12.04.1940
Efri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

79. mál, mæðuveikin

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég get ekki verið með brtt. hv. 1. þm. Eyf., og það af þeirri ástæðu, að ég tel, að hún verði illmöguleg eða ómöguleg í framkvæmd. Ég skal viðurkenna, að hjá einstökum bændum geta ýmsar fjárpestir valdið meira tjóni en t. d. garnaveiki hefir gert. Og þarf ekki fjárpestir til. Þegar örninn tekur 27 lömb frá bónda, sem á 67 ær, er það verra en mæðiveikin. Ef við ættum að taka allt tjón með, yrði þetta erfitt viðfangs. Nú eru margir hreppar, þar sem garnaveikin hefir að vísu komið upp, en ekki gert teljandi usla nema hjá 1–2 mönnum. Þá tel ég það sé mikil spurning, hvort rétt sé, að ráðherra leyfi að fella þar skattinn niður. Við skulum t. d. segja, eins og ég veit, að verið hefir víða á Austurlandi. Þar hefir gengið svo skæð lungnabólga, að sumir bændur hafa misst allt frá 10–35% af sínum ám úr henni. Ætti þetta þá að ná til þeirra hreppa? Það fellur undir úrskurð ráðh. Hér og þar hefir verið mikið um lambalát. Hjá einum 3 bændum, sem ég veit um í vetur, hefir frá ?–½ af ánum látið lömbunum. Ætti að fella niður gjaldið í þeim hreppum, sem þeir búa í? Ég álít varhugavert að samþ. þetta svona, en það mætti ræða það í fullri alvöru, hvort ekki eigi alveg að leggja niður 10 aura gjaldið. Það lífur út fyrir, að þetta ár sé garna- og mæðiveikin komin það víða, að 10 aura gjaldið muni ekki nema meiru en nálægt 30 þús. kr. á ári, og það dregur svo lítið um það upp í kostnaðinn, að það er spurning, hvort á að halda því áfram. Mér finnst, að það komi frekar til mála en að samþ. svona till., sem gæti orðið ákaflega mikið deiluatriði, hvernig á að framkvæma. Ég mun því verða á móti þessari till., en ég hefi ekki tekið afstöðu til þess, hvernig ég myndi snúast við till. um, að 10 aura gjaldið yrði alveg fellt burtu.