29.03.1940
Neðri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

41. mál, íþróttasjóður

Forseti:

(JörB): Hv. þm. A.-Húnv. vék að því í ræðu sinni, hvort brtt. á þskj. 233 myndi geta komið til atkv. að þessu sinni, þar sem áður hefði verið felld í þessari hv. d. till., sem fyrir lá í frvgr. um sama atriði. Frvgr., sem felld var úr upphaflega frv., hljóðaði að vísu að nokkru leyti um sama atriði. Þar var rætt um stimpilmerki, 1½% af áfengi og tóbaki, en þessi till. hljóðar einungis um stimpilmerki af áfengi. Að vísu er þetta hærri fjárhæð en frvgr. fjallaði upphaflega um hvað áfengið snertir, en samt sem áður fjallar þessi brtt. um minni fjárhæð en upphaflega gr. hljóðaði um, og samkv. þeirri venju, sem ríkt hefir hér á Alþingi, þá hefir það ætíð verið látið ráða, þótt um sama atriði væri að ræða, ef fjárhæðin hefir verið minni en sú, sem áður hefir verið búið að fella. Hér stendur einnig öðruvísi á, þar sem ekki er einungis um minni fjárhæð að ræða, heldur er till. líka að öðru leyti önnur en sú, sem upphaflega var í frvgr. Sú venja hefir einnig ríkt í hv. d. að taka frjálslega á slíkum atriðum, þannig að viðhorf manna fengju að njóta sín, og einmitt fyrir þá sök hefi ég ákveðið að bera brtt. á þskj. 233 upp fyrsta af þeim brtt., sem fyrir liggja. Næst kemur til atkv. brtt. hv. þm. Snæf. á þskj. 207. Þessi brtt. á þskj. 233 verður því borin upp til atkvgr.