18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

41. mál, íþróttasjóður

*Pálmi Hannesson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að taka fram örfá atriði í tilefni þess, sem komið hefir fram í kvöld.

Hv. 3. landsk. lét þess getið, að ég og aðrir, sem talað hafa með þessu frv., hefðum tröllatrú á gildi íþrótta, sem hann taldi vera oftrú. Hann sagði, að ég hefði haldið því fram við 1. umr., að ég teldi, að menningarbylting geti stafað af íþróttastarfseminni. Ég sagði það nú ekki beinlinis, heldur að mikil menningarbylting hefði orðið hér á landi á meðan síðasti ófriður stóð, svo að líf manna hefði gerbreytzt frá því, sem áður var, en til þess að vega upp á móti ýmsum þeim ófagnaði, sem siglt hefði inn í landið frá útlöndum, þá væri íþróttastarfsemi eitt bezta ráðið. Ég skal taka það fram, að það er almennt álit, að á þeim tíma, sem Íslendingar stóðu sem þjóð með mestum blóma, þá væru þeir um leið hin mesta íþróttaþjóð. Ég vil líka benda á, að þær þjóðir, sem taldar eru tápmestar þjóðir nú á dögum, eru um leið mestar íþróttaþjóðir.

Hv. 3. landsk. sagði, að íþróttirnar kæmu ekki að haldi í sveitunum. Þessi skoðun fer ekki saman við reynsluna, því það er kunnugt, að margir hinir dugmestu íþróttamenn koma frá hinum vinnandi stéttum, einkum úr sveit. Og þrátt fyrir það, sem hv. þm. sagði, þá er ekki því að neita, að víða um landið eru betri skilyrði til íþróttaiðkana einmitt í sveitum heldur en í kaupstöðum, og bændasynirnir hafa í raun og veru betri aðstöðu til að koma sér við í íþróttum, því þeir eru jafnan í allmikilli æfingu, en íþróttir eru nauðsynlegar þeim til að vinna á móti ýmiskonar kýtingi í líkamsvexti, sem einhliða vinna kallar fram, auk þess sem þeir eiga rétt á að fá að iðka íþróttir sér til gagns og gamans.

Ég vil í þessu sambandi geta þess, að svo að segja eina gagnlega bókin, sem komið hefir út um íþróttir, „Mín aðferð“ eftir Müller, hefir af mörgum sveitaunglingum verið notuð þeim til mikils gagns.

Hv. þm. A.-Húnv. vildi ekki fallast á, að það væri ósamræmi í því, þó hann annarsvegar teldi óréttlátt að taka nokkurn hluta af tekjum ríkissjóðs, eins og hann vildi kalla það, samkv. 1. gr., en vildi hinsvegar heimila veðmálastarfsemi samkv. 2. gr., því hún væri nýr tekjustofn. En þar er um heimild að ræða, sem ríkið gæti auðvitað notað sjálft. Ég vil líka benda hv. þm. á það, að nýir tekjustofnar verða gamlir, þegar búið er að nota þá nokkurn tíma.

Hér er í raun og veru um það að ræða, hvað mikla áherzlu við viljum leggja á þessa starfsemi. Ef við treystum því, að íþróttastarfsemin geti orðið til þess að auka dug unga fólksins í landinu, þá er ég ekki í vafa um, að slíkur maður sem hv. þm. A.-Húnv. mun ekki skoða huga sinn um það, að þá sé sjálfsagt að verja allmiklu fé til slíkra hluta. Ég efast ekki heldur um, að hv. 3. landsk. vill heldur verja verulegu fé til íþróttastarfsemi en til þess að kaupa útlendan skít til landsins, ef hann á um það tvennt að velja. Ég skal ekki neita því, að áburður er mikils virði fyrir landbúnaðinn. Ég skal ekki heldur neita því, sem hv. samþm. minn sagði, að það væri skemmtilegt og þýðingarmikið að láta vaxa stórar kartöflur og kálhöfuð, en ef ég á um það tvennt að velja að sjá þróttmikil mannshöfuð eða falleg kálhöfuð, þá er ég ekki í vafa um, hvort ég myndi velja.

Hv. þm. A-Húnv. sagði, að undirstaða fjármálanna væri framleiðslan. Er það nú víst? Skyldi það ekki frekar vera dugur þegnanna sjálfra, og þá ekki sízt þeirra, sem til koma, þegar okkur þrýtur, sem nú stöndum að framleiðslunni?