05.03.1940
Efri deild: 10. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

42. mál, húsaleiga

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Það hefir nú verið rætt um nokkur atriði þessa frv., sem mér virðist rétt, að gætu komið til athugunar og viðræðna í hv. allshn., eða þá að bornar yrðu fram brtt. um þau atriði, enda þótt ég telji sum þeirra þess eðlis, að þeirra vegna þurfi varla að bera fram brtt. við frv. eins og það liggur fyrir, en vel mætti þó athuga, hvort ekki væri ástæða til, að það væri skýrar tekið fram.

Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) nefndi 3 atriði, sem hann vildi benda hv. allshn. á í sambandi við þetta frv. Í fyrsta lagi skýlaust bann við hækkun á allri húsaleigu, en mér virðist, að eftir 1. gr. þessa frv. geti komið til álita að hækka leigu á húsnæði einmitt vegna þeirra ástæðna, sem hv. 1. þm. Eyf. drap á, en vel má vera, að réttara væri, að það kæmi skýrt fram í frv. Ég sé ekkert athugavert við það, þó að húsaleigunefnd yrðu gefnar frjálsar hendur um breyt. á leigumála til samræmis við þær hækkanir, sem orðið hafa á vissum liðum, sem mikið veltur á. Ég tel það án efa eitt af hlutverkum húsaleigunefndar, þó að það sé ekki tekið fram berum orðum í frv., að ef húsnæði er leigt með vissum hlunnindum, eins og hv. 1. þm. Eyf. gat um, t. d. hita eða ljósi, þá er það hlutverk húsaleigunefndar að aðgreina það, ef það er ekki aðgreint sérstaklega í leigumálanum. Það er að sjálfsögðu engin sanngirni í því, að húseigandi geti ekki tekið hærri húsaleigu fyrir húsnæði sem leigt er með hita, en upphaflega var ákveðið, enda þótt kolaverðið sé orðið miklu hærra. Það er ekkert réttlæti í því að ganga þannig á rétt einstakra manna og ekki ætlazt til þess með frv. En þetta er líka atriði, sem getur verið spurning um, hvort ekki ætti að taka skýrar fram í frv. en gert er. Að mínu viti er húsaleigunefnd skyld til að úrskurða um þau vafaatriði, sem upp kunna að rísa, eins og t. d. þetta, sem hv. 1. þm. Eyf. benti á.

Ég álít líka rétt, eins og hann drap á, að ef leigusali segir upp húsnæði af þeim ástæðum, að húseigandinn sjálfur þurfi að nota íbúðina, geti stundum verið ástæða til að ætla, að það sé yfirskinsástæða, og hafi leigutakandi fengið grun um, að það sé svo, þá sé honum heimilt að snúa sér til húsaleigunefndar og láta hana rannsaka þessar ástæður, og sé að hennar dómi eingöngu um yfirskin að ræða af hálfu leigusala, getur húsaleigunefnd ógilt uppsögnina. Ég álít, að þetta sé hægt samkv. þessu frv. eins og það liggur fyrir, en hefði ekkert á móti því, að það væri tekið fram með skýrum ákvæðum í frv.

Hv. 1. þm. N.-M. (PZ) gat um það við þessa umr. frv., hve viðhaldið væri mikill hluti af kostnaðarverði húsa. Ég skal ekkert dæma um, hvort hann hefir tekið svo mörg hús til athugunar, að á því megi byggja, en mér þykir alls ekki ósennilegt, að það muni láta nærri sú upphæð, sem hann tilgreindi. Það er líka athugunarvert út af afgreiðslu málsins hér í hv. Ed. og á Alþ. yfirleitt fyrir hv. þm. að gera sér grein fyrir, hve viðhaldið er mikill hluti af kostnaðarverði húsanna. En að sjálfsögðu hækkar viðhaldskostnaðurinn ekki jafnmikið og margt annað. Sumt af byggingarefni, a. m. k. hið innlenda, hefir líklega ekki hækkað í verði mjög mikið, og verðhækkun á aðfluttu byggingarefni er mjög misjöfn eftir því, hvaða tegundir er um að ræða. Það er því töluvert flókið reikningsdæmi að áætla, hve mikið kostnaðurinn við viðhald húsanna muni hækka frá því, sem var fyrir stríð.

En mér finnst rétt að benda á öll þessi atriði, sem hafa komið fram í umr. um frv. Af minni hálfu tel ég það fyllilega athugunarvert, hvort rétt sé að láta þetta koma að einhverju leyti skýrar fram í frv. en þegar er orðið. Það var alls ekki meiningin með þessu frv. að koma í veg fyrir það, að húseigendur gætu hækkað leigu fyrir þau hlunnindi, sem fólgin eru í upphitun, þegar kostnaðurinn við upphitun hefir hækkað stórkostlega, né að húseigendur eða leigusalar gætu notað það sem yfirvarp, að þeir þyrftu að nota húsnæðið handa vandamönnum sínum til að losna við leigjendur. Það átti að girða fyrir þetta hvorttveggja með þessu frv., en þó má vel vera, að réttara væri, eins og hv. 1. þm. Eyf. benti á, að um þetta væru skýr fyrirmæli í l.