29.03.1940
Neðri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

41. mál, íþróttasjóður

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Það er alveg misskilningur, að mér hafi þótt fjárveitingin of lág í brtt. hv. þm. Snæf., og nú gefur hann þær upplýsingar, að framlagið til sjóðsins eigi ekki, eins og frv. gerði ráð fyrir á sínum tíma og raunar enn, að ná yfir allar fjárveitingar ríkisins til íþrótta; umræddar 16300 kr. verði auk þess. Það er náttúrlega hrein afstaða af hans hálfu. Ég ítreka það, að ég get ekki verið með því að binda þessa fjárveitingu um mörg ár fram í tímann. Þar háttar talsvert öðruvísi til en með raforkuveitusjóð. Og því fleiri fjárveitingar sem bundnar eru, því verra. Ég læt mér í léttu rúmi liggja, hvað hv. þm. Snæf. ályktar um íþróttaáhuga minn og sanngirni gagnvart íþróttamönnum. Ég tel það mjög þakkarvert, sem ýmsir einstaklingar hafa unnið að íþróttamálum, og beri Alþingi að sýna viðurkenning þess í verki. En þegar hag ríkissjóðs er svo komið sem er, virðist geta orðið brýnni nauðsyn á auknum framlögum til annars en til íþrótta, og má hver lá mér sem vill, þótt ég dragi ekki dul á það.