29.03.1940
Neðri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

41. mál, íþróttasjóður

Thor Thors:

Engum blandast hugur um það, að nauðsyn er á að afla íþróttasjóði tekjustofna, vissra árlegra tekna. Ég lét þá skoðun í ljós við 2. umr., að tekjuöflunarleið sú, sem flm. frv. vildu fara, væri óheppileg og betra mundi, að ríkissjóður legði fram hið nauðsynlega fé með beinni fjárveitingu. Að vísu gæti ég sætt mig við, að fjmrh. yrði veitt heimild til að hækka tilteknar vörur ríkiseinkasalanna, með það fyrir augum, að hækkunin mætti auknum útgjöldum ríkissjóðs til íþrótta, en til slíkrar heimildar þarf engin lagaákvæði; þetta er hvenær sem er á valdi fjmrh. án þess. Auk þess, hve tekjuöflunarleið frv. var óheppileg af fjármálalvegum ástæðum, þótti mér hún leiðinleg fyrir íþróttamenn, — að vera komin undir notkun þessara nautnavara. Af þessum ástæðum hefi ég leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 207, þar sem ákveðið er, að ríkissjóður leggi til íþróttasjóðs minnst 50 þús. kr. árlega næstu fimm árin. Á fjárlfrv., eins og það er nú, er gert ráð fyrir 30 þús. kr. framlagi úr ríkissjóði til íþróttasjóðs. Hækkun samkv. brtt. minni yrði þá 20 þús. kr. Enda þótt margt sé vitað um erfiðleika á afkomu ríkissjóðs, finnst mér ekki um hærri upphæð að ræða en svo, að við getum allir samþ. hana rólegir fyrir því. Allir, sem um málið hafa talað, hafa sýnt lifandi áhuga fyrir efling íþróttanna og auknum stuðningi við þær, þótt á hafi greint um það, hvernig hjálp hins opinbera yrði bezt veitt. Úr því að Alþingi er búið að fella þá tekjuöflunartill., sem mest var deilt um við 2. umr., þykist ég þess fullviss, að þdm. muni samþ. þessa brtt., sem virðist nú eina færa leiðin til þess að sýna íþróttunum þann stuðningsvilja, sem hér er fyrir.