05.04.1940
Neðri deild: 31. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

42. mál, húsaleiga

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég vildi aðeins minnast nokkrum orðum á brtt. allshn. Það eru tvær efnisbreytingar frá ákvæðum frv.; um herbergi, sem leigð eru út frá íbúðum, og um skipun húsaleigunefndar. Hvað snertir skipun húsaleigunefndar eru till. n. í samræmi við það, sem var í frv., þegar það var lagt fram í Ed., og get ég fallizt á, að frv. verði aftur breytt í það horf, sem var í byrjun hvað þetta snertir, og vil taka það fram, að það er síður en svo, að nokkrar umkvartanir hafi komið fram út af störfum húsaleigunefndar hér í Reykjavík, og hefir val hennar tekizt vel. Væri því vel við unandi, að hún væri skipuð á sama hátt. Hin efnisbreytingin er um það að undanskilja ákvæðum laganna einstök herbergi, sem leigð eru út frá íbúðum. Ég er hræddur um, að það ákvæði mundi leiða til þess, að tilraunir yrðu gerðar til þess að fara kringum ákvæði laganna. Ég sé enga þörf á því að undanskilja þessi herbergi og get því ekki mælt með þessari breytingu.

Aðrar brtt. eru smávægilegar, en ég vil þó minnast á brtt. n. um orðin, sem eiga að bætast inn í 1. gr. Mér finnst þau opna nokkuð viðtækt svigrúm um, hvað til greina gæti komið til þess að hækka húsaleigu, og ég er ekki viss um, að rétt sé að gefa svo undir fótinn með það, og mundi það verða til þess að skapa frekari ágreining en orðinn er um það atriði. Ég vildi spyrja hv. n. að því, hvort hún hafi haft nokkur önnur atriði í huga en þau, sem talin eru upp í gr., þegar hún leggur til, að þessum almennu orðum „og annars þess háttar“ sé bætt inn í, þar sem þessi orð opna gáttirnar meira en eðlilegt er. Í öðru lagi er það þar, sem nefndin leggur til, að í stað orðsins „óþolandi“ komi orðin „verulega óþægilegt“, og finnst mér, að einnig sú brtt. stefni í þá átt, að gera svigrúmið meira, en ég legg ekki verulega upp úr því.