01.04.1940
Neðri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

40. mál, alþýðutryggingar

Frsm. (Vilmundur Jónsson):

Hv. þm. A.-Húnv. (JPálm) bar upp fyrirspurn um það, hver kostnaður ríkissjóðs mundi verða af ákvæðum 8. gr. viðvíkjandi því að færa kostnað við berklaveiki af samlögunum yfir á ríkissjóð, eins og þar er ákveðið. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi aflað mér um þetta mál hjá tryggingarstofnun ríkisins, um árið 1938, en það er síðasta árið, sem fullkomnar skýrslur eru fengnar um, nam sá kostnaður, sem kæmi til endurgreiðslu úr ríkissjóði, 35500 kr. Um leið vil ég geta þess, að á sama tíma greiddu samlögin af frjálsum vilja til berklavarnarstarfsemi um 18 þús. kr. Samlögin leggja mikla áherzlu á það, að berklaveikiskostnaðinum verði af þeim létt, enda lá hann allur á ríkissjóði áður. Fái þau því ekki framgengt, má gera ráð fyrir, að þau neyðist til að kippa að sér hendinni um hin frjálsu framlög til berklavarnanna. Að réttu lagi geri ég því ráð fyrir, að kostnaðarauki ríkissjóðs af þessari breyt. nemi um 18 þús. kr. Að vísu getur orðið nokkur munur á þessu frá ári til árs. Eins og nú horfir með berklaveikina í landinu, tel ég ástæðu til að vona, að úr þessum kostnaði muni frekar draga heldur en að hann aukizt, að öðru leyti en því, sem kostnaður við sjúkrahúsvist kann nú að aukast um sinn vegna vaxandi dýrtíðar. Meira hefi ég ekki um þetta atriði að segja.

Að öðru leyti vil ég geta þess, að hv. þm. Seyðf., sem er forstöðumaður trygginganna, hefir borið fram 2 brtt. á þskj. 281, sem nú var verið að leita afbrigða fyrir. Þessar brtt. varða aðeins framkvæmdaratriði, svo sem hann mun gera nánari grein fyrir. Hann hefir rætt þær við n., og ég mun mega segja, að n. hafi engar aths. við þær að gera, en mæli með því, að þær verði samþ. eins og hann fer fram á.