11.03.1940
Efri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

42. mál, húsaleiga

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Hv. 1. þm. Eyf. kom með fyrirspurn til allshn., hvort hún hefði tekið til athugunar aths. hans um yfirskinsástæðu á uppsögn húsnæðis. En ég hefi því að svara, að n. hefir tekið þetta mjög til athugunar og komizt að þeirri niðurstöðu, að í niðurlagi 4. gr. sé svo vel gengið frá þessu sem kostur er á og því ekki ástæða til að setja breyt. inn í gr. með hliðsjón af aths. við töldum, að ekki væri hægt að hafa þetta öllu betra heldur en að láta n. á hverjum tíma skera úr um þessi mál. Það myndi aðeins orka tvímælis, ef breytt yrði orðalagi gr. frá því sem nú er. Hinsvegar held ég, að n. sé vel ljóst, að lakmarka þurfi vald húseigenda til að segja upp húsnæði, en þetta er mjög viðkvæmur punktur í löggjöfinni.

Hv. 1. þm. Reykv. benti á ýmsar ástæður, sem gætu oft verið tilefni fyrir húseiganda til að segja upp leigunni, þó að ekki væri vangreiðslu til að dreifa. En hér er gert ráð fyrir, að lagt sé undir mat n., hvort þessar ástæður séu svo veigamiklar, að tilefni sé til uppsagnar. (MJ: Er það í l.?) Það er skýrt tekið fram í niðurlagi 4. gr. Viðvíkjandi ákvæði 2. gr. um að slíta leiguskilmálum álít ég, að ekki sé bót að því að koma með tæmandi upptalningu í því efni. Ég þekki dæmi þess, að eftir l. frá 1917 voru búnar til tylliástæður til þess að losna við leigjendur, og ekki alltaf heiðarlegar þær aðferðir, sem notaðar voru til þess. Hinsvegar er ég sammála hv. 1. þm. Reykv., að leigjendur gæti ekki alltaf sóma síns, og komi ekki vel fram gagnvart öðrum leigjendum og húseiganda, og í því liggur vandinn. Þess vegna er nauðsynlegt, að einhverjir aðilar séu til að dæma um, hvort réttlátt sé að losna við leigjendurna eða ekki. En það er erfitt að setja um þetta fastar skorður í löggjöf. Eins og ég sagði í framsöguræðu minni, geng ég þess ekki dulinn, að húseigendur æskja engra takmarkana í þessu efni, en ég býst við, að Alþ. líti svo á, að allshn. hafi fulla ástæðu til að vilja lögfesta það, enda er frjálsræði á þessu sviði stórhættulegt.

Ég skal svo svara hv. 1. þm. Reykv. með örfáum orðum. Hann talaði mikið um, að með þessum l. yrði bannað að hækka húsaleigu. Þetta er ekki rétt, því að með brtt. n. er fyllilega tekið tillit til þeirra auknu skatta, sem kunna að verða lagðir á fasteignir. En með því að hækka leiguna er verið að gefa mönnum möguleika til þess að braska með húseignir. Allar þær takmarkanir, sem settar eru í sambandi við styrjöldina, eru til að koma í veg fyrir það, að menn geti fengið stríðsgróða af eignum sínum og iðju. Hvað er gert um alla verzlun? Þar er sett verðlagsn., sem ákveður hámarksverðið, og það er alls ekki óeðlilegt, þó að hér séu líka sett einhver takmörk. Hann minntist á í þessu sambandi, að mikil eftirspurn myndi verða eftir húsnæði, og er ég honum alveg sammála um það. Árlega fjölgar hér í bænum um 200 íbúa, og til þess að fullnægja þessari eðlilegu fjölgun verður að byggja á hverju ári sem því svarar. En það eru ekki miklar líkur til, að hægt verði að byggja, meðan núverandi ástand helzt um örðugleika á innflutningi byggingarefnis. Með því verðlagi, sem nú er, myndu ný hús kosta ærna peninga og erfitt yrði að standast kostnaðinn af þeim. N. leitaði upplýsinga hjá byggingarnefnd bæjarins, hvort ekki lægju fyrir beiðnir um leyfi til að byggja, og fékk það svar, að nú sem stæði væri sáralítið um slíkar beiðnir og af skiljanlegum ástæðum. Einmitt þessi væntanlegi húsnæðisskortur hlýtur að leiða af sér möguleika til að okra á húsnæðinu, ef allt væri frjálst. Þetta frv. er einn liðurinn í þeim ráðstöfunum, sem Alþ. og ríkisstj. hafa gert síðastl. ár til þess að reyna að halda niðri verðlagi í landinu, og arftaki þeirra ráðstafana, sem gerðar voru með gengisskráningarl. í fyrra. Tvímælalaust voru þau l. talin nauðsynleg. Ég hefði gaman af að heyra þau rök, að ekki væri nú ástæða til ráðstafana, sem gerðar voru á sínum tíma með gengisl.

Hér í bænum eru ekki margir menn, sem lifa á húseignum sínum. Yfirleitt er ekki algengt, að fólk leggi peninga sína í hús, en ekki á banka, í því skyni að fá meiri vexti af því. Þessir menn hafa tekið á sig áhættuna og því sanngjarnt, að þeir fái dálítið hærri vexti af fé sínu. Til þessa er líka tekið tillit í frv., þar sem tryggð er greiðsl. leigunnar og látið varða brottrekstri úr íbúðinni. Leigjendur munu líka greiða húsaleiguna frekar fyrir húsnæðisskortinn, sem sýnilegur er framundan. Af þessu sést, að rentufóturinn er betur tryggður en áður, og einnig séð fyrir hagsmunum húseiganda í frv.

Hv. þm. minntist á, að þessi l. næðu aðeins til Reykjavíkur. Þetta er ekki rétt. Lögin ná til allra kaupstaða og sveita, þar sem húsnæði er selt á leigu. Frv. gerir ráð fyrir því, að utan Reykjavíkur starfi ekki sérstakar húsaleigun., heldur sjái fasteignamatsn. um framkvæmd l. Mér finnst þetta atriði ekki skipta neinu máli. Hér er farin sú millileið, að starfandi n. í hverjum bæ grípa hér inn í og gegna þessu starfi. Við höfum ekki séð ástæðu til að breyta þessu ákvæði, og er það alls ekki svo mikilvægt, að það sé orsök til deilu. Læt ég svo útrætt um þetta mál að sinni.