeins bent á staðreynd, sem engar vitlausar vífilengjur duga til að vefengja. Verðið er á valdi ríkisstj., og nú í stríðinu er minni hætta en ella að hafa það hátt. Annars er afleiðingin sú, að því hærra verð sem er á tóbaki og áfengi, því meiri freisting er venjulega að smygla þeim vörum inn.

Þá minntist hv. þm. á það, að ég hefði verið að spá því í vetur í sambandi við íþróttal., að útgjöld ríkisins þeirra vegna myndu verða mikil í framtíðinni. Þetta var ekki mikill spádómur, heldur vissa, sem byggðist á reynslu á ýmsum sviðum. Þá er það nú svo, að mér finnst óþarfa kostnaður og fyrirhöfn að setja þessi stimpilmerki á hverja flösku, og gæti verið tilefni til þess, að koma fleiri mönnum að þeirri stofnun, sem um er að ræða. Enda væri auðvelt fyrir ríkisstj. að fara beinustu leið og hækka vöruna um þá upphæð, sem svaraði verði stimpilmerkjanna.

Þá vil ég enn minnast á eitt atriði í ræðu hv. 1. þm. Skagf. Hann hélt því fram, að það sýndi ósamræmi af minni hálfu, að vilja afla íþróttasjóði tekna með veðmálastarfsemi. En hv. þm. virðist ekki skilja það, sem ég á við. Veðmálastarfsemi er nú sem stendur ekki neinn tekjustofn fyrir ríkissjóð. Þess vegna yrði þetta nýr tekjustofn, sem bundinn væri við íþróttastarfið. Ég sé ekkert athugavert við það, þó að þessi félög fengju að njóta veðmálanna, sem yrðu nokkurskonar ávöxtur af þeirra starfi. Hér er um allt annað að ræða en fara að hluta sundur tekjur ríkissjóðs, og fullkomið samræmi frá minni hálfu. Hvort réttlátt sé að verja 100 þús. kr. til íþrótta á hverju ári, sem verður, ef frv. nær samþykki, er frá mínu sjónarmiði meira en efamál. En ég lít svo á, að hér komi bersýnilega í ljós hugsunarháttur þeirra, sem ráða fjármálunum hér á Alþ., sá, að athuga ekkert hvað fært er að greiða til umbótamála, og sýna mjög sljóan skilning á því, til hvers er nauðsynlegast að verja fé.