11.03.1940
Efri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

42. mál, húsaleiga

Brynjólfur Bjarnason:

Ég hefi borið fram brtt. við þetta frv. Ég flutti reyndar fyrir nokkru annað frv. um húsnæði, og þetta frv., sem nú er komið frá hv. allshn., fjallar um annan aðalþáttinn í því frv., sem sé það, að koma í veg fyrir hækkun á húsaleigu. Hinn aðalþátturinn í mínu frv. fór í þá átt, að koma í veg fyrir, að hægt sé að varpa mönnum út á götuna, þó að þeir geti ekki um stundarsakir greitt húsaleigu vegna atvinnuleysis, og eins að koma í veg fyrir, að húseigendur þurfi af þeim ástæðum að missa húseignir sínar. Svo eru ákvæðin í mínu frv. um stóríbúðaskatt til að standa straum af kostnaði við þessar ráðstafanir, og þarf ég ekki að bæta neinn við það, sem ég sagði, þegar frv. var hér til umr., því að ég tel þetta mál nægilega rökstutt.

Í frv. því, sem hér er til umr., eru að vísu ýms atriði, sem ástæða væri til að breyta, en ég hefi aðeins lagt fram eina brtt. um atriði, sem ég tel þýðingarmeira en önnur. Hv. 1. þm. Eyf. benti á það við 1. umr., að í frv. þyrftu að vera skýrari ákvæði til þess að koma í veg fyrir, að húseigendur segðu leigjendum upp húsnæði undir því yfirskini, að þeir þyrftu að nota það handa sér eða sínu skylduliði. Ég er honum sammála um þetta, og ég flutti ekki brtt. í þessa átt, því að ég bjóst við, að hann myndi gera þetta, og býst við því enn.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um brtt. hv. allshn. 2. brtt. n. er um það, að skipa skuli sérstaka húsaleigun. í Reykjavík, og skulu í henni vera þrír menn, einn skipaður af hæstarétti, annar af Fasteignaeigendafélagi Reykjavíkur og hinn þriðji af Alþýðusambandi Íslands. Þessi n. myndi nú vera þannig skipuð, að leigjendur í Reykjavík ættu þar engan fulltrúa. Alþýðusambandið er auðvitað ekki nein samtök leigjenda, heldur pólitískur flokkur. Það er ekki einu sinni verkalýðssamtök, eins og hv. frsm. vildi vera láta, er hann sagði, að það væri samnefnari verkalýðsfélaganna. Þetta er ekki rétt. Fyrst og fremst er fjöldi verkalýðsfélaga alls ekki í sambandinu, og það fjölmenn félög eins og Dagsbrún, og auk þess er stj. þessa sambands í raun og veru stj. pólitísks flokks, sem kosin er af þeim mönnum einum, er fylgja þessum pólitíska flokki. Og ég þykist vita, að í stj. þessa sambands séu fleiri húseigendur en leigjendur, og væri fróðlegt að athuga, hvort svo væri ekki.

Annars getur verið nokkur vandi að finna leið til þess að leigjendur geti átt fulltrúa í þessari húsaleigun., þar sem þeir hafa engan félagsskap með sér hér í bæ. Hinsvegar tel ég rétt, að í l. sé sett það ákvæði, að ef leigjendafélag sé til, þá skuli það skipa einn þessara manna í n. Ef svo væri, myndi sjálfsagt ekki líða á löngu þar til leigjendafélag yrði stofnað.