11.04.1940
Neðri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

48. mál, eftirlit með sveitarfélögum

*Ísleifur Högnason:

Þó að allshn. hafi gert víðtækar breyt. við þetta frv., vantar enn mikið á, að það sé komið í það lag, sem vera þyrfti. Ég hefi því borið fram brtt. við frv. á þskj. 402. Ég legg ekki kapp á, að þær verði samþ., en vildi á þennan hátt benda hv. þm. á gallana. Brtt. er við 44. gr., og vil ég nú með nokkrum orðum benda hv. d. á, hvernig það er til komið, að þessi gr. er þannig sett í frv.

Þetta frv. er samið með hliðsjón af norsku l. um eftirlit með sveitarfélögum, en það getur ekki verið tilviljun, að í 44. gr. þessa frv. er eftirlitsmanni með sveitarfélögunum fengið miklu viðtækara vald en norsku l. gera ráð fyrir. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp 24. gr. í norsku l. Hún hljóðar þannig:

„Eftirlitsstjórnin getur, þegar sveitar- eða bæjarstjórn hefir verið gefinn kostur á að láta uppi álit sitt, og að fengnu samþykki ráðuneytisins, ákveðið, að selja skuli fasteignir eða aðrar eignir, sem bæjar- eða sveitarfélagið þarf ekki með til eflingar þeim framkvæmdum, er bæjar- eða sveitarfélagið þarf að annast um eftirlitstímann, eða reka eignirnar svo, að arðinum sé varið til að greiða kröfuhöfum.“

Höfuðmunurinn er sá, að hér er gert ráð fyrir eftirlitsstjórn, sem á að fara með málefni bæjar- og sveitarfélaga, sem eru undir eftirliti, en í frv. er aftur á móti gert ráð fyrir, að eftirlitsmaðurinn einn hafi heimild til þess að selja eða leigja eignir bæjar- eða sveitarfélags. Þessi eftirlitsstjórn er skipuð af konungi, en auk þess hefir sveitar- eða bæjarstjórn sú, sem á hlut að máli, rétt til að kjósa einn mann og kröfuhafi einn. Það gefur auga leið, að það er tryggara, að þessi mál séu í höndum stjórnskipaðrar n., þar sem einnig eru fulltrúar kröfuhafa og bæjar- eða sveitarstjórnar, sem undir eftirliti er, heldur en að eftirlitsmaðurinn sé einráður um þessi mál. Það stendur hér að vísu, að bæjarstjórn geti fengið að láta álit sitt í ljós, en það bindur á engan hátt eftirlitsmanninn um, hvað gera skuli.

Ég sem sagt vil aðeins leiða þetta skýrt fram, hvað ég á við með þessu. Ég álít, að ekki sé nærri því búið að gera þær breyt. á þessu frv., að það geti kallazt aðgengilegt.

Um fyrri liðinn er það að segja, að ég legg til, að eftirlitsmaðurinn sé ekki á föstum launum. Hann á vitanlega ekkert að gera, nema bæjarfélag sé sett undir eftirlit. En að hafa mann á föstum launum er aðeins til þess að láta hann hafa 6000 kr. laun, enda þótt ekki sé tryggt, að hann geri nokkurn skapaðan hlut.