18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

41. mál, íþróttasjóður

*Frsm. annars minni hl. (Stefán Stefánsson):

Ég skal ekki verða langorður. — Hv. þm. Borgf. dróttaði því að mér í sinni ræðu, að þessi brtt. mín við frv. væri ekki borin fram vegna þess, að ég hefði nokkurn áhuga fyrir bændastéttinni eða ræktun landsins. Ég vil þá spyrja hv. þm. Borgf. að því, hvort hann hafi ástæðu til að væna mig um, að ég hafi ekki áhuga fyrir bændastétt landsins og ræktun þess. Ég þykist hafa sýnt það, að ég ber meiri áhuga fyrir bændastéttinni en öðrum stéttum landsins. Finnst mér þetta ónotalega mælt og ómaklega af hv. þm., að ég vilji með þessu koma þessu máli fyrir kattarnef, og beri þessa till. fram þess vegna. Ég tel og illa farið með fé að kasta 1–2 hundr. þús. kr. til íþróttastarfseminnar einnar, þegar á svo mörgum sviðum er þörf á fjárframlögum, m. a. á því sviði, að styrkja áburðarkaup í landinu. Ég held fast við það. Og ég tel, að íþróttasjóðurinn megi vera fullsæmdur af því að fá 50 þús. kr. til sinnar starfsemi og megi vel við una, á meðan það ástand ríkir, sem nú er, og svo mikil þörf að hjálpa svo mörgum og verður að teljast meiri heldur en að veita fé til íþróttastarfseminnar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að tala um þetta frekar, sem hér hefir komið fram; það hefir ekki sérstaklega að mér snúið.

Ég vil vænta þess, að þar sem hæstv. landbrh. telur tormerki á að samþ. mína brtt., en telur samt nauðsynlegt að styrkja áburðarkaup í landinu, og þar sem formaður Búnaðarfélags Íslands og einnig búnaðarmálastjóri telja það líka nauðsynlegt, þá hafi þessir góðu menn samtök um það, og þá sérstaklega landbrh., að koma því til leiðar, að bændur og framleiðendur í landinu verði styrktir til þess að kaupa áburð fyrir ekki minni upphæð en tiltekið er í minni brtt.

Hv. þm. Mýr. sagði í fyrra, að árið 1938–39 hefði verð hækkað á erlendum áburði um 15%, en á þessu ári er gert ráð fyrir 50% hækkun frá því, sem var síðastl. ár.

Hér var lagt fram álit frá bændafundum á Austurlandi, í vopnafirði og Borgarfirði, þar sem hefir verið samþ. með öllum greiddum atkv. á fjölsóttum bændafundum að skora á Alþ. að veita fé til rekstrar áburðareinkasölunnar, og ennfremur að veita fé til styrktar kaupum á erlendum áburði þetta ár, til þess að lækka það háa verð, sem mun verða á honum. — Ég vil endurtaka það, að ég vænti þess, að þar sem hæstv. ráðh. hefir séð ástæðu til að mótmæla brtt. minni, verði hann jafnframt við þeirri ósk, sem ég og aðrir bændur þessa lands berum fram um styrkinn til þessara áburðarkaupa.