18.03.1940
Efri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

42. mál, húsaleiga

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Ég vildi, áður en þetta mál er afgr. frá þinginu, stuttlega láta í ljós mitt álit á málinu í heild sinni. Ég hefi ekki orðið var við það í þeim umr., sem hafa farið fram, að það hafi nokkurstaðar bólað á þeirri hugsun, að nokkra skilgreiningu ætti að hafa á því, nú þegar ekki má breyta neinni húsaleigu, hvort sú húsaleiga, sem hefir gilt á þeim og þeim stað, hefir verið há og ósanngjörn eða lág og sanngjörn; nú skal setja allt í sömu skorður. Þar, sem húsaleigan hefir verið ósanngjörn, skal hún vera það áfram. Þetta er eitt af þeim atriðum, sem mér finnst, að þeir, sem hafa verið forgöngumenn þessa máls, ættu að taka tillit til. Mér finnst hér vera verið að reyna að fyrirbyggja eitthvað, sem menn búast við, að komi, en ekki er komið. Ég hefi ekki vitað neitt til þess, að húseigendur séu farnir að hækka húsaleiguna (PZ: Þeir geta það ekki). Nú, er það ekki nægilegt? En hvað verður 11. maí? Nú sér maður svo margar auglýsingar um húsnæði í blöðunum, að ekki er hægt að telja víst, að húsaleiga rjúki upp úr öllu valdi. Þetta er nú það fyrsta, en svo er sá stóri agnúi á, að hér er áreiðanlega stigið spor til þess, að ómögulegt sé að halda áfram að byggja yfir fólk hér í Reykavík, og mér þykir kynlegt, að menn skuli ekki sjá það, að slíkar hömlur á því að byggja hús hér í Reykjavík hafa þær tvöföldu verkanir, að hækka húsaleiguna á einhvern hátt, jafnvel þótt lög séu sett um hana, og að ennþá minnkar sú litla vinna, sem ennþá er við húsabyggingar hér í Reykjavík. Ég býst við, að menn svari því, að það verði hvort sem er ekkert byggingarefni flutt inn, en þetta er talað út frá því ástandi, sem nú er, og engin vissa er fyrir því, hvað skeður næsta ár. Ég tel, að þegar svona löggjöf er komin á, verði hún kærkomin þeim, sem vilja, að ekki verði byggt í Reykjavík. Það er líklega óhætt að segja, að það sé heill stjórnmálaflokkur, sem lætur það boð út ganga, að í Reykjavík sé of mikið byggt. En þörf fólksins segir annað, ef rétt er það, sem komið hefir fram í umr. um þetta mál, að þörfin aukist um 200 íbúðir á ári. Mér þykir sem hér sé um vafasamt atriði að ræða, ef skoða á þetta mál hagsbótaatriði fyrir almenning, og það á fleira en einu sviði. Ég er ekki viss um, að ég vilji kaupa það því verði, að húsaleiga haldist í sömu skorðum og nú, að stöðvun komist á byggingar og að ennþá bætist ofan á það atvinnuleysi, sem fyrir er í bænum. Hér hefir verið nokkuð rætt um stimpilgjald, sem koma á á húsaleigusamninga. Réttlætið er þar ekki meira en svo, að það er alveg sama stimpilgjaldið fyrir að leigja út dýra íbúð, sem kostar svo hundruðum króna skiptir, eins og fyrir að leigja út eitt kvistherbergi, sem kostar 20 kr. eða svo. Þetta er ekkert verulegt atriði, en ég bendi bara á það til þess að sýna fram á, að þetta er bæði með stóra og smáa agnúa. Það sýnir, að það fer svo með þessi lög eins og aðra vanburða löggjöf síðari tíma, sem borin er uppi af sósialistum og kommúnistum og stuðningsmönnum þeirra, að þar höggur sá, er hlífa skyldi. Þegar á að fara að knýja fram þvingunarlög og halda niðri húsbyggingum, svo að menn eru ekki sjálfráðir sinna eigna, er það a. m. k. í mínum augum mjög vafasamt.

Ég er þess vegna ekki í neinum vafa um mína afstöðu. Ég greiði atkv. móti þessu húsaleigufrv., vegna þess að það er mín sannfæring, að það er leiðin til þess að auka vandræði og gera þeim ógagn, sem það á að koma að gagni.