05.04.1940
Neðri deild: 31. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

42. mál, húsaleiga

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Það, sem n. meinti með því að setja þarna orðin „og annars þess háttar“, var það, að hún vildi ekki útiloka, að komið gætu fram einhver þau atriði, sem húseigendur með rökum gætu sýnt fram á, að ættu að valda hækkun á húsaleigu. N. vildi fyrirbyggja, að það gæti skoðazt sem tæmandi, sem talið var upp. Ég vil aðeins geta þess út af því, sem hv. ráðh. sagði um einstök herbergi, að skv. 1. gr. er skylt að leggja fyrir húsaleigunefnd alla leigusamninga, sem gerðir eru eftir gildistöku laganna. Nú leiðir það af sjálfu sér, að það er ekki tilgangurinn að gera þetta þannig, að það verði óeðlilega umfangsmikið, en ef ekki má leigja út eitt herbergi í einn mánuð, án þess að það komi undir þessi lög, leiðir það af sjálfu sér, að starf húsaleigunefndar yrði svo mikið, að hún mundi ekki komast yfir það. Herbergi eru hér leigð út til ½ mán. og eins mánaðar í senn, og ef fara á eftir þessu, yrði það ókleift verk. Þá er eitt, sem ég minntist ekki á áðan, og það er það, að viðhaldið á þessum herbergjum er meira en á leiguíbúðum, af því hve oft er skipt um leigutaka. Það er þess vegna aukin vinna fyrir húsaleigunefndina, að þurfa að setja sig inn í það, hvað veggfóður kostar á hverjum tíma. Ég meina, að við eigum ekki að setja þetta allt í viðjar, heldur sjá til þess, að húsaleiga hækki ekki. Þegar útlit er fyrir, að fjölskyldur muni þrengja að sér, verður framboðið á herbergjum meira, auk þess sem ókleift er að leggja alla samninga fyrir húsaleigunefndina.

Vænti ég svo, að hv. d. geti fallizt á þessi rök fyrir því að undanskilja einstök herbergi. Ég vil benda á það, að ekki er ætlazt til þess, að þessi lög gildi lengur en brýn nauðsyn krefur, og að heimilt er að fella þau niður með konunglegri tilskipun, og er það óvanalegt, að lög séu upphafin á þennan hátt.