18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

41. mál, íþróttasjóður

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Út af ræðu hv. þm. Borgf. verð ég að segja það, að mér þykir leiðinlegt að þurfa að segja, að bæði þessi vinur minn, sem er formaður fjvn., og eins hv. frsm. n. virðast hvorugur vita, hvað var samþykkt hér við 2. umr. fjárl. eftir tillögum frá þeim. Það er alveg glöggt, að þessi upphæð, sem hv. síðasti ræðumaður talaði um, 12700 kr., er ekki felld niður af frv. Ég hefi borið þetta undir skrifstofustjóra þingsins, svo það, sem ég flyt fram um þetta efni, er alveg rétt. Ég efast ekki um, að það sé rétt hjá hv. formanni n., að n. hefir samþ. það, sem hann talaði um, en hún hefir ekki borið það enn fram í þinginu, að fella þessa liði niður.

Í sambandi við það, sem hv. þm. Borgf. tók fram áðan snertandi þessar 18 þús. kr. til sundlaugabygginga, þá vil ég geta þess, að þær voru teknar á fjárl. á síðasta þingi, en það var ekki ætlazt til þess, að þar væri um áframhaldandi greiðslu á fjárl. að ræða.

viðvíkjandi því, sem hv. þm. var að tala um, að með því að samþ. þetta frv. með þeim greiðslum til íþróttamála, sem þar er gert ráð fyrir, væri ekki hlutfallslega meira veitt til þessara mála en áður, þá fæ ég ekki komið því saman við þær tölur, sem hingað til hafa staðið á fjárl., jafnvel þó því sé bætt við, sem á landsreikningi hefir staðið og greitt hefir verið umfram fjárl.

Að öðru leyti ætla ég ekki að gera aths. út af ræðu hv. síðasta ræðumanns. Ég sé ekki heldur ástæðu til að fara inn á að svara nokkrum atriðum í ræðu hæstv. forsrh., sem kannske væri ástæða til að svara.