11.03.1940
Efri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

42. mál, húsaleiga

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Út af brtt. hv. allshn. get ég lýst yfir því fyrir mitt leyti, að ég get fallizt á hana, og er það í samræmi við það, sem ég lýsti yfir við 1. umr. í tilefni af ræðu hv. 1. þm. Eyf., en hann talaði þar um ýms atriði í brtt. hv. allshn. Um fyrri brtt. hv. n. þarf ég ekki að tala, þar sem ég ræddi um það atriði við 1. umr.

Það er ekki tilgangurinn með frv. að íþyngja húseigendum, heldur að tryggja það, að þeir geti ekki notað sér neyð almennings og húsnæðisvandræði þau, sem viðbúið er, að verði, til þess að hækka leigu að ástæðulausu. Þetta er tilgangur frv. Um þetta er skýrar að orði komizt í brtt. hv. n., og hefi ég ekkert út á hana að setja.

Hv. 1. þm. N.-M. taldi það varhugavert að heimila hækkun á húsaleigu, sem hefði verið óeðlilega lág, þegar l. öðluðust gildi. Þetta getur verið, en eins og einhver hv. þm. kallaði fram í, hefir 5. gr. að geyma ákvæði, sem afstýrir því, að þetta verði misnotað.

Um 2. brtt. get ég líka verið hv. frsm. sammála. Úr því að húseigendur hér í bæ hafa myndað með sér fjölmennan félagsskap, er ekki óeðlilegt, að þeir skipi einn mann í n. Þegar húsaleigun. sú, sem nú situr, var skipuð af ríkisstj., gætti hún þess, að annar hinna tveggja stjórnskipuðu nm. væri leiguseljandi, en hinn leigutaki. Hinsvegar mun það hafa verið meining hæstaréttar, að oddamaðurinn, sem hann skipar, væri húseigandi, sem ekki væri leigusali, og svo mun vera nú. Þannig tel ég n. bezt skipaða, að oddamaður sé slíkur húseigandi, og svo hinsvegar hvor maðurinn frá sínum aðilanum, húseigendum og leigutökum. Þó yrði að breyta til frá því sem nú er, þannig að félag húseigenda skipaði annan manninn úr sínum hópi, en Alþýðusambandið hinn úr hópi leigutaka. Það er aðeins sá galli á þessu, að ég held, að svo vel hafi tekizt til um skipun núverandi n., að óvíst er, að hægt sé að breyta þar um til batnaðar. Þessi n.skipun hefir heppnazt vel í framkvæmdinni, og mælir það á móti breyt., en eðli málsins mælir með því, að þessi n. sé þannig skipuð sem hv. allshn. leggur til, og hefi ég ekkert við það að athuga.

Þau orð, sem hér hafa fallið um það, að Alþýðusambandið gæti ekki hagsmuna leigutaka, tel ég ekki svaraverð. Það myndi útnefna leigutaka í n., og held ég, að hagsmunum þeirra væri vel borgið með því. Fjölyrði ég svo ekki frekar um þetta mál, en get þess aðeins, að brtt. hv. allshn. eru þannig, að ég hefi ekkert út á þær að setja og tel þær jafnvel betri en ákvæði frv. sjálfs.