29.03.1940
Neðri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

41. mál, íþróttasjóður

Thor Thors:

Hv. 1. þm. Skagf. talaði heldur vingjarnlega um þá brtt., sem ég bar fram, og ég vænti þess, að við atkvgr. greiði hann þeirri till. atkv. Ég geri ekki ráð fyrir þeim hringlandahætti hér, að farið verði að samþ. brtt. sama efnis og greinina, sem felld var við 2. umr., og þó í sumu gengið lengra nú en í þeirri gr. (PO: Þá var nú tóbakið líka). Greinin var felld vegna grundvallarstefnu sinnar, sem var hin sama og í brtt. á þskj. 233.

Hv. þm. A.-Húnv. fann það helzt að brtt. minni, að hún væri engu meiri hagsbót fyrir íþróttasjóð en fjárveiting sú, sem tekin hefir verið í fjárlfrv. Það er þessi 20 þús. kr. munur, sem ég sagði, og stundum hefir hv. þm. A.-Húnv. séð minni fjárhæðir. Það þurfti ég ekki að taka fram, að þessi brtt. snertir ekki aðrar fjárveitingar fjárlfrv. en 30 þús. kr. liðinn til íþróttasjóðs, og hefði ekki átt að þurfa að skýra það fyrir þessum hv. þm. — Þá var hann óánægður með að binda fjárveitinguna næstu 5 árin. Það er engin hætta, meðan ekki er lengra farið, og andmæli hv. þm. stafa af því einu, að hann er móti málinu. En hann er meðflm. minn að frv. um raforkuveitusjóð, þar sem framlag ríkissjóðs er bundið 10 ár fram í tímann. Þar rís hann ekki til mótmæla, því máli er hann hlynntur. Ég er hræddur um, að áhugi hans fyrir að styðja íþróttir sé minni en hann lætur í veðri vaka.