03.04.1940
Neðri deild: 29. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

79. mál, mæðuveikin

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti! Ég þarf ekki að bæta mörgum orðum við það, sem ég sagði hér í gær um þetta mál.

Hv. þm. V.-Sk. deildi mjög á ráðstafanirnar allar í mæðiveikivörnunum og taldi, að til þeirra hefði verið stofnað með gáleysi og framkvæmdirnar hefðu farið í ólestri, eða eitthvað á þá leið. Ég vil ekki viðurkenna, að til þeirra hafi verið stofnað með gáleysi. Ef um gáleysi er að ræða í þeim efnum, er það helzt, að til þeirra framkvæmda var of seint stofnað. Eftir að veikin hafði náð svo mikilli útbreiðslu, var erfitt að sporna við henni, og hún er komin í fleiri sýslur. Um það, að framkvæmdirnar hafi verið í ólestri, skal ég viðurkenna, að margt hefir misheppnazt og farið illa, eftir að byrjaðar voru varnir, sem stafar af því, að of seint var hafizt handa í þeim efnum. En svo mikið hefir hafizt upp úr þessum ráðstöfunum, að a. m. k. í bili hefir tekizt að hefta útbreiðslu veikinnar um Þjórsá annarsvegar og Héraðsvötn hinsvegar. Nú hefði farið betur, ef hægt hefði verið að stöðva hana á minna svæði en þessu. Þegar til þessara varna var stofnað, var það álitið ekki ranglátt, að þeir menn, sem ættu að njóta varnanna og væri verið að verja hjá féð fyrir veikinni, legðu skatt á sig, sem er aðeins lítill hluti af þeim skatti, sem önnur héruð hafa orðið fyrir vegna veikinnar.

Hv. þm. V.-Sk. hafði ekki rétt eftir mér, að þessu fé „hefði verið“ varið, en ég sagði, að „ef þetta fé hefði innheimzt, hefði því verið varið“ til þessa. Það, sem innheimt er nú, og það, sem innheimtist, á að nota í þessu skyni. Það eru þær einu rökréttu afleiðingar, sem hæstv. Alþ. á að draga af þeirri skýrslu, sem hv. þm. V.-Sk. las hér upp áðan á fundi, að þetta gjald verður að innheimtast, og það verður að láta jafnt yfir alla ganga, en ekki að fella gjaldið niður. Því að þau héruð, sem hv. þm. er sýslumaður í, hafa greitt þetta gjald og sýnt það, að ef röggsamlega er gengið eftir því að innheimta gjaldið, þá er það unnt, og vitanlega er sjálfsagt að ganga eftir því. Ég taldi í gær, að hv. þm. hefði ekki borið fram brtt. sínar af því, að hann vildi fella niður þetta gjald, heldur til þess að vekja eftirtekt á því, hvaða sleifarlag er á innheimtu þess og hve mikil þörf er að bæta úr því. Og það er það, sem þarf að gera, en ekki að fella gjaldið niður. En mér finnst óviðeigandi á þessum tímum, þegar útlit er fyrir, að sauðfjárbúskapurinn í hinum heilbrigðu héruðum, sem hafa ekki orðið fyrir miklum skakkaföllum, gefi góðan arð nú eins og stendur, að þá fari þeir menn, sem tekizt hefir að verja féð hjá fyrir veikinni, fram á það, að létt verði af þeim þessu litla gjaldi, sem þeir samkv. l. eiga að greiða og varið er til þess að verja þeirra héruð fyrir veikinni.

Það er sagt, að fleiri pestir hafi gert vart við sig í sauðfé landsmanna. Það er alveg rétt, en þær hafa ekki aðeins verið í þeim héruðum, sem ekki hafa fengið mæðiveikina, heldur hafa einnig á mæðiveikisvæðunum verið fleiri pestir í sauðfé, sem gert hafa mikið tjón. Svo að það virðist sízt mæla með því að leggja niður þetta gjald.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar, en skal lýsa því hér enn yfir, að landbn. hefir ekki orðið ásátt um, að rétt væri að fella niður þetta gjald. Hinsvegar er hún á einu máli um það, að sú skýrsla, sem hv. þm. V.-Sk. las upp, væri þörf á þessu stigi málsins og eigi að hafa þau áhrif, að gjaldið gangi jafnt yfir alla fjáreigendur á heilbrigðu svæðunum.